Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur veitt jákvæða umsögn um tillögu Sjálfstæðismanna þar sem skorað er á Alþingi að afnema einokun ríkisins á áfengissölu þar sem það muni efla nærþjónustu í hverfum. Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata í meirihlutanum taka einnig undir það sjónarmið.
Sjálfstæðismenn lögðu fram tillöguna á fundi borgarstjórnar í júní, en umsögn um hana birtist ekki fyrr en nú. „Borgarstjórn skorar á Alþingi að afnema einokun ríkisins á áfengissölu, ekki síst vegna þess að aukið frelsi í smásöluverslun með áfengi mun styðja við hverfisverslun og efla nærþjónustu í hverfum Reykjavíkur,“ segir í tillögunni. „Styður slík þróun við markmið aðalskipulags Reykjavíkur um sjálfbær hverfi en verslun með áfengi í hverfisverslunum mun gera umhverfi daglegrar verslunar hverfisvæddara með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti.“
Umsögn umhverfis- og skipulagssviðs barst í nóvember og var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og samgönguráðs í gær. Í umsögninni kemur fram að skýr markmið séu í Aðalskipulagi Reykjavíkur um að efla verslun og þjónustu innan íbúðarhverfanna, að sem flestir geti nýtt sér verslun og þjónustu innan síns hverfis og og almennt verði dregið úr vegalengdum hvort sem verið er að sækja vinnu eða þjónustu.
„Vín og annað áfengi er neysluvarningur og innkaup á því er hluti af neyslumynstri stórs hluta borgarbúa,“ segir í umsögninni. „Bætt aðgengi að þessum neysluvarningi, óháð öðrum sjónarmiðum, í formi fjölgunar staða sem hægt er að gera innkaup á áfengi, samræmist því almennt þeim markmiðum sem gerð er grein fyrir hér að ofan.“
„Vín og annað áfengi er neysluvarningur og innkaup á því er hluti af neyslumynstri stórs hluta borgarbúa“
Stefnunni fylgir að rekstareiningar verði minni og horfið frá „stórmarkaðshugsuninni“. Þannig geti borgaryfirvöld haft áhrif á framboð og dreifingu verslunar. „Það sama hefur ekki átt við um staðsetningu og dreifingu vínbúða í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum, sem ofast nær hafa verið staðsettar í litlu samráði sveitarstjórnir,“ segir í umsögninni. „Það er því brýnt að tryggja aukna aðkoma sveitarfélaga að staðsetningu og fyrirkomulagi verslunar með áfengi, hvort sem verslunin er áfram á hendi ríkisins eða einkaaðila, bæði til að tryggja framgang ofangreindra skipulagslegra markmið og gæta að lýðheilsusjónarmiðum.“
Sviðið tekur þó ekki afgerandi afstöðu til afnáms einokunar ríkisins. „Minni rekstrareiningar vínbúða og þar með fleiri, sem markvisst væru staðsettar í fjölbreyttum þjónustu- og atvinnukjörnum, þar sem vel er stutt við vistvæna ferðamáta, rímar vel við ofan greind markmið um sjálfbæra borgarþróun. Ekki er tekin afstaða til þess hér, hvort afnám einkaleyfis ríkisins á sölu áfengis, gæti eitt og sér greitt fyrir slíkri þróun, en það er vert að skoða núverandi löggjöf sérstakalega með tilliti til aukinnar aðkomu sveitarfélaga að staðsetningu vínbúða innan síns þéttbýlis.“
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata í skipulags- og samgönguráði taka undir það að efni tillögunnar samrýmist áherslum aðalskipulags. „Mikilvægt er að allar ákvarðanir sem teknar eru á öllum stjórnsýslustigum styðji við bíllausan lífstíl og þróun byggðar í átt að sjálfbærni. Þar er þétting byggðar og nærþjónusta lykilatriði og því skiptir máli að ríki og sveitarfélög séu samstíga um að íbúar þessa lands hafi verslun og þjónustu í sínu nærumhverfi,“ segir í bókun þeirra á fundinum.
Þá fagna Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, umsögninni. „Aukið frelsi í smásöluverslun með áfengi myndi styðja við hverfisverslun og efla nærþjónustu í hverfum Reykjavíkur,“ segir í bókun þeirra. „Slík þróun myndi jafnframt styðja við markmið aðalskipulags Reykjavíkur um sjálfbær hverfi en verslun með áfengi í hverfisverslunum myndi gera umhverfi daglegrar verslunar hverfisvæddara, með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti.“
Athugasemdir