„Blóð er þykkara en vatn“ er orðtiltæki sem merkir að sýna beri skyldmennum ræktarsemi og er stundum notað sem skýring á því að við gerum ýmislegt fyrir fjölskyldumeðlimi sem við myndum hugsanlega ekki gera fyrir aðra eða að við umberum einhverja aðeins vegna þess að þeir eru tengdir okkur blóðböndum. Við viljum tilheyra fjölskyldunni, ekki vera útskúfuð, og því þarf mikið að ganga á til þess að við slítum þessi sifjabönd. En hvað gengur fólki til sem ákveður að slíta tengsl eða samband við einn eða fleiri fjölskyldumeðlimi? Slík ákvörðun er ekki léttvæg.
Fjölskylduslit
Fjölskylduslit eru meira en bara ágreiningur og mun flóknari en svik. Með fjölskylduslitum er átt við að einstaklingur hefur ákveðið að fara frá fjölskyldunni eða hætta samskiptum við einn eða alla meðlimi hennar eða að einhver annar en hann sjálfur hefur ákveðið að einstaklingurinn fari og að samskiptum við hann verði hætt.
Sjaldnast er einn aðili eða eitt atvik sem veldur fjölskylduslitum heldur fela þau í sér ákveðið ferli sem er langvarandi. Í upphafi er þetta gert til að draga úr augljósum eða duldum ágreiningi, kvíða og spennu milli einstaklinga. Samskiptin bera með sér að í fjölskyldunni sé skortur á trausti og nánu sambandi, þar ríki ólík gildi og þar með er talið mjög ólíklegt að fólk geti náð saman, jafnvel óþarfi eða bara alls ekki mögulegt.
Hvenær er í lagi að loka á fjölskylduna eða fjölskyldumeðlimi?
Stundum er nauðsynlegt að skapa ákveðna fjarlægð við fjölskyldumeðlimi eða fjölskyldu jafnvel þó að það þýði að hætta verði öllum samskiptum, tímabundið eða um óákveðinn tíma. Engin manneskja ætti að umbera skaðlega framkomu, jafnvel þó að hún komi frá fjölskyldumeðlimum. Slík skaðleg framkoma gæti til dæmis verið dómharka og stöðug gagnrýni, trúnaðarbrestur og vantraust, gaslýsing (e. gaslithing), þarfir annarra hundsaðar og sveiflast er á milli öfgafenginnar jákvæðrar og neikvæðrar framkomu.
Slík framkoma af hálfu fjölskyldumeðlima getur verið ein megin ástæða þess að einstaklingar leita sér ráðgjafar, án þess að hún komi skýrt upp á yfirborðið. Einstaklingur sem má þola skaðlega framkomu af hálfu fjölskyldumeðlima notar ýmsar leiðir til að takast á við hana, eins og til dæmis að halda sér í fjarlægð, en stundum er besta leiðin að loka á öll samskipti. Mikilvægt er að setja skýr mörk þó að það sé hægara sagt en gert og valdi mörgum óöryggi, sektarkennd og sorg.
Jafnvel þó að einstaklingur kjósi að halda samskiptum við fjölskyldumeðlim, sem sýnir slíka skaðlega hegðun, er mikilvægt að átta sig á því að með því halda samskiptin áfram að valda vanlíðan.
Rannsóknir sýna nefnilega að um 80% þeirra sem kjósa að slíta samskiptunum lýsa jákvæðum áhrifum þess, eins auknu frelsi og sjálfstæði.
Sökin sett á þann sem fer
Einstaklingurinn sem ákveður að setja fjölskyldumeðlimi mörk, og þar með hugsanlega loka á samskipti, er ótrúlega oft látinn bera sökina á vandanum, ekki síst þegar um konu er að ræða. Þeir fjölskyldumeðlimir sem sýnt hafa skaðlega hegðun munu halda því fram að þeir séu fórnarlömbin, af því að einstaklingurinn hefur ákveðið að forðast þá. Og þeir halda áfram að beita sömu aðferðum og áður.
Allir eiga rétt á að slíta samskiptum við tiltekna aðila í fjölskyldunni en því miður virðir markalaust og ofbeldisfullt fólk oft ekki þá ósk, það heldur jafnvel áfram baráttu um umgengni þegar það er ljóst að hinn aðilinn, oft uppkomin börn, frábiðja sér slík samskipti. Þannig mál hefur verið í opinnberri umræðu undanfarið og rétt að vitna í orð Dofra Hermannssonar þar sem hann virðist alfarið hunsa tilfinningar og afstöðu dætra sinna í yfirlýsingu þar sem hann segist vilja „byggja upp samband að nýju“ þrátt fyrir að þær „upplifi baráttu [hans] fyrir að halda sambandi við þær sem andlegt ofbeldi gagnvart sér.“
Þarfnast umræðu
Fjölskylduslit eru ekki svo óalgeng og þó að okkur vitanlega hafi tíðni þeirra ekki verið rannsökuð hér á landi er talið að þau hafi áhrif á eina af hverjum fimm fjölskyldum á Bretlandi og að 10 prósent af mæðrum séu ekki í sambandi við alla vega eitt af börnunum sínum.
Einstaklingar sem eru ekki hluti af fjölskyldu eru yfirleitt ekki að tala um það opinberlega óháð því hver ástæðan er. Það skiptir kannski ekki öllu máli en hins vegar er brýnt að ávarpa efnið og draga það fram í dagsljósið svo það mögulega geti hjálpað þeim sem eru í þessum aðstæðum.
Athugasemdir