Ekkert land í Evrópu treysti eins mikið á beinar og óbeinar tekjur af ferðamannaiðnaðinum og Ísland gerði árið 2019. Nærri þriðjungur vergrar þjóðarframleiðslu kom beint eða óbeint inn í þjóðarbúið vegna ferðamanna sem komu til Íslands, eða 32 prósent. Næsta land á listanum yfir þau lönd sem reiða sig hvað mest á ferðamennsku er Króatía, með 25 prósent, Grikkland með 21 og Portúgal með 20. Í löndum Evrópu stendur ferðamennska að meðaltali fyrir um 10 prósent af þjóðarframleiðslunni og er ferðamannaiðnaðurinn því þrefalt mikilvægari fyrir Ísland en hið almenna Evrópuland. Þetta kemur meðal annars fram í skýrslu frá breska greiningarfyrirtækinu Tourism Economics frá því 20. febrúar síðastliðinn. Beint framlag ferðaþjónustu til þjóðarframleiðslunnar á Íslandi var 9 prósent af vergri þjóðarframleiðslu árið 2019 á meðan óbeina framlagið nam 23 prósentum af þjóðarframleiðslunni.

Athugasemdir