Ég er þessi kona sem situr við gluggann og fylgist með mannlífinu. Ég sé mæður með börn í bangsaleit, fjölskyldur sem fara saman út að viðra sig, börn á leið í skóla og aftur heim, þá samferða vinum, spjallandi og hlæjandi. Lífið heldur áfram. Á meðan börnin geta haldið í gleðina, veit ég að allt verður í lagi.
„Hæ Ingibjörg,“ hrópar bekkjarsystir sonarins um leið og hún gengur fram hjá og veifar.
Ég fylgist með veðrabreytingum, sé hvernig trén dansa í vindinum, horfi sem dáleidd inn í snjókomuna sem skellur skyndilega á okkur nú þegar við héldum að það væri að koma vor og dáist að kvöldroðanum þegar sólin er að setjast.
Stundum koma synir mínir við. Sá yngri á það reyndar til að hanga hér fyrir utan að leika sér við vin sinn. Þeir klifra í trjám nágrannans og reyna að svara spurningum sem ég kalla til þeirra ofan af þriðju hæð: „Hvernig var í skólanum?“ Þegar best lætur situr sonur minn hér fyrir utan og spjallar við mig í síma. Eldri sonurinn er duglegur að fara fyrir mig í búð eða bakarí og skilur góssið eftir hér fyrir utan. Ég sé hvernig vinir hans draga peysurnar upp fyrir vitin þegar þeir nálgast húsið. Þeir halda sig gjarna hinum megin við götuna, senda samt kveðjur, kalla til mín úr fjarska. Stundum dinglar hann dyrabjöllunni þegar hann á leið fram hjá, bara til að láta mig vita, ef ég vil kíkja út um gluggann og sjá hann fara hjá.
Móðir sem má ekki hitta börnin sín.
Með eitraðan andardrátt.
Hættuleg öðrum.
Vinir mínir og fjölskylda hafa komið færandi hendi. Senda blóm, gjafir, koma með mat og aðrar kræsingar. Það eru þessar stundir sem halda mér gangandi, þegar fólkið mitt sýnir hlýhug og væntumþykju. Í hvert einasta sinn sem ég hef brotnað hefur eitthvað gerst sem fyllir hjartað gleði.
Staðfestingin
Á áttunda degi varð ég fyrst þreytt á þessu. Kvöldið áður hafði ég fengið túlípana, en þegar ég vaknaði um morguninn voru þeir lagstir niður, héngu þarna lafandi yfir blómavasanum. Ástand þeirra endurspeglaði sálarlíf mitt. Með tímanum risu þeir upp og blómstruðu.
Það var þennan dag sem ég fékk staðfestinguna. Sólarhringur var liðinn og ég hafði samviskusamlega fylgst með Heilsuveru og haft símann opinn en ekkert heyrt, svo ég hafði sannfærst um að þetta væri ekkert, bara flensa, já eða slen.
Ég hafði verið máttlaus og veik, og óskað eftir sýnatöku. Mætti síðan í bílastæðahúsið þar sem hjúkrunarfræðingur í veirugalla tróð pinnum ofan í kok mér og upp í nef. Þetta verður vont, sagði hún og já, það var rétt. Aðallega var það samt skrítin upplifun. Súrrealísk.
„Hún er búin að finna aftur gleðina, í samneyti við annað fólk“
Svo leið tíminn án þess að nokkur svör bærust, svo ég var farin að gæla við tilhugsunina um að ég gæti mögulega farið í göngutúr til að hressa mig við. Þar til síminn hringdi, smitrakningarteymið að rekja ferðir mínar. Með öðrum orðum: Staðfest smit. Ég gat ekki leynt vonbrigðunum, sagðist hafa verið að vonast eftir stefnumóti við sólina. „Þú ferð ekkert, nema í einangrun.“ Skilaboðin voru skýr og hér er ég enn. Heima, og fer ekki fet fyrr en ég hef fengið til þess leyfi frá lækni.
Einmanaleikinn
Á sextánda degi í einangrun greip einmanaleikinn mig.
Ég hugsaði til ömmu minnar sem bjó svo lengi ein, að glíma við sjúkdóm sem hún reyndi eftir bestu getu að fela en gerði það að verkum að hún veit ekki alltaf hvað er að gerast, hvar hún er eða á endanum hver hún er. Minningarnar eru stundum sögur sem ég segi henni. Þrátt fyrir augljós veikindi var hún allt of lengi ein heima, það var ekki fyrr en hún slasaðist illa sem hún fékk loks inni á hjúkrunarheimili. Þar er hún núna og sætir heimsóknarbanni, en ég hef ekki áhyggjur af henni á meðan hún er ekki ein. „Loksins finnst mér ég tilheyra,“ sagði hún við mig um daginn þegar hún kvaddi brosandi. Hún er búin að finna aftur gleðina, í samneyti við annað fólk.
Fangelsið
Ég er nú á 24. degi í einangrun og hef aldrei verið svona lengi ein, án snertingar við annað fólk.
Stundum upplifi ég heimilið eins og fangelsi.
Ég veit samt að það er ósanngjörn samlíking, það að vera heima hjá sér í einangrun er ekkert í líkingu við það að vera fastur í fangelsi. Ég veit það vegna þess að ég hef farið í fangelsi til að fjalla um aðstæður fanga. Eftir fjóra daga í Kvennafangelsinu í Kópavogi helltist skyndilega yfir mig innilokunarkennd, ég varð að fara strax og kom aldrei aftur. Samt hafði ég alltaf farið heim á kvöldin til að sofa. Á Hólmsheiði fékk ég svipaða tilfinningu, þótt aðbúnaður væri betri var snertingin við starfsfólkið minni, lítið um lausnir og konur sem voru læstar inni fóru jafnvel aftur út, beint á götuna þaðan sem leiðin lá aftur í fangelsi. Í fangelsum er meðal annars fólk sem hefur átt erfitt uppdráttar í uppeldi, þar er fólk sem hefur lent í áföllum, einelti, misnotkun og misnotað fíknefni. Fólk sem hefur valdið sér og öðrum skaða og þarf að takast á við afleiðingarnar af því. Þar er fólk sem er með alvarlegan geðrænan vanda og þar er fólk sem missir geðheilsuna vegna þess að það er lokað inni.
Faraldurinn hefur aukið enn á einangrun þeirra.
Samanburðurinn er skakkur, ég veit það.
Ég er hins vegar farin að skilja betur af hverju einangrun hefur svona slæm áhrif á fólk.
Óttinn
Einn daginn fékk ég köfnunartilfinningu og varð að komast út. Ég er heppin að búa við ágætar aðstæður og hafa aðgang að bíl. Bara það að keyra af stað, hækka í tónlistinni og komast í snertingu við umheiminn, getur skipt sköpum. Vandinn er bara sá að ég má ekki taka bensín, svo ég fer ekki langt. Eða oft.
„Aldrei hefði mig grunað að það að fara út með ruslið yrði svo oft hápunktur dagsins“
Samkvæmt sóttvarnarlögum – og staðfestingu hjúkrunarfræðings – má fólk í einangrun fara á rúntinn, það verður bara að gæta þess að anda veirunni ekki út í almannarýmið. Þeir sem búa í einbýlishúsum mega jafnvel fara út í garð. Setjast í heita pottinn undir stjörnubjörtum himni, svo lengi sem þeir eru einir. Við hin megum fara út með ruslið, ef við gætum þess að mæta ekki neinum og halda niðri í okkur hóstanum. Aldrei hefði mig grunað að það að fara út með ruslið yrði svo oft hápunktur dagsins.
Um leið og ég stíg út fyrir hússins dyr er ég samt óþægilega meðvituð og gæti þess að halda mig frá öðru fólki. Um leið finn ég fyrir óttanum við að verða dæmd. Ég hef orðið vör við reiðina sem fylgir faraldrinum, séð viðtölin við fólk sem hefur þurft að verjast ásökunum, séð umræðuna á samfélagsmiðlum þar sem heiftin hræðir mig. Heift sem stafar af ótta. Ótta sem er skiljanlegur, en hræðir mig engu að síður. Ég óttast útskúfun og dómhörku, óttast óttann.
Eins og ég sé eitruð.
Allt sem ég snerti þarf að sótthreinsa.
Ég þvæ stöðugt á mér hendurnar og andlitið, með vatni og sápu.
Gæskan
Svo eru aðrir sem sýna óvenju mikla gæsku.
Jafnvel ókunnugt fólk.
Eftir langvarandi lystarleysi fékk ég sterka löngun í indverskan mat. Hringdi til að athuga hvort það væri hægt að fá heimsendingu. Klukkan var orðin of margt, en eigandinn bauðst engu að síður til að koma við. Án þess að ég hefði nokkurn tímann nefnt veikindin einu orði sagði hann: „Þú ert veik og við verðum að hugsa vel um þig.“
Takk fyrir mig.
Mér leið aftur eins og manneskju.
Í hvert sinn sem fólk sýnir velvild eykst vellíðanin. Samkenndin lyftir andanum. Ein kona sendir mér reglulega skilaboð, án orða, bara hjarta. Og mér hlýnar í hjartanu.
Veikindin
Veikindin eru svolítið skrítin, fara upp og niður. Ég hef orðið veik og mér hefur liðið illa, en mér finnst hálfóþægilegt að tala um það því ég veit að aðrir hafa það svo miklu verra en ég, og ég finn til með þeim. Ég hef ekki veikst alvarlega og er þakklát fyrir það. Hingað er samt hringt nánast daglega til að taka stöðuna. Einn daginn hafði mér versnað talsvert og þá upphófst atburðarás, sem leiddi mig aftur inn í aðstæður sem voru jafn sérkennilegar og sýnatakan í bílastæðahúsinu. Skoðun á sérstakri göngudeild fyrir Covid-19 smitaða.
Áður en að því kom hringdi hjúkrunarfræðingur með leiðbeiningar: Þú keyrir að bráðamóttökunni og beygir til hægri, leggur við gaflinn og hringir í þetta símanúmer. Vertu búin að fara á salernið.
Samviskusamlega fylgdi ég leiðbeiningunum, lagði við húsgaflinn og fylgdist með fólki í veirugöllum ganga inn og út úr húsinu. Þegar hóstandi kona kom út í hálfgerðum keng vissi ég að röðin væri komin að mér. Þótt húsnæðið væri hrárra en við eigum almennt að venjast, var starfsfólkið þeim mun hlýlegra. Áður en ég vissi af hafði ég farið í gegnum hverja rannsóknina á fætur annarri: „Þetta er svo skrítinn sjúkdómur að við verðum að ganga úr skugga um að það sé í lagi með fólk,“ sagði læknirinn þegar ég var eitthvað hálfvandræðaleg yfir þessu öllu saman. Ég kvaddi og gekk út, hóstandi og í hálfgerðum keng.
Það er allavega hugsað vel um okkur.
Verst að það er ekki hugsað jafn vel um fólkið sem sinnir okkur.
Þakklætið
Mér finnst ég – og við öll – verða svo lítil við lýsingar hjúkrunarfræðinga á aðstæðum þeirra í starfi, álaginu og sjálfskipaðri félagslegri einangrun, eitthvað svo skammarlegt að þeir þurfi að undirstrika mikilvægi sitt með þessum hætti, að þeir þurfi að sanna virði sitt í miðjum heimsfaraldri. Eins og þeir séu ekki að gera nóg alla daga.
„Við þurfum að passa upp á hvert annað“
Fólkið í framlínunni er almennt í vanmetnum störfum. Þetta er ekki fólkið sem fær himinháa bónusa því það ber svo mikla ábyrgð, heldur fólkið sem þarf að berjast fyrir hverri krónu. Þakklætið birtist ekki í launaseðlinum, en það býr engu að síður í hjarta mínu. Þakklæti í garð heilbrigðisstarfsmanna. Kennara sem halda skólum gangandi svo börnin hafi einhver tengsl við eðlilegt líf. Allra sem leggja sitt af mörkum á hverjum degi til að halda samfélaginu gangandi. Afgreiðslufólk kvartar undan framkomunni gagnvart sér, en hvar værum við án þeirra?
Sorgin
Stundum er talað um að við séum öll saman í þessu. Það er rétt og það er rangt.
Nú greinir á milli þeirra sem búa við bestu mögulegu aðstæður og annarra. Þeirra sem hafa allt til alls og hinna sem búa nú þegar við skort.
Nú greinir líka á milli þeirra sem búa við öryggi og hinna sem búa við ógn. Tveir karlmenn eru í gæsluvarðhaldi, annar grunaður um að hafa myrt sambýliskonu sína, hinn móður sína. Tvær konur létust á tíu daga tímabili.
Veiran er ekki það eina sem ógnar lífi okkar eða heilsu, eða þarfnast varúðarráðstafana.
Við þurfum að passa upp á hvert annað.
Sama dag og ég greindist með COVID-19 gerðist tvennt: Lítill drengur fæddist inn í fjölskylduna og fréttir voru sagðar af því að fyrsti Íslendingurinn hefði látist af völdum veirunnar. Eiginmaður hennar lést síðar. Alls eru sex látnir af völdum sjúkdómsins og ég sendi aðstandendum mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Bestu fréttir vikunnar voru að fyrstu einstaklingarnir hefðu náð bata eftir að hafa lent í öndunarvél. Hér hafa nú ríflega 1500 veikst og 550 náð bata. Við erum um þúsund sem erum í einangrun heima, ég er ekki sú eina í þeirri stöðu. Ég er reyndar ein af þeim heppnu, þar sem ég tilheyri hópi sem sjúkdómurinn leggst almennt ekki alvarlega á. Aðrir eru í meiri hættu og hafa það verra.
Það sem sameinar okkur og sundrar
Við erum saman í þessu, að því leyti að við erum hér á þessari eyju og komumst hvergi. Ekki um sinn. Við búum öll við skert frelsi og þurfum að glíma við afleiðingar veirunnar, þótt þær birtist okkur með mismunandi hætti. Við stöndum frammi fyrir djúpri efnahagslægð sem mun snerta okkur öll, þótt við séum misvel í stakk búin til að mæta því.
„Skyndilega fékk ég þörf fyrir hreinsun“
Á meðan einstæð móðir í leiguíbúð getur þurft að óttast að missa húsnæðið vegna tekjuskerðingar þurfa launahæstu forstjórarnir, sem hafa að meðaltali haft 7,6 milljónir á mánuði, 23-föld mánaðarlaun láglaunafólks, varla að hafa fjárhagsáhyggjur. Á meðan hjúkrunarfræðingur, með 339.305 krónur útborgaðar á mánuði, þurfti að berjast gegn launalækkun, mun fyrirtæki, sem hefur hagnast svo gríðarlega á náttúruauðlindum að það hefur greitt eigendum sínum 12 milljarða í arð frá árinu 2012, spara sér um 200 milljónir á mánuði með úrræðum ríkisstjórnarinnar. Eiginkona utanríkisráðherra á hlut í umræddu fyrirtæki og fékk 99 milljóna arðgreiðslu árið 2018.
Svona eru aðstæður okkar misjafnar. Þegar almenningslaugum var lokað vegna samkomubanns birti fjármálaráðherra mynd af sér í heita pottinum heima: „Gott að byrja daginn svona.“
Hreinsunin
Skyndilega fékk ég þörf fyrir hreinsun.
Um leið og ég hafði náð upp smá orku gekk ég í geymsluna. Draslinu sem hefur safnast upp á síðustu árum henti ég í haug, sem ég ætla að losa mig við. Verulega vanhugsuð aðgerð í því ljósi að héðan fer ekkert út á meðan ég er enn í einangrun. Svo nú sit ég hér, innilokuð með ruslahaug. Geymslan hefur hins vegar aldrei verið í betra standi og þrátt fyrir allt er heilandi að losa sig við það sem þú vilt ekki að fylgi þér áfram.
Við ættum kannski að gera það oftar. Hreinsa út. Velja það sem við viljum.
Tækifærið
Stundum þegar fólk spyr hvernig ég hafi það og ég segist eiga erfitt með einveruna, bendir það á tækifærin sem í því felast. Fyrst þegar ég heyrði þetta þá stakk orðalagið, því það að vera í einangrun vegna veikinda er ekki endilega tækifæri til mikilla afreka, sköpunar eða breytinga, en það skapar svigrúm fyrir lærdóm.
Fyrir mig persónulega er þetta tækifæri til að læra að vera ein, þjálfa mig í því að viðhalda hamingju og gleði í einfaldleikanum, læra betur að meta hvað ég hef. Sjaldan hef ég verið eins þakklát fyrir heilsuna, frelsið og fólkið mitt.
Fyrir okkur sem samfélag er þetta líka tækifæri fyrir lærdóm. Við getum staldrað við og velt því fyrir okkur hvort við séum að byggja á þeim gildum sem eru okkur mikilvægust og endurskoðað stefnu okkar. Í samfélagi sem er svo ríkt af samkennd er svo margt gott hægt að gera. Við stöndum á tímamótum, kveðjum veröld sem var og verður aldrei söm. Framtíðin er okkar og við þurfum að móta hana.
Frelsið
Í dag fékk ég símtalið sem ég hef beðið eftir. Ef allt gengur eftir á að byrja að telja niður í síðustu sjö dagana áður en hægt er að útskrifa mig. Þá verð ég frjáls, eins langt og það nær í samkomubanni, heimsfaraldri og kreppu. Get loks losað mig við hauginn á gólfinu, gengið áhyggjulaus um göturnar og gert það sem skiptir mestu máli: Faðmað börnin að mér.
Svo kemur sólin.
Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt.
Athugasemdir