Suður-Afríka, 2007. Viðskiptanefnd heimsækir landið í tilefni opnunar sendiráðs Íslands í Pretoríu. Ég er með sem viðhengi. Má ekki fara ein út af hótelinu, það er of hættulegt. Nýt sólar í hótelgarðinum í Jóhannesarborg, ríf í lóð í ræktinni. Starfsfólkið er farið að treysta mér og ber undir mig launaseðla sína. Finnst mér þetta eðlilegt? Þau hrista höfuðið þegar ég ráðlegg þeim að hafa samband við stéttarfélagið út af þessum smánarkjörum. Í Pretoríu er garður sendiherrans víggirtur og vaktaður. Glerbrot steypt ofan á háan múrvegginn og varðhundur á sólarhringsvakt. Við skoðum illræmd hverfi Jóhannesarborgar og minnisvarða um svartar blóðfórnir vegna apartheitstefnunnar. Í Höfðaborg njótum við leiðsagnar fyrrverandi samfanga Mandela um Robin Island og fáum að fara inn í klefann þar sem Mandela dvaldi átján af tuttugu og sjö árum sínum í fangelsi. Að opinberri heimsókn lokinni tökum við bílaleigubíl og ökum svolítið um.
Ég man ekki hvernig það vildi til en skyndilega stend ég ein á rútubiðstöð langt inni í landi. Reyndar ekki alein heldur umkringd fólki með annan litarhátt. Ég stend báðum fótum á þessari frjósömu, rauðu mold sem einkennir álfuna og allt í kringum mig er friðsælt fólk á leið úr vinnu. Ég hef lent í því áður að vera eina hvíta manneskjan í mannhafi. Bæði í Austurlöndum nær og fjær. Kippti mér ekki upp við það. En í Afríku er ég gripin ofsahræðslu. Óskiljanlegum, tilhæfulausum ótta líkum myrkfælni. Svartfælni. Ég hugsa um þessa stund þegar ég heyri fréttir frá Bandaríkjunum um dauðskelkaðar, hvítar konur sem hringja strax í lögreglu lendi þær í þeim lífsháska að vera einar í návist karlmanns af afrískum uppruna. Hvítar konur óttast slíka menn. Femínistar og friðarsinnar, konur sem kusu Hillary. Þessa dagana er mikið fjallað um hvað hvítar konur eru margfalt hættulegri svörtum mönnum en svartir menn hvítum konum. Þær hafa líf þeirra og örlög í hendi sér þegar þær grípa símann og hringja í lögreglu. En nú hafa þeir lituðu fengið vopn í hendur. Racism isn't getting worse, it's getting filmed.
Óþekkti listamaðurinn Bansky birti mynd á Instagram (sem ég get ekki deilt) af minningarkertunum um George Floyd að setja eld að bandaríska fánanum. Hann segir að kerfið hafi brugðist lituðum. Hvíta kerfið. Vandamálið sé eins og íbúð þar sem rör hefur sprungið. Vatnið lekur niður á neðri hæðina. Gallað kerfið gegnsýrir líf hinna lituðu en það er ekki þeirra að laga það. Hvernig gætu þeir það, þeim er ekki hleypt upp á efri hæðina. Vandamálið er hvítt. Lagi þeir hvítu ekki lekt rörið verður hurðinni að efri íbúðinni brátt hrundið upp, spáir Bansky. Ég hugsa um óttann sem greip mig í Suður-Afríku. Ég er hvíta kerfið. Ég bý á efri hæðinni. Hvernig laga ég lekann?
Athugasemdir