Elmar Eyþórsson nemandi í Melaskóla er mikið afmælisbarn og fagnaði tíu ára afmæli um helgina. Afmælisveislan var þó ekkert í líkingu við það sem hann hafði séð fyrir, þegar hann varði þremur vikum í að æfa söng- og dansatriði fyrir gestina. Þar sem Elmar situr fastur í sóttkví með móður sinni gat hann nefnilega ekki boðið neinum gestum, hvorki vinum né vandamönnum. Hann gat ekki einu sinni knúsað pabba sinn. Það kom því ánægjulega á óvart þegar Elmar fékk óvænta afmæliskveðju frá átrúnaðargoðinu, Daða Frey.
Með mömmu sinni í sóttkví
Elmar og móðir hans, Telma Eir Aðalsteinsdóttir, deila sama afmælisdegi og hafa alltaf boðið til veislu í tilefni til dagsins. Eftir námsferð til Spánar var útséð með að Telma gæti tekið þátt í veisluhöldunum, þar sem hún þurfti að fara beinustu leið í sóttkví við heimkomuna.
Elmar fékk boð um að vera með henni í sóttkví eða vera frjáls ferða sinna með föður sínum og halda upp á afmælið sitt með honum. Honum fannst það ekki koma til greina að vera aðskilinn móður sinni allan þennan tíma og hvað þá á þeirra sameiginlega afmæli. Það varð því ekkert úr veislunni, hún verður í það minnsta að bíða betri tíma.
„Ég hringdi í hann þegar ég var úti og spurði hann hvernig hann vildi hafa þetta, því ég væri að fara í sóttkví. Við ættum afmæli á þeim tíma og hann gæti haldið upp á það með pabba sínum. Svarið var einfalt: Við verðum að vera saman á afmælisdeginum okkar. Ég verð með þér. Hann er auðvitað bara tíu ára, en við reyndum samt að tryggja að hann væri meðvitaður um að það væru fleiri valkostir í stöðunni,“ segir Telma.
Í gegnum tíðina hefur Elmar alltaf verið að gæta þess að hún njóti þess líka að eiga afmæli sama dag og hann, og nú þegar þau voru saman í sóttkví þá sagðist hann ætla að gefa henni heilan helling af knúsum og hamingju, fyrst hann kæmist ekki út til þess að kaupa handa henni gjöf.
Athugasemdir