Eitt það fallegasta við Ísland er samstaða þjóðarinnar. En hennar mesti styrkleiki verður stundum að veikleika.
Þótt samfélagsleg samstaða sé í grunneðli sínu góð getur hún valdið þeirri hugsanavillu að sérhagsmunir fari saman við almannahagsmuni.
Katrín Jakobsdóttir flutti ávarp til þjóðarinnar í síðustu viku þar sem hún lýsti styrkleikanum, hvernig við Íslendingar höfum „treyst á samstöðu okkar“ í viðbragði við COVID-19 faraldrinum frekar en að beita valdi með útgöngubanni. „Við höfum saman risið undir þeirri ábyrgð og getum öll verið stolt af því að tilheyra slíku samfélagi,“ sagði hún.
Þeir sem á þurfa að halda
Fjórum dögum eftir ávarpið þurfti Katrín að svara fyrir ákvörðun og útfærslu ríkisstjórnar hennar á stuðningi við fyrirtæki, eftir að í ljós kom að stór og stöndug fyrirtæki væru að nýta sér stuðning um leið og þau greiddu eigendum sínum arð eða kæmu fjármunum til þeirra með vaxandi vinsælli krókaleið, að kaupa upp eigin hlutabréf.
„Ég hefði að sjálfsögðu gefið mér það að þetta yrði nýtt eingöngu af þeim fyrirtækjum sem á þyrftu að halda. Það var mjög skýrt frá upphafi að þetta væri ekki almennt úrræði fyrir fyrirtæki sem ekki þyrftu á að halda,“ sagði Katrín.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, var hissa á því að fjársterkir aðilar væru að nýta sér úrræðin. „Stjórnvöld þurfa að taka mjög skýra afstöðu gegn þessu, ef það er vilji þeirra,“ sagði hún í viðtali sem birt er í Stundinni. „Ég skynja það að viljinn er í þessa átt því þetta misbýður réttlætiskennd fólks. En samt vaða fyrirtæki í því. Ég er bara svo hissa á þessu.“
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafði í öðru viðtali um miðjan mars lýst því sem „algjörlega ótæku“ af hálfu Arion banka að greiða arðgreiðslu, eða kaupa eigin bréf „við þessar aðstæður, þar sem verið er að veita bönkunum tilslakanir“.
Ríkisstyrkur til eigenda
Fyrirtækin Marel, Arion banki, Festi, Hagar, Reitir, Skeljungur og Heimavellir hafa öll keypt upp eigin hlutabréf frá því að neyðarstigi var lýst yfir á Íslandi vegna COVID-19 og aðgerðaráætlun stjórnvalda fór í gang. Þannig hafa þau flutt fé úr fyrirtækjum til eigenda þeirra, á sama tíma og stjórnvöld nota almannafé til að halda fyrirtækjum á lífi.
Skeljungur, undir stjórnarformennsku Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem var skuggastjórnandi Glitnis í síðasta hruni, greiddi út 600 milljónir króna í arð til hluthafa sinna og keypti upp hlutafé af eigendum sínum fyrir tæpar tvö hundruð milljónir króna, á sama tíma og félagið sækir sér ríkisaðstoð, fjármagnaða af almenningi. Skeljungur ákvað í gær að skila peningunum eftir að Stundin og síðar fleiri fjölluðu um þetta.
Hagar, sem reka meðal annars lágvöruverðsverslanir Bónuss, Hagkaup, Útilíf, Reykjavíkurapótek, Olís og Zöru, þiggur ríkisstuðning á sama tíma og félagið borgar forstjóra sínum, Finni Árnasyni, 100 milljónir króna í starfslokagreiðslu.
Bónus býður betur og borgar framkvæmdastjóranum sínum, Guðmundi Marteinssyni, 300 milljónir króna í starfslokagreiðslur á þriggja ára uppsagnarfresti, eftir að hann ákvað að hætta störfum.
Þannig getur gerst það sem Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, segir í viðtali við Stundina að sé ríkisstyrkur til eigenda fyrirtækja.
Og hvers vegna? Vegna þess að þetta er ekki bannað með lögum og lögin eru á ábyrgð þeirra sem við kjósum til að bera ábyrgð á þeim fyrir okkar hönd.
Siðblinda eða samfélagsábyrgð?
Fyrir nokkrum árum var í samræmi við ráðandi hugmyndafræði að fyrirtæki væru í eðli sínu siðblind. Þeirra eina skylda væri að hagnast fyrir hluthafana. Á síðustu árum hefur síðan færst í vöxt að fyrirtæki taki upp stefnu um samfélagslega ábyrgð; geri meira en bara það sem er skylda samkvæmt lögum. Hvort þau eru raunverulega samfélagslega ábyrg, og endurspegli til dæmis siðferði viðskiptavina, starfsmanna og jafnvel eigenda, eða vilja bara vera það til að sannfæra neytendur og græða peninga, er annað mál sem skiptir kannski engu nema heimspekilega.
Samstaða okkar byggir á sameiginlegu gildismati og ætluðum sameiginlegum hagsmunum. Þegar þú getur hins vegar komist yfir hundruð milljóna króna af almannafé, eða milljarða af auðlindum í eigu almennings, með því að brjóta af þér siðferðislega en án afleiðinga, komum við fljótt að mörkum þess sem óformlegt taumhald getur áorkað. Skyndilega hefur einn aðili ríkan hag af því að brjóta gegn fjöldanum.
Vitað er út frá reynslu á einangruðum drengjaheimilum hér á landi og eftirlitslausum fangelsum að siðferði fólks getur umbreyst til hins verra þegar aðhalds nýtur ekki við eða þrýstingur er á samfélagslega fólsku.
Þess vegna var mikilvægt eftir bankahrunið að framfylgja lögum í tilfellum bankamanna sem höfðu brotið af sér, jafnvel þótt áberandi aðilar í þjóðlífinu berðust gegn því, til dæmis ritstjóri Fréttablaðsins, sem var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur, sem fann Sérstökum saksóknara flest til foráttu, í álitsgreinum áður og eftir að hún var ráðin.
Þrýstingur á eftirlitsleysi fjárfesta og fyrirtækja, svo auka megi svigrúm til allra athafna, er ekkert nýtt. En það er viðhorfið til þess sem aðskilur hugmyndafræði frjálshyggju frá annarri, eins og norrænni velferðarstefnu með líflegt atvinnulíf en sterkt kerfi og faglegt eftirlit.
Takmarkað taumhald
Fram hefur komið í Stundinni að á Íslandi er ekkert eftirlit með hlutabótaleið stjórnvalda. Í Svíþjóð hafa 100 manns það starf að veita því eftirlit að leiðin sé ekki misnotuð.
Á Íslandi ákváðu stjórnvöld að setja ekki skilyrði um að fyrirtæki slepptu arðgreiðslum eða hefðu sleppt arðgreiðslum í lög. Þá var í raun ekki nothæft skilyrði í lögum sem kemur í veg fyrir að fyrirtæki sem nýta skattaskjól í starfsemi sinni, fái björgun stjórnvalda, þótt skilyrði sé um „ótakmarkaða skattskyldu“ tiltekins félags.
Í félagsfræði eru gerð skil á milli formlegra og óformlegra reglna, og um leið formlegs eða óformlegs taumhalds. Munurinn liggur í því hvort reglur eru skrifaðar, eins og lög, eða hvort þær séu óskrifaðar eða jafnvel ómögulegt eða óæskilegt að skrásetja eða framfylgja, líkt og siðferði er að miklu leyti.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra beitir að miklu leyti sömu óformlegu nálguninni gagnvart hagnaðardrifnum fyrirtækjum eins og einstaklingum sem gerðu sitt besta til að smita ekki sjálfa sig eða aðra af COVID-19, að þau myndu siðferðis síns vegna eingöngu sækja fé í ríkissjóð ef þau virkilega þyrftu á því að halda. Og ef einhverjum finnst það ekki vera ríkisstuðningur, að ríkið yfirtaki fjárhagslegar skuldbindingar fyrirtækja eins og launagreiðslur, er auðvelt að elta peningana.
Þótt fyrirtæki sem staðin eru að siðleysi séu ekki lagalega ábyrg og muni ekki hljóta beinar fjárhagslegar refsingar af því að brjóta gegn óformlegum reglum, eru engu að síður óformlegar afleiðingar.
Almenningur getur til dæmis refsað Skeljungi og Bónus með því að sniðganga fyrirtækin, ef fólk sér ekki þess þá heldur að aðrir séu að brjóta líka af sér. Þessi óformlega nálgun krefst þess hins vegar að það sé gagnsæi og að fólk hafi tækifæri til að vita. Stjórnvöld hafa hins vegar ekki tryggt gagnsæi og því þurfum við að treysta á að fyrirtækin vilji svara því hvaða ríkisaðstoð þau hafa fengið. Hvers vegna er hægt að segja almenningi frá því daglega þegar fólk smitast eða læknast af veiru, en ekki hvaða fyrirtæki fá ríkisaðstoð?
Þótt almenningur geti haft óformleg áhrif sem neytendur, er fólk að því leyti til áhrifalaust gagnvart stærstu hagsmunablokk Íslands. Íslensku útgerðarfélögin eiga í raun ekki viðskiptavini hér á landi. Almenningur hefur enga leið til að veita þeim aðhald markaðslega.
Og nú bendir margt til þess að útgerðarfélögin muni standa uppi sem sigurvegararnir eftir COVID-19 faraldurinn.
Sameiginlegar auðlindir
Í öllum umræðum um kjaramál á Íslandi gleymist oft að hér á landi er til staðar sjálfvirkur launalækkari sem fer í gang þegar eitthvað bjátar á. Í kreppum fellur gengi krónunnar og laun landsmanna minnka um leið að raunvirði. Fall á krónunni veldur að 40% leyti sömu hækkun á verðlagi til lengri tíma.
Um leið styrkir þetta útflutningsiðnaðinn, til dæmis sjávarútveginn og ferðaþjónustuna, sem fær hærri tekjur fyrir vikið. Hrun krónunnar eftir banka- og gjaldeyriskreppuna 2008 olli því að þessar tvær greinar komust á flug. Á rúmum áratug jókst eigið fé sjávarútvegsins um 450 milljarða króna. Algert brot af þessari upphæð fór í tilraun útgerðarfélaga til að hafa áhrif á samfélagsþróun á Íslandi með kaupum og niðurgreiðslu á útgáfu Morgunblaðsins. Þrátt fyrir þessa miklu hagsæld útgerðanna, fóru þær fram á að fá frestun á greiðslu veiðigjalda vegna COVID-19 faraldursins.
Þótt útflutningur sjávarafurða hafi fallið það sem af er ári mun útgerðin hagnast verulega á viðvarandi lækkun krónunnar. Ef þannig fer geta útgerðarmenn nýtt sér hagnaðinn af notkun auðlindarinnar til þess að kaupa upp ýmsar aðrar eignir á landinu, eins og verið hefur. Teljumst við öll vera samherjar þegar laun okkar lækka en tekjur þeirra hækka af nýtingu auðlindar okkar?
Önnur stór auðlind Íslendinga er landið sjálft. Undanfarið hafa fleiri og fleiri náttúruperlur breyst með þeim hætti að landeigendur rukka fyrir aðgang undir þeim formerkjum að byggja þurfi upp innviði. Um leið verður til fyrirtæki í kringum náttúruperluna og almenningur nýtur ekki lengur gjaldfrjáls ferðafrelsis um hluta landsins.
Eitt slíkt dæmi er Raufarhólshellir við Þrengslaveg milli Reykjavíkur og Þorlákshafnar. Hann var áður opinn almenningi og taldist því almannagæði. Um 20 þúsund manns fóru í hellinn á ári hverju án þess að greiða fyrir það. Vegna ágangs með auknum komum erlendra ferðamanna var farið í framkvæmdir, til að verja hellinn, og byrjað að rukka inn. 95% þeirra sem borguðu inn hafa verið erlendir ferðamenn. Nú þegar ágangurinn er horfinn, og innviðir komnir, er komið nýtt markmið: Að viðhalda 13 stöðugildum við að mæta ágangi sem er ekki lengur. Nú snýst málið um að vernda fyrirtækið, störfin og fjárfestana, frekar en náttúruperluna. Auðvitað er alltaf betra að hafa leiðsögumenn og kannski skapast aftur meiri þörf fyrir þá. Þarna er hins vegar augljóst dæmi um hvernig almannagæði, rétturinn til frjálsrar farar, sem eru tekin, eru sjaldnast gefin aftur þótt forsendur gjaldtökunnar hverfi. Og við vitum alveg hver það eru sem munu aldrei geta borgað 20 þúsund krónur fyrir vísitölufjölskylduna til að fara inn í helli.
Fer launalækkarinn í gang?
„Við erum hér öll saman á eyjunni okkar og finnum hvað lífið er dýrmætt og finnum að við eigum öflugt, frjálst og opið umhyggjusamfélag. Það er ekki sjálfgefið og það er þess virði að berjast fyrir. Það höfum við sýnt og megum vita að það getum við saman,“ sagði Katrín í ávarpinu til þjóðarinnar.
Kreppan mun hins vegar snerta okkur á mismunandi hátt og sagan sýnir að baráttan er ekki endilega sameiginleg. Fullkomin samstaða er ómöguleg og óæskileg í marglaga og fjölræðislegu lýðræðisríki. Ónæmiskerfi samfélagsins rýrnar þegar trú á algera samstöðuna og stéttleysi tekur yfir. Við sáum það gerast þegar róið var öllum árum að því að við værum öll bankarnir og útrásarvíkingarnir okkar, þegar ráðherrar og forsetinn ferðuðust fyrir okkar hönd um heiminn þeim til stuðnings og til að vefa saman hagsmuni okkar. Allt væri þetta hluti af þjóðareðli, sem þjóðhöfðingi okkar mærði um lönd. Traust á bönkunum var yfirgnæfandi þegar þeir stunduðu skipuleg efnahagsbrot, markaðsmisnotkun, umboðssvik og fleira, til þess að vernda sjálfa sig og tiltrúna á sig.
Seðlabankinn hefur gert ráð fyrir því að verðbólga aukist nánast ekkert á Íslandi við COVID-kreppuna. Engu að síður hefur gengi krónunnar þegar fallið um 17 prósent gagnvart evru og 21 prósent gagnvart Bandaríkjadollara á árinu, þrátt fyrir inngrip Seðlabankans. Ef svo fer að fyrirtæki velti gengisveikingu og annarri kostnaðarhækkun vegna COVID-19 út í verðlagið, eins og þeirra hagsmunir eru, er sjálfkrafa tryggt að launþegar taka á sig skerðinguna.
Við erum því öll saman á eyjunni, en þegar kemur að því að tryggja að almannahagsmunum sé fylgt frekar en sérhagsmunum er nauðsynlegt að setja formlegar reglur og svo gera almenningi fært að mynda sér skoðun og ástunda það óformlega aðhald sem forsætisráðherrann leggur í hendurnar á okkur.
Athugasemdir