Sóknarpresturinn í Neskaupstað, Sigurður Rúnar Ragnarsson, keypti einbýlishús í bænum af Þjóðkirkjunni á 21 milljón árið 2014 og seldi það svo á 36,5 milljónir í lok síðasta mánaðar. Munurinn á kaupverði og söluverði hússins er því 15,5 milljónir króna á milli áranna 2014 og 2020.
Sigurður Rúnar var sóknarprestur í prestakallinu frá því 1999 þar til í ágúst í fyrra og bjó hann í umræddu húsi þennan tíma, fyrstu 15 árin var húsið eign kirkjunnar en síðustu fimm árin var húsið í eigu hans og eiginkonu hans.
Eftir að Sigurður Rúnar keypti húsið af Þjóðkirkjunni, eða Kirkjumálasjóði, með sérstökum samningi þar um sem biskupinn Agnes Sigurðardóttir undirritaði í júní árið 2014, fékk hann einnig greiddan húsaleigustyrk frá Þjóðkirkjunni vegna búsetunnar í húsinu. Sigurður Rúnar segir að hann hafi selt húsið þar sem störfum hans í Neskaupstað sé lokið og að hann ætli að flytja til Reykjavíkur.
Athugasemdir