Fyrir örfáum mánuðum lýsti heilbrigðisstarfsfólk neyðarástandi á bráðamóttöku Landspítalans. Læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar töldu sig ekki geta sinnt starfi sínu með nægilegu öryggi og sögðu stjórnvöld hafa hunsað vandann um árabil.
Þessi umræða hefur eðlilega fallið í skuggann á baráttunni gegn veirufjandanum sem herjar á okkur og á hug okkar allan. En við megum ekki gleyma þessum varnaðarorðum.
Nú þegar við stöndum allt í einu andspænis þessari óværu hlýtur öllum að vera ljóst hversu mikilvægt það er að heilbrigðisþjónustan sé fjármögnuð með fullnægjandi hætti. Jafnvel þó viðbragðsaðilar hafi staðið sig vel og útskýrt með trúverðugum hætti áætlun sem miðar að því að kerfi okkar ráði við vandann, blasir við að heilbrigðiskerfi, þar sem reksturinn er í járnum í ósköp venjulegu árferði, mun þurfa töluvert viðbótarfjármagn í baráttunni við veiruna.
Ég efast ekki um að skilningur sé fyrir hendi hjá ríkisstjórninni á að stórauka þurfi fjármagn til heilbrigðismála. En hún þarf að lýsa því yfir með afgerandi yfirlýsingu strax. Þá hefði auðvitað verið rétt að fylgja henni eftir í fjáraukafrumvarpinu sem ríkisstjórnin lagði fram í byrjun vikunnar.
Sjaldan hefur okkur verið það ljósara að heilbrigðiskerfið verður ekki rekið án hjúkrunarfræðinga og heilbrigðistölfræði gefur vísbendingu um að fjöldi hjúkrunarfræðinga geti haft bein áhrif á dánartíðni vegna Covid-19. Þessi mikilvæga kvennastétt hefur nú verið samningslaus í eitt ár þrátt fyrir að öllum ætti að vera ljóst mikilvægi hennar; ekki síst í núverandi ástandi.
Samfylkingin hvetur eindregið stjórnvöld til að ganga til samninga við hjúkrunarfræðinga og aðrar stéttir í sambærilegri stöðu strax!
Með því sendum við nauðsynleg og mikilvæg skilaboð til heilbrigðisstofnana og alls starfsfólks.
Athugasemdir