Því er stundum haldið fram, einkum þegar á móti blæs eins og eftir hrun, að Íslendingar séu of fáir til að geta til lengdar haldið uppi hagsælu og heilbrigðu samfélagi. Þessi kenning hvílir á tveim meginstoðum sem hafa verið ræddar í þaula.
Tvær stoðir ...
Önnur stoðin er þessi: Smálönd eru sögð líða fyrir skort á hæfum mannskap. Menn segja: Lítið land getur ekki eignazt menn eins og Mozart. En þá segi ég: Ekkert land á sem stendur mann eins og Mozart svo vitað sé. Samt vegnar hálfum heiminum bærilega og meirihlutinn af hinum helmingnum sækir fram. Snillingar eins og Mozart gefa lífinu lit, rétt er það, en þeir eru ekki lífsnauðsynlegir. Fólk er að jafnaði alls staðar eins að upplagi hvort heldur í litlum löndum eða stórum. Eini markverði munurinn á fólki frá einu landi til annars er að sum lönd hlúa betur en önnur að sínu fólki. Málið snýst um þróunarstig frekar en fólksfjölda. Hráefnið er alls staðar eins, en það er af manna völdum mislangt komið á þroskabrautinni.
Hin meginstoðin undir þessari svartsýniskenningu um fámenni sem dragbít og böl er að fámennið kalli á innherjaviðskipti, klíkuskap og krefjandi spillingu þegar allir þekkja alla og fólksfæðin grafi þannig undan almennri velsæld. Ég er á öðru máli. Í fámenni ætti þvert á móti að vera auðveldara en ella að reisa skorður við klíkuskap og spillingu einmitt af því að allir þekkja alla. Rótgróin spilling í Kína, Indlandi, Indónesíu, Pakistan, Brasilíu, Nígeríu, Bangladess, Rússlandi og Mexíkó, svo talin séu upp í réttri röð níu af 11 fjölmennustu ríkjum heims, verður ekki rakin til fámennis.
... og ein enn
Einni stoð enn er hægt að skjóta undir kenninguna um fámenni sem félagsböl og styðja hana með fersku dæmi. Háttsettir starfsmenn Seðlabanka Íslands báru eiðsvarnir fyrir Landsdómi 2010 að þeir hefðu strax 2006 áttað sig á að bankarnir væru svikamyllur og þeim væri ekki viðbjargandi. Samt hélt Seðlabankinn áfram að lána bönkunum fé án þess að nokkur starfsmaður Seðlabankans blési í flautu: allir þögðu. Á lokametrunum lánaði Seðlabankinn Kaupþingi afganginn af gjaldeyrisforðanum, 500 milljónir evra. „Ekki var … gerð skrifleg bankastjórnarsamþykkt um lánveitinguna“ segir bankinn sjálfur. Þriðjungur fjárins rann beint til Tortólu.
Vandinn er því kannski ekki bundinn við fámenni sem slíkt heldur spillingu.
Hvers vegna þögðu þeir allir? Kannski þeir hafi óttazt það sem Þjóðverjar kalla Berufsverbot: að missa vinnuna og fá hvergi annars staðar vinnu heima fyrir. Slíku vinnubanni er trúlega auðveldara að framfylgja í litlu landi en stóru. Samt var það ekki smæð Þýzkalands sem lagði grunninn að vinnubanni gegn meintum óvinum ríkisins á sínum tíma heldur ofbeldishneigð og spilling. Þegar Víetnamstríðið sundraði Bandaríkjamönnum höfðu margir nánir samstarfsmenn Lyndons Johnson forseta 1963–1969 kjark til að segja af sér í mótmælaskyni, kannski af því að þeir treystu því að geta fengið vinnu annars staðar svo sem raunin varð. Svipað á við um þá samstarfsmenn Trumps forseta sem hafa sagt af sér embættum síðustu misseri, þeir eiga ekki vinnubann yfir höfði sér. Sumir aðrir hanga þó enn í embættum sínum eins og þeir séu logandi hræddir við að standa upp svo sem margir höfundar hafa lýst í bók eftir bók. Vandinn er því kannski ekki bundinn við fámenni sem slíkt heldur spillingu.
Kostir og gallar fámennis
Fólksfæð hefur bæði kosti og galla. Smálönd eru jafnan samheldin og geta haft að því skapi skárri stjórn á sínum málum í friði fyrir úlfúð og sundurþykkju sem einkenna mörg fjölmenn samfélög. Samheldni Japana er undantekningin sem sannar regluna. En smæðin kostar sitt þar eð færri skattgreiðendur standa á bak við fasta kostnaðinn við opinbera þjónustu. Smálönd þurfa að bæta sér upp óhagræði smæðarinnar með góðri hagstjórn, góðu skipulagi á hlutunum og blómlegum viðskiptum við umheiminn, en þau eru þó jafnan ólíklegri en stærri lönd til að búa að nægum auði til að hafa ráð á góðri og óspilltri stjórnsýslu. Þannig getur fólksfæð leitt af sér spillingu og einnig fákeppni, nápot (þ.e. klíkuskap í embættaveitingum og annars staðar á vinnumarkaði) og refsileysi í skjóli meðvirks ákæruvalds og dómstóla.
Hagkvæmni stærðarinnar er þó ekki heldur einhlít. Í stórum löndum geta stjórnvöld jafnan kreist meira út úr auðlindum náttúrunnar til að friðþægja bakhjarla sína og komast því upp með verri stjórnarhætti en ella.
Hvort vegur þá þyngra, kostirnir eða gallarnir?
Þegar öllu er á botninn hvolft, reynist spilling jafnan minni á heildina litið í litlum löndum en stórum. Smæðin virðist efla aðhaldið að spillingaröflunum meira en hún ýtir undir spillinguna. Séu hagtölur hafðar til marks virðist litlum löndum að jafnaði vegna betur en stórum einnig í efnahagslegu tilliti. Kostir smæðarinnar virðast yfirgnæfa gallana. Smálöndum tekst oft að velta ýmsum fastakostnaði almannavaldsins yfir á herðar fjölmennari vinaríkja líkt og Íslendingar létu Bandaríkjamenn kosta varnir Íslands í meira en hálfa öld þar til herinn hvarf á braut 2006 gegn mótmælum íslenzku ríkisstjórnarinnar. Ef fólksfæð dregur úr spillingu og örvar efnahagslífið, bæta þau tengsl framtíðarhorfur Íslands því minni spilling og meira gegnsæi glæða efnahaginn. Vandi Íslands er því ekki fólksfæðin, heldur spillingin, og gegn henni þurfum við hvort sem er að skera upp herör.
Sækjast sér um líkir
Fólk er ólíkt og hefur ólíkar hugmyndir, óskir og þarfir. Þess vegna eru lönd heimsins mörg og misstór. Þess vegna er Evrópa ekki eitt land heldur mörg. Krafan um batnandi lífskjör í skjóli hagkvæms stórrekstrar knýr að sínu leyti á um sameiningu og samruna. Eftirsókn eftir samneyti við sitt eigið fólk sem býr að sömu menningu og sögu og talar sömu tungu stendur gegn kröfunni um stórrekstur. Það er ekki hagfellt að hafa löndin of stór og fá. Það stafar af því að stór lönd, önnur en Japan, byggir yfirleitt sundurleitt fólk og mikilli fjölbreytni getur fylgt sundurþykkja sem getur staðið velferð fólksins og framþróun fyrir þrifum. Þessa sjást nú orðið merki jafnvel í Bandaríkjunum, merki sem fóru lengi leynt. Smáríkjum getur vegnað vel ef smæðinni fylgir sátt og samheldni. Einsleitni smáþjóða er þó ekki heldur algild regla. Máritíus og Singapúr eru dæmi um fámenn ríki þar sem ólíkir kynþættir búa saman í litlu landrými og efnahagurinn hefur blómstrað.
Einn lykillinn að velfarnaði smáþjóða er að smálöndin geta bætt sér upp óhagræði smæðarinnar með miklum viðskiptum við önnur lönd. Miðsókn togar lönd og þjóðir í átt að frekara samstarfi og sameiningu og stuðlar að fækkun þjóðlanda m.a. af fjárhagsástæðum. Miðflótti hneigist á hinn bóginn til að skipta löndum upp í smærri einingar og stuðlar að fjölgun landa af fjárhags- og menningarástæðum. Miðsóknaröflin höfðu yfirhöndina í Evrópu á 19. öld. Ítalía varð að einu þjóðríki 1861 við sameiningu nokkurra smáríkja og Þýzkaland 1871. Ýmsum þóttu þá jafnvel Belgía og Portúgal vera of lítil lönd til að geta staðið á eigin fótum. Á 20. öld snerist taflið við því þá náði miðflóttaaflið undirtökunum í krafti aukinna millilandaviðskipta. Ísland fékk heimastjórn og varð fullvalda ríki.
Smáþjóðum fer fjölgandi
Smáþjóðir hafa eflzt enn frekar undangengin ár í skjóli aukinna milliríkjaviðskipta. Væri erlendum viðskiptum ekki til að dreifa, þá væru smáríki að ýmsu leyti óhagkvæmar einingar smæðarinnar vegna. Þá þætti mörgum þeirra trúlega nauðsynlegt að sameinast stærri ríkjum af efnahagsástæðum. Mikil og vaxandi millilandaviðskipti leysa smáþjóðirnar af þessum klafa með því að gera þeim kleift að færa sér hagkvæmni stærðarinnar í nyt með viðskiptum við önnur lönd. Þetta er lykillinn að kröfunni um sjálfstæði handa Skotum í krafti framhaldsaðildar Skotlands að ESB.
Millilandaviðskipti hafa með tímanum stuðlað að fjölgun sjálfstæðra ríkja. Þau voru 62 í heiminum öllum 1914. Nú eru þau um 200 og nokkru fleiri ef umtalsverð heimastjórn líkt og í Færeyjum og á Grænlandi er metin til jafns við fullt sjálfstæði. Helmingur ríkja heimsins hefur nú innan við sex og hálfa milljón íbúa. Á þennan kvarða er Níkaragva í miðjum hlíðum í þeim skilningi að lönd með fleiri íbúa en Níkaragva eru jafnmörg og löndin með færri íbúa en Níkaragva sem er litlu fjölmennara land en Danmörk. Af þessu má ráða hversu hlægilegt Skotum með sínar 5,4 milljónir íbúa, líkt og Finnland, Danmörk og Noregur hvert landið um sig, finnst að heyra Englendinga og aðra halda því fram að Skotland sé of fámennt til að geta staðið á eigin fótum sem sjálfstætt ríki. Í Wales búa röskar þrjár milljónir manns. Um 40 sjálfstæð ríki eru nú fámennari en Ísland og þar af hafa 24 ríki 60.000 íbúa eða fleiri. Flestum þeirra vegnar vel, þar á meðal Barbados.
„Um 40 sjálfstæð ríki eru nú fámennari en Ísland“
Mannfæðin er mesta félagsböl Íslendinga, sagði Einar Benediktsson skáld. Íslendingar voru um 100 þúsund þegar orðin féllu. Hann og aðrir vildu að Íslendingar flyttu inn erlent vinnuafl í stórum stíl til að stækka landið sem er einmitt það sem gerzt hefur það sem af er öldinni. Erlendum ríkisborgurum sem námu 2,5% af mannfjölda Íslands um aldamótin síðustu hefur fjölgað upp í 12,5%. Hugmynd Einars og þeirra var að engin leið væri fær til að bjóða Íslendingum viðunandi lífskjör til langs tíma litið önnur en að fjölga þeim nóg til að ná nauðsynlegum lágmarksfjölda, krítískum massa. Þennan krítíska fólksmassa töldu þeir liggja langt yfir 100.000, sem var íbúafjöldi landsins 1925. Í Aþenu til forna bjuggu 200.000 manns og vegnaði vel. Feneyjar og Flórens blómstruðu á miðöldum með 115.000 og 70.000 íbúa, en báðar borgirnar voru að vísu í alfaraleið og gátu bætt sér upp mannfæðina með miklum viðskiptum við önnur svæði.
Er smæðin frágangssök? Nei!
Mannfæð þarf að öllu samanlögðu ekki að standa í vegi fyrir skilvirku fullveldi, hagvexti og velferð, sé vel á málum haldið, þótt færa megi rök að því, líkt og Einar Benediktsson gerði, að fleira fólk myndi lyfta landinu eins og það hefur þegar gert í stórum stíl. Smæðin hamlar samfélagsþróuninni minna en áður þar eð greið millilandaviðskipti gera smálöndum kleift að bæta sér upp óhagræði smæðarinnar með blómlegum viðskiptum við önnur lönd. Hagkvæmni stærðarinnar minnkar með auknum milliríkjaviðskiptum. Þess vegna fer smálöndum fjölgandi. Þess vegna hefur ESB þróazt í átt að smáríkjabandalagi þar sem margir straumar mætast. Aðild að ESB myndi stuðla að enn frekari stækkun Íslands.
Athugasemdir