Veitingahluti KEX hostel, Sæmundur í sparifötunum, er gjaldþrota og verður ekki endurreistur. Erfiðleikar hafa verið í rekstri staðarins um nokkurt skeið sem náðu svo hámarki eftir að kórónuveirufaraldurinn reið yfir þjóðina. Einn af eigendum KEX óttast að þetta sé aðeins eitt af mörgum gjaldþrotum sem framundan eru í veitingageiranum.
Eigandi skemmtistaðarins Gauksins tekur enn dýpra í árina og segist ekki sjá annað en allir skemmtistaðir verði gjaldþrota, komi ekki til stuðningur frá hinu opinbera. Staðan er sögð svo slæm að fjöldi skemmtistaða séu nú þegar tæknilega gjaldþrota.
Pétur Hafliði Marteinsson, einn eigenda KEX hostel, segir að gjaldþrot Sæmundar í sparifötunum hafi verið óumflýjanlegt. „Það hafa staðið yfir gríðarlegar framkvæmdir, fyrst á Hverfisgötunni og síðan bara allt í kringum okkur á KEX í langan tíma. Það hefur allt verið rifið upp þarna, það var 25 metra hola á bakvið hjá okkur þannig að aðgengi að staðnum hefur verið mjög lélegt. Síðan, með hruni WOW air og með færri ferðamönnum í kjölfar þess hefur reksturinn verið gríðarlega erfiður og það þarf síðan engum að koma á óvart að róðurinn hafi enn þyngst þegar að kórónaveiran mætti á svæðið. Það var tekið á það ráð að loka KEX og það verður ekki afturkvæmt með veitingahlutann, því miður. Hann bara skuldaði of mikið eftir þetta.“
Sárt að fólk missi vinnuna
Pétur segir að gistihlutinn, KEX hostel sjálft, sé ekki farið í þrot en það sé lokað. Hlutabótaleiðin svokallaða hafi verið farin þegar kom að starfsfólki en staðan sé erfið. „Staðan er mjög erfið og þröng og hún var það fyrir. Við vitum ekkert hvenær hægt er að opna aftur, það eru auðvitað engir ferðamenn á landinu. Mann grunar að þetta verði alls ekki fyrsta gjaldþrotið í þessum geira.“
„Mann grunar að þetta verði alls ekki fyrsta gjaldþrotið í þessum geira“
Pétur minnir þó á að það sem skipti máli sé að takast á við faraldurinn. „Þetta er sorglegt, þetta gjaldþrot, en svona er þetta. Það eru alvarlegri hlutir í gangi á landinu, fólk er veikt og líður illa og það hafa verið dauðsföll. Sárast er að við vorum með fólk í vinnu sem nú hefur misst vinnuna, því miður.“
„Ég get ekki ímyndað mér að neinn skemmtistaður muni standa þetta af sér að óbreyttu,“ segir Starri Hauksson, annar eigenda skemmti- og viðburðastaðarins Gauksins í miðborg Reykjavíkur.
Starri segir að verði ekki brugðist við og komið til móts við skemmtistaði með stuðningi verði þeir allir órekstrarhæfir. Það verði gríðarlega dýrt spaug, vegna þess mikla fjölda fólks sem vinnur í veitingabransanum, vegna listamanna og tæknifólks sem hafa atvinnu af skemmtanahaldi á stöðunum, og vegna mikilvægis staðanna þegar ferðaþjónusta tekur við sér að nýju.
Veitingastaðir einnig í vanda
Staðan er önnur hjá veitingastöðum sem margir hverjir hafa fundið sér farveg með heimsendingum. Þannig segir Bragi Skaftason, einn af eigendum Vínstúkunnar tíu sopa, að þó reksturinn sé erfiður þar hafi heimsendingar á mat gengið vonum framar og séu að fleyta staðnum yfir þá erfiðleika sem samkomubannið sé. Hins vegar eru dæmi um veitingastaði þar sem staða mála sé mjög erfið. Þannig er búið að loka Grillinu á Hótel Sögu, einhverjum sögufrægasta veitingastað landsins, um óákveðinn tíma og þrálátur orðrómur er um að staðurinn verði ekki opnaður aftur.
„Við erum búin að aflýsa yfir hundrað viðburðum“
Hvað varðar skemmtistaðina er staðan vitanlega sú að þeir eru lokaðir og verða það um fyrirsjáanlega framtíð. „Það var held ég enginn farinn að gera sér neinar vonir um að tilslakanirnar sem voru kynntar á fundi ríkisstjórnarinnar í gær, og eiga að taka gildi 4. maí, myndu ná yfir skemmtistaði. Það er líka alveg ljóst að það er enginn staður niðri í bæ sem getur boðið upp á skemmtanahald þar sem fjöldatakmarkanir og tveggja metra fjarlægð gildir. Það var búið að bóka talsvert yfir eitthundrað viðburði á Gauknum, langt inn í sumarið. Við erum búin að aflýsa yfir hundrað viðburðum, það er allt í frosti og enginn veit hvað gerist. Það var til dæmis fjöldi af erlendum aðilum sem stóð til að kæmu fram á Gauknum, tónlistarmenn, plötusnúðar og sirkuslistafólk, sem ekki kemur til landsins, auðvitað ekki. Ég reikna ekki með að hægt verði að fara af stað með einhvern rekstur sem nálgast það að vera eðlilegur fyrr en í haust,“ segir Starri sem á og rekur Gaukinn ásamt Sólveigu Johnsen.
Tímasetningin vond eftir vondan vetur
Starri bendir á að tímasetning kórónaveirufaraldursins hafi hitt veitingahúsa- og skemmtistaðaeigendur afar illa fyrir, í ljósi veðurfars mánaðanna á undan. Veður hafi ítrekað verið þannig að veðuraðvaranir hafi verið gefnar út, um helgar og á burðardögum í skemmtistaðarekstri. Starri segir að innkoman hafi því verið lítil þá mánuði. „Fyrstu tveir mánuðir ársins, janúar og febrúar, voru einfaldlega mjög erfiðir og lítil innkoma. Það sem eftir var var svo notað til að greiða starfsfólki laun í marsmánuði. Það eru held ég allir búnir með allan slaka sem mögulega var til staðar.“
„Ég fékk bara kökk í hálsinn við það símtal“
Samtal er yfirstandandi við viðskiptabanka og leigusala, segir Starri, um það hvort og þá hvaða leiðir séu færar í stöðunni, svo hægt verði að hefja rekstur Gauksins að nýju þegar aðgerðir vegna Covid-19 faraldursins verða afstaðnar. „Það veit svo sem enginn hvað kemur út úr því. Við höfum átt frábær samskipti við okkar birgja sem hafa staðið þétt við bakið á okkur með miklum sóma. Við fengum símtöl á fyrstu dögunum í þessu ástandi þar sem haft var samband við okkur og okkur tjáð að það yrði staðið við bakið á okkur. Ég fékk bara kökk í hálsinn við það símtal.“
Starri undrast mjög að ekki hafi verið kynntar neinar aðgerðir til að styðja við fólk sem vinnur í störfum eins og þeim sem tíðkast á skemmtistöðum, í vaktavinnum og oft með takmörkuð réttindi. Í hans huga sé þetta viðkvæmur hópur sem verði að styðja við ef ekki eigi illa að fara. „Ég hef verulegar áhyggjur af afkomu fólks sem starfar í veitingageiranum. Þetta er þannig að margt fólk er að vinna í tveimur, þremur störfum, í vaktavinnu, og uppsöfnuð réttindi eru mjög mismikil. Ég hef ekki séð aðgerðapakka sem eiga að hjálpa þeim, fólk sem lifir á launaseðli til launaseðils á leigumarkaði. Tíminn líður hratt og við þurfum sem samfélag að finna leiðir til að koma þessu fólki í skjól.“
Listir munu finna sér farveg að mati Starra en kostnaðurinn sem að fjöldagjaldþrot í greininni myndi leiða af sér væri gríðarlegur. „Ég hef ekki áhyggjur af því að listin finni sér ekki leiðir, það mun gerast. En staðirnir sem nú eru í rekstri verða ekki til staðar í þeirri mynd sem þeir eru núna fyrir listina. Það hlýtur því að þurfa að koma til einhver opinber stuðningur við þessa rekstraraðila, mikilvægi þessara staða er svo mikið í menningarlegu tilliti og einnig þegar ferðaþjónustan kemst aftur á fæturna. Ef við gerum ekki neitt, ef ekki kemur til einhver stuðningur, blasir bara við fjöldagjaldþrot í greininni með þeim gríðarlega kostnaði sem því fylgir.“
Athugasemdir