Þá eru hér spurningarnar tíu, og aukaspurningarnar:
Frá hvaða stað á Íslandi er myndin hér að ofan?
Og hver er karlinn á myndinni að neðan?
1. Hér er spurt um bandaríska tónlistarkonu, sem hét við fæðingu Angela Trimble en var ættleidd aðeins þriggja mánaða og fékk þá nýtt nafn. Hún er nú að verða hálfáttræð, en slakar hvergi á í töffaraskapnum. Meðal náinna samverkamanna hennar gegnum tíðina eru Jimmy Destri og Clem Burke og þó allra lengst Chris Stein. Hvað var hið nýja nafn Angelu Trimble?
2. Hvað heitir hafsvæðið milli Norður- og Suður-Ameríku?
3. Zil hétu lúxusbílar sem til skamms tíma voru framleiddir í Evrópuríki einu. Hvaða ríki var það?
4. Lili'uokalani hét drottning ein sem steypt var af stóli í heimalandi sínu árið 1893. Sett var á stofn lýðveldi en það fór allt í vaskinn og sex árum seinna innlimuðu Bandaríkin ríki drottningar. Hvar var það ríki?
5. Hvað kallaðist sá sænski kóngur sem gerði innrás í Rússland í upphafi 18. aldar en beið lægri hlut og dó loks við umsátur við virki í Noregi?
6. Hvað hét sú íslenska hljómsveit sem gaf út plötuna Emotional árið 2005, þar sem meðal annars er að finna lögin Nasty Boy og The One.
7. Þjóðhátíðardagur Íslands er 17. júní. Til minningar um hvað varð hann fyrir valinu?
8. Hver skrifaði bókina Undantekningin, sem út kom 2012?
9. Frá hvaða landi er fótboltamaðurinn Robert Lewandowski?
10. Egg eru afar vítamínrík, eins og allir vita. En hvað af hinum helstu vítamínum er EKKI að finna í eggjum?

Svörin:
1. Debbie Harry, söngkona Blondie.
2. Karíbahaf.
3. Sovétríkjunum, síðan Rússlandi, svo hvorttveggja er rétt.
4. Á Hawaii-eyjum.
5. Karl 12.
6. Trabant.
7. Fæðingu Jóns Sigurðssonar árið 1811.
8. Auður Ava Ólafsdóttir.
9. Póllandi.
10. C.
Og svörin við aukaspurningum:
Myndin að ofan er frá Öskjuvatni.
Karlinn er Hilmir Snær Guðnason í hlutverki sínu í leikritinu Fást.
Hér er svo þrautin frá í gær.
Athugasemdir