Lýsingarnar eru vægast sagt ömurlegar: Hann situr þarna í glerbúri á meðan tekist er á um hvort framselja eigi hann til Bandaríkjanna, þar sem hann á yfir höfði sér ákæru í átján liðum og allt að 175 ára fangelsi. Glæpurinn sem hann framdi var að veita almenningi upplýsingar, meðal annars um framgöngu bandaríska hersins í Írak.
Nice
Myndband sýndi bandaríska hermenn í árásarþyrlum skjóta óvopnaða borgara í Bagdad. Síðan var ráðist á óvopnað fólk í bíl sem reyndi að koma særðum til aðstoðar, með þeim afleiðingum að tvö börn særðust. Faðir þeirra bjargaði lífi þeirra með því að kasta sér yfir þau, en lést sjálfur.
Árásarmennirnir stærðu sig af skotinu. „Look at all these dead bodies. Nice.“
Þetta voru sorgmæddir krakkar, sagði íslenskur blaðamaður eftir að hafa hitt systkinin föðurlausu í Bagdad skömmu eftir árásina. Maðurinn sem faðir þeirra reyndi að koma til aðstoðar starfaði fyrir fréttastofuna Reuters. Tveir blaðamenn Reuters létust í árásinni.
Í fyrra létust 49 blaðamenn við störf sín eða vegna starfa sinna.
Enginn þeirra sem tók þátt í árásinni í Bagdad árið 2007 hefur sætt afleiðingum, aðeins sá sem sagði frá henni. Nú fara fram réttarhöld í Bretlandi varðandi framsalskröfu Bandaríkjamanna.
Nice. Orðið límdist í heila fréttamanns RÚV, nú ritstjóra Wikileaks. Merking þess hefur aldrei orðið söm aftur. Það er hægt að skemma orð. Og það er hægt að skemma fólk.
Við erum ekki hryðjuverkamenn
Heilsa og líf Julian Assange er í hættu, eftir langvarandi einangrun í erlendu sendiráði í London og fangelsisvist í Belmarsh-fangelsinu, sem er ætlað þeim sem mest ógn er talin stafa af, menn sem hafa framið morð, nauðganir, mannrán, vopnuð rán og tengjast hryðjuverkum, svo harðneskjulegt að það er stundum kallað hið breska Guantanamo. Þar hefur honum verið haldið einangruðum frá umheiminum, haldið í klefa sínum í allt að 23 klukkustundir á sólarhring. Hvaða skilaboð eru það til heimsins?
Getum við staðið aðgerðarlaus hjá þegar komið er fram við fyrrverandi ritstjóra Wikileaks sem hryðjuverkamann?
We are not terrorists. Árið 2008 stilltu Íslendingar sér upp fyrir myndatöku, þar sem þeir héldu á heimagerðum skiltum þar sem þeir sögðust ekki vera hryðjuverkamenn. Bretar höfðu beitt hryðjuverkalögum á Ísland vegna efnahagshrunsins og það sveið. Svo Íslendingar tóku börnin sín í fangið, settust fyrir framan myndavélina og spurðu hvort þeir litu út eins og hryðjuverkamenn?
Almennir borgarar á Íslandi báru ekki ábyrgð á bankahruninu, ekki frekar en almennir borgarar í Írak báru ábyrgð á stríðsástandinu eða Julian Assange á stríðsglæpum Bandaríkjamanna. Hann stóð hins vegar frammi fyrir ákvörðun um að þegja eða segja frá því sem hann vissi. Hann valdi að deila þeim upplýsingum sem hann bjó yfir með almenningi. Af því að í upplýsingum felst vald. Hann valdi að færa valdið til fólksins.
Skjól fyrir rannsóknarblaðamennsku
Vertu valdið.
Við tökum öll ákvarðanir sem byggja á þeim upplýsingum sem við fáum. Þessar ákvarðanir eru undirstaða farsældar samfélagsins og okkar sjálfra. Vald hefur áhrif á þær upplýsingar sem okkur eru veittar.
Eftir fjandsamlega yfirtöku á fjölmiðli var Stundin stofnuð með tilkomu almennings í gegnum hópfjármögnun. Hugmyndin var að stofna fjölmiðil sem er fyrst og fremst háður almannavaldi, en ekki afmörkuðu stjórnmála- eða fjármálavaldi. Allt í samþykktum félagsins tók mið af því, kveðið var á um dreift eignarhald, takmarkað vægi atkvæða á hluthafafundi, hagsmunaskráningu ritstjóra.
Til stóð að skapa skjól fyrir rannsóknarblaðamennsku, sem fólst meðal annars í því að stofna áskriftarmiðil sem þyrfti ekki að treysta á lausasölu eins og tímaritið Ísafold, sem var sjálfhætt eftir að því var hent út úr verslunum stærstu verslunarkeðjunnar vegna vanþóknunar eigandans á rannsóknarefni sem var þar til umfjöllunar. Eða auglýsingatekjur, þar sem auglýsendur hafa margoft reynt að beita áhrifum sínum til að hafa áhrif á umfjöllun. Þurfa ekki að treysta á eigendur, sem sjá hag í því að reka fjölmiðil sem getur komið þeirra sjónarmiði á framfæri.
Skjólið reyndist ekki algjört. Í aðdraganda alþingiskosninga mætti sýslumaður fyrirvaralaust á ritstjórnarskrifstofurnar og lögmaður fallins banka með í för, þar sem þess var krafist að gögn yrðu afhent, fréttum eytt af vefsíðu og fjölmiðillinn léti af frekari fréttaflutningi um viðskipti forsætisráðherra í bankahruninu. Fyrri kröfunum var hafnað en ólögmætt lögbann var samþykkt á staðnum, án þess að fjölmiðlinum væri svo mikið sem veittur tími til að sækja lögmann til að verjast valdbeitingunni. Ólögmætt lögbann á Stundina og Reykjavík Media varði í 522 daga, áður en Hæstiréttur staðfesti loks dóm héraðsdóms um að inngrip sýslumanns hefði verið aðför að frjálsum kosningum, rétti almennings til upplýsinga og tjáningarfrelsinu.
Afleiðingarnar voru engar, ekki fyrir aðra en fjölmiðlana sem þaggað var niður í eða almenning sem fékk ekki upplýsingar sem hann átti rétt á. Sýslumaður þurfti aldrei að axla ábyrgð og lögmenn föllnu bankanna stórgræddu á þessari aðför að frelsi fjölmiðla.
Eina rannsóknin sem sett var af stað var á því hver hefði lekið upplýsingum til fjölmiðla. Tólf blaðamenn voru kallaðir í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara og fimm kvaddir fyrir dóm til að svara spurningum sem þeim var siðferðislega og lagalega óheimilt að svara, þar sem sérstakt ákvæði í lögum kveður á um vernd heimildarmanna.
Refsað fyrir sannleikann
Áður hafði Mannréttindadómstóll Evrópu sex sinnum dæmt íslenska ríkið brotlegt gagnvart tjáningarfrelsi fjölmiðla.
Á Íslandi er njósnalögum ekki beitt gegn blaðamönnum, heldur meiðyrðalögum. Alla daga má fólkið sem hefur það að atvinnu að veita almenningi upplýsingar búast við því að stefnuvottar banki upp á heima hjá því, fordæmi eru fyrir slíkum heimsóknum á jólunum. Hér var blaðamanni stefnt fyrir hatursorðræðu og hann dreginn fyrir dóm fyrir greiningu á vafasömum viðskiptagjörningum auðmanna. Aðstoðarmaður dómsmálaráðherra krafðist fangelsisvistar yfir blaðamönnum, vegna mistaka sem þeir leiðréttu samdægurs og báðust opinberlega afsökunar á. Það var ekki nóg, það átti að refsa þeim.
Nýlega baðst fréttastjóri RÚV velvirðingar í beinni útsendingu á fullyrðingu í frétt um að stórfyrirtæki hefði aflað sér kvóta í Namibíu með því að múta embættismönnu, eftir að fyrirtækið krafðist slíkrar afsökunarbeiðni með bréfi sem var boðsent heim til helstu stjórnenda og stjórnarmanna RÚV með tilvísun í meiðyrðalöggjöf sem heimilar allt að tveggja ára fangelsisdóma.
Sama stórfyrirtæki vildi líka fangelsa seðlabankastjóra fyrir rannsókn á starfsháttum fyrirtækisins. Sagði honum svo að „sýna smá sómakennd og drulla sér í burtu“.
Það var áður en fyrrverandi starfsmaður fyrirtækisins viðurkenndi að hafa, fyrir hönd Samherja, greitt mútur til að komast yfir kvóta í Namibíu og lagði fram gögn sem sýndu fram á greiðslur til ráðamanna þar í landi. Gögn sem hafa orðið til þess að tveir ráðherrar í Namibíu voru handteknir ásamt fjórum öðrum og dæmdir í gæsluvarðhald, ákærðir fyrir spillingu, mútuþægni og peningaþvætti, sakaðir um að hafa þegið um 860 milljónir íslenskra króna fyrir að tryggja félögum Samherja kvóta í Namibíu.
Sexmenningarnir bíða nú dóms á grundvelli upplýsinga sem RÚV baðst afsökunar á að hafa orðað með þessum hætti. „Hið rétta er að Samherji hefur verið borinn þeim sökum,“ sagði fréttastjórinn, þrátt fyrir að fullyrðingin væri efnislega samhljóða rannsókn namibískra yfirvalda, jafnvel þótt enginn hafi verið ákærður hér á landi.
Áður hafði RÚV ákveðið að greiða manni bætur fyrir fréttir af því að lögreglan leitaði hans í tengslum við hvarf Íslendings. Maðurinn ákvað síðan að stefna blaðamanni sem fjallaði um málið í Stundinni í von um meiri peninga, en tapaði málinu fyrir Hæstarétti.
Ein króna fyrir hvert klikk
Launin, ein króna fyrir hvert klikk, samkvæmt nýlegum dómi um gerviverktöku á vefmiðlinum Nútímanum.
Á fjölmiðlum sem fylgja kjarasamningum fær háskólamenntaður blaðamaður með eins árs starfsreynslu 400.853 krónur í laun.
Það skiptir auðvitað máli hver þú ert, sumir fá meira en aðrir.
Björn Ingi Hrafnsson fékk 1,6 milljónir á mánuði fyrir að stýra vikulega umræðuþættinum Eyjunni á Stöð 2. Hann var nýlega dæmdur til að endurgreiða þrotabúi Pressunnar 80 milljónir, sem var bjargað af skuggapeningum.
Launahæsti fjölmiðlamaðurinn fær samtals 5,3 milljónir á mánuði, að meðtöldum fyrirframteknum lífeyrisgreiðslum, Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sem ritstýrir Morgunblaðinu. Meðritstjóri hans fær 2,6 milljónir á mánuði.
Fyrir að stýra dagblaði sem er að stærstum hluta í eigu útgerðarmanna sem hafa hagnast á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, og oddvita borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, sem eignaðist 23% hlut Samherja í Morgunblaðinu án þess að geta gert grein fyrir því hvernig sá hlutur var fjármagnaður.
Á Morgunblaðinu var kjarabaráttu blaðamanna svarað með skýrum skilaboðum. Verkfallsaðgerðum vefblaðamanna var mætt með því að aðrir skrifuðu á vefinn á meðan verkfalli stóð. Síðan var ráðist í uppsagnir. Og starfsmönnum tilkynnt að þeir fengju engar jólagjafir.
Kjarabarátta blaðamanna var kæfð. Ekkert hefur heyrst af frekari aðgerðum.
Ekki frekar en stuðningi ríkisins við einkarekna fjölmiðla í takt við það sem tíðkast víðast hvar á Vesturlöndum, sem búið var að færa í fjárlög og boða á blaðamannafundi. Málið situr fast í allsherjarnefnd.
Formaður nefndarinnar lýsti Stundina „endaþarm íslenskrar blaðamennsku“ vegna þess að honum mislíkaði ádeilupistill sem birtist þar.
Nóg var til í ríkissjóði til að ríflega tvöfalda framlög til stjórnmálaflokka fyrir nokkrum árum, sem nema 728 milljónum af skattfé á næsta ári, auk þess sem aðstoðarmenn ráðherra hafa aldrei verið fleiri. Þeir mega nú vera 25, fjórum sinnum fleiri en blaðamenn í fullu starfi á Stundinni, þeim miðli sem hefur hlotið flestar tilnefningar einkarekinna miðla til blaðamannaverðlauna á þeim fimm árum sem eru liðin frá stofnun hans.
Þú ert einskis virði
Svona er staðan á Íslandi, þar sem fjölmiðlafrelsi mælist með því mesta í heimi, þótt það sé hvergi nærri sambærilegt því sem þekkist annars staðar á Norðurlöndunum. Vegna framgöngu stjórnvalda gagnvart fjölmiðlum féll Ísland af toppnum niður í fjórtánda sætið og er nú næstneðst á lista þeirra þjóða þar sem aðstæður þykja þrátt fyrir allt góðar, samanborið við það sem gerist annars staðar í heiminum. Við erum frjáls, vegna þess að við lifum ekki í ótta.
Bandaríkin eru í 48. sæti, tilheyra þeim þjóðum þar sem staðan þykir vandkvæðum bundin. Löndum sem eru skilgreind sem öruggt svæði fyrir fjölmiðlafólk fækkar, árið 2019 var ár haturs og ofbeldis gegn blaðamönnum, ár óttans. Í átján löndum þykir staðan mjög slæm. Þeirra á meðal er Sádi-Arabía, þaðan sem Jamal Kashoggi kom, blaðamaðurinn sem var myrtur í sendiráðinu í Tyrklandi, bútaður niður og látinn hverfa, þegar hann var að sækja pappíra til að geta kvænst unnustu sinni. Áður hafði hann flúið til Bandaríkjanna, en allt benti til þess að krónprinsinn hefði fyrirskipað morðið.
Forseti Bandaríkjanna neitaði að taka afstöðu. Sá hinn sami og hefur ítrekað stillt fjölmiðlafólki upp sem óvinum fólksins, afgreitt gagnrýni og afvegaleitt umræðuna með ósannindum og fullyrðingum um „fake news“, grafið undan trausti fólks til fjölmiðla með ásökunum um að þeir efni vísvitandi til ágreinings og kyndi undir vantrausti: „Þeir geta framkallað stríð! Þeir eru mjög hættulegir og sjúkir,“ var lýsing hans á fjölmiðlum. Áróðurinn hefur orðið vanstilltum stuðningsmönnum hans hvatning til að ráðast gegn fjölmiðlafólki með hótunum. „Þú ert einskis virði, fjölmiðlar eru óvinir bandarísku þjóðarinnar.“ Þessi skilaboð biðu í talhólfi blaðamanns á New York Times, sem varaði við því að með sama áframhaldi myndi sá dagur renna upp að blóð myndi renna á gólfi ritstjórnarskrifstofu og það yrði á ábyrgð forsetans.
Blóðið rann í Guantanamo-fangabúðunum. Leyniskjöl sem Wikileaks birti afhjúpuðu að Bandaríkjamenn héldu þar um 150 saklausum borgurum sem ekkert höfðu brotið af sér föngnum árum saman; þeirra á meðal voru börn, gamalmenni og geðsjúklingar. Meðal annars barnungir piltar sem höfðu verið neyddir til að bera vopn undir merkjum talibana og síðan færðir í fangabúðir sem eru einna þekktastar fyrir pyntingaraðferðir.
Heimildarmaður Wikileaks var dæmdur í 35 ára fangelsi, sat inni í sjö þar til Obama lét það verða eitt af síðustu verkum sínum að náða hann. Í fyrra var Chelsea Manning dæmd aftur í fangelsi fyrir að neita að bera vitni gegn Wikileaks. Julian Assange bíður örlaga sinna. Hver er næstur?
Og hvað ætlum við að gera í því?
„Ég er hryðjuverkamaður, hluti af hryðjuverkasamtökum að mati Bandaríkjastjórnvalda,“ segir Kristinn Hrafnsson, vegna starfa sinna fyrir Wikileaks.
Sama hvað okkur kann að finnast um Julian Assange sem einstakling eða einstaka mál Wikileaks, þá er meðferðin á honum árás á grundvallargildi blaðamennskunnar, tjáningarfrelsið og rétt almennings til upplýsinga.
Vertu valdið, taktu afstöðu. Taktu afstöðu með frelsinu.
Athugasemdir