Býsna jólalegt er um að litast víða á landinu nú þegar vika er liðin af apríl og páskar í nánd og talsvert hefur snjóað það sem af er degi. Eiríkur Örn Jóhannesson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir enga ástæðu til að örvænta um að betri tíðar sé ekki að vænta; vorið sé rétt handan við hornið.
„Að það sé kuldi og snjór í apríl er ekkert óalgengt. Páskahretin eru vel þekkt. En sólin er farin að hita og kuldatímabilin farin að styttast. Við förum að finna fyrir dægursveiflu, einkum sunnanlands,“ segir Eiríkur.
„Páskaveðrið lítur þokkalega út. Síðan mun hlýna enn meira í næstu viku“
Hann segir að búast megi við að fremur kalt verði í veðri um land allt fram á laugardag. „Við búumst við að það fari að hlýna aftur eftir það. Það er útlit fyrir að það muni gerast á öllu landinu, fyrst sunnanlands, og við fáum vonandi að fá að sjá vorið handan við hornið. Líklega hlýnar með einhverri úrkomu, en páskaveðrið lítur engu að síður þokkalega út. Síðan mun hlýna enn meira í næstu viku.“
Mars var kaldur og vindasamur
Á vef Veðurstofu Ísland er yfirlit um tíðarfar í nýliðnum marsmánuði. Þar segir að mars hafi verið kaldur og hiti undir meðallagi síðustu tíu ára á landinu öllu. Vindhraði hafi aftur á móti verið vel yfir meðallagi, illviðri tíð og töluverðar truflanir á samgöngum. Afar snjóþungt hafi verið, einkum á Vestfjörðum og um landið norðan- og austanvert og á Akureyri hafi verið alhvítt alla daga nema síðasta dag mánaðarins, þá hafi verið „flekkótt“. Alhvítir dagar í Reykjavík hafi verið 16, sem var fjórum dögum fleiri en að meðaltali.
Spurður hvernig veðrið, það sem af apríl, hafi verið samanborið við aprílmánuði undanfarinna ára segir Eiríkur að það hafi verið heldur hefðbundið. „Það hafa verið bæði hlýir og kaldir dagar það sem af er apríl, eins og gjarnan er og þessi vika segir lítið til um hvernig veðrið verði það sem eftir lifir mánaðar. “
Athugasemdir