Mánudagur, vinnuvika framundan. Starfið er bæði krefjandi og skemmtilegt. Ég hitti áhugaverðasta fólk í heimi daglega í vinnunni. Fólkið sem ég vinn með er einstaklega forvitið, stundum spyr það óþægilega nærgöngulla spurninga. Það er oft fyndið, reitir af sér brandara. Það er skapandi úr hófi fram, getur búið til nýjan veruleika oft á dag. Syngur eins og vindurinn, lærir, skapar texta og lög á óþekktum hraða. En það er líka viðkvæmt, sumir sem ég vinn með þurfa mikinn stuðning og skilning frá umhverfinu. Fólkið sem ég vinn með er útivistarfólk af lífi og sál. Það tekst á við áskoranir í náttúrunni, fær vindinn í fangið, fagnar fyrsta snjónum jafnt og fyrstu sólargeislum vorsins. Það er er einstaklega vel útbúið til að stunda útivist og á viðeigandi fatnað. Samstarfsfólkið gleðst yfir jafnt litlum sem stórum hlutum. Það er sannarlega þverskurður af samfélaginu. Hver vill ekki vera hluti af svona frábærum samstarfshópi? Ég var það einu sinni og á kannski eftir að verða það aftur.
Ofurhressa árrisula fólkið
Fólkið sem ég lýsti hér að ofan vaknar á morgnana, gjarnan fyrir allar aldir, oftast ofurhresst um leið og það opnar augun. Það mætir með foreldrum sínum í leikskóla landsins þar sem tekur á móti því öflugur starfsmannahópur. Í hópnum eru leikskólakennarar sem sumir hafa numið við Háskólann á Akureyri. Þar er nefnilega í boði að stunda leikskólakennaranám. Við Háskólann á Akureyri er hægt að stunda námið í fjarnámi hvaðan af á landinu. En af því að við vitum að sumt verður fólk að læra saman þá eru öflugar námslotur á Akureyri hluti af skipulaginu. Námslotunum er ætlað að tengja fólk og fræði, nema og kennara, og ekki síst til að tengja saman nemana sjálfa, efla og styrkja hópvitund þeirra. Í lotum í leikskólakennaranáminu er gjarnan áhersla á að vinna að verklegum þáttum, að rýna saman, að skapa saman, að vera forvitin saman. En líka að hafa gaman saman. Gamlir nemar sem ég ræði við minnast flestir námlota með hlýju og smá öfund, þeir öfunda nema sem eiga þessa reynslu eftir.
Leikur er námsleið
Í náminu er áhersla á fræðilegan bakgrunn en líka verklega þætti. Leikurinn er lífstjáning og námsleið barna, hann er það mest skapandi sem nokkur einstaklingur tekur sér fyrir hendur. Leikurinn er fyrirbæri sem er skoðaður frá mismunandi fræðum, hann er heimspekilegur, hann er félagsfræðilegur, hann er sálfræðilegur og hann er sannarlega verklegur. Að skilja barnið og líf þess í gegnum leik er meðal viðfangsefna námsins. En margt fleira, sjálfbærni, náttúrufræði, skapandi vinna með stafræn verkfæri, sérkennslufræði, kynjafræði, skóli án aðgreiningar, svo fátt sé nefnt. Sennilega er fátt nám jafn fjölbreytt og kennaranám og þar eru líka fjölmargar leiðir til sérhæfingar.
Mig langar að hvetja ungt fólk til að skoða leikskólakennaranám í vor, ég get fullvissað það um að ég hef aldrei séð eftir mínu vali. Komdu að kenna.
Kristín Dýrfjörð er leikskólakennari og dósent við Háskólann á Akureyri.
Athugasemdir