Nótaskipið Sighvatur Bjarnason frá Vestmannaeyjum er nú notað til að hreinsa sjókvíar laxeldisfyrirtækisins Arnarlax í Hringsdal í Arnarfirði af dauðum eldislaxi. 4.000 tonn af laxi er í fimm kvíum fyrirtækisins í Arnarfirði. Um er að ræða á að giska 100 tonn af dauðum laxi samkvæmt samkvæmt Gísla Jónssyni, yfirmanni fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, sem fylgst hefur með hverju skrefi Arnarlax á síðustu dögum vegna erfiðra aðstæðna sem komið hafa upp í rekstri fyrirtækisins í Arnarfirði.
Mikll laxadauði hefur verið í kvíunum upp á síðkastið og safnast dauður eldislax sem kominn er í sláturstærð, 6 til 9 kíló, fyrir á botni kvíanna. Hefur verið brugðið á það ráð að fá skipið frá Vestmannaeyjum til að hreinsa kvíarnar af dauða laxinum.
„Með því versta“ á Vestfjörðum
Gísli Jónsson segir að mikið og gott samráð hafi verið á milli Arnarlax og Matvælastofnunar í málinu. „Við erum búnir að fylgjast mjög vel með þróun mála. Þetta hefur verið smá óheillaþróun og það hefur margt lagst á eitt að skapa erfiðar aðstæður. Það er von á skipi á morgun frá Danmörku til að hjálpa til við slátrun. Við höfum lagt blessun okkar yfir það að fá skip til að hreinsa upp dauðan fisk. Þetta er aðallega ein kví þar sem er dauður fiskur. Þetta mun létta á þeirri kví,“ segir Gísli þegar hann er spurður um aðkomu Matvælastofnunar að því að fá Sighvat Bjarnason til að hreinsa upp dauða eldislaxinn úr kvíunum.
Gísli segir að laxadauðinn sé með því versta sem hann hafi orðið vitni að á Vestfjörðum eftir að Arnarlax hóf starfsemi þar. „Þá er best að fá bara öflugt skip til að dæla fiskinum upp á meðan hann er sem ferskastur til að hægt sé að nýta hann,“ segir Gísli.
Tekið skal fram, til að forðast misskilning, að dauði eldislaxinn sem er plokkaður upp úr kvíunum er nýttur í fiskimjöl og annað slíkt en ekki til manneldis.
Gísli skýtur á að um sé að ræða um það bil 100 tonn af eldislaxi sem hafi drepist. „Ég held að það borgi sig ekkert að vera að skjóta á hvað þetta er mikið en líklega eru þetta um 100 tonn. Þetta er spíralll sem er fljótur að vinda upp á sig. Þessi rekstur má ekki við svona veðri,“ segir hann.
Gísli talar um að samráð Matvælastofnunar hafi aukist mikið eftir að nýr forstjóri tók við forstjórastarfinu hjá Arnarlaxi. „Það er mjög gott samráð á milli okkar og Arnarlax. Nýi forstjórinn Björn Hemre hringir jafnvel oft á dag og þeir vilja hafa allt á hreinu sín megin. Þau eiga allt hrós skilið,“ segir Gísli.
Framkvæmdastjórinn vill ekki tjá sig
Á heimasíðum þar sem fylgjast má með umferð skipa sést að Sighvatur Bjarnason, sem er í eigu útgerðarinnar Hugins ehf. í Vestmannaeyjum, er staðsettur upp í harða landi í Arnarfirði.
Aðspurður um hvort Huginn hafi leigt skipið til Arnarlax til að hreinsa dauðan lax upp úr eldiskvíum segir Páll Þór Guðmundsson framkvæmdastjóri að hann tjái sig ekki um málið. „Ég hef ekkert með þetta að gera. Ég svara þessu bara ekki,“ segir Páll í símasamtali. Sighvatur Bjarnason veiðir að öllu jöfnu loðnu og síld í nót en það eru slík skip sem stundum eru notuð til að hreinsa eldiskvíar af dauðum fiskum.
Stundin hefur heimildir fyrir því að ferðir Sighvats Bjarnasonar, sem sigldi frá Eyjum til Vestfjarða, hafi helst ekki átt að fara hátt.
Mogginn: Mikill laxadauði
Morgunblaðið greindi frá því fyrir nokkrum dögum að mikill laxadauði hefði átt sér stað í kvíunum í Arnarfirði vegna erfiðra aðstæðna, kulda og óveðurs. Blaðið sagði slátrunin hafa legið niðri þó fiskurinn væri kominn í eldisstærð.
Áðurnefndur Gísli Jónsson, dýralæknir fiskisjúkdóma hjá Matvælastofnun, sagði þá að sláturfiskur hefði hlaðist upp án þess að hægt væri að gera eitthvað í því. „Við höfum séð að það hefur stefnt í óefni út af því að það hefur hlaðist upp sláturlax,“ sagði hann í samtali við blaðið.
Gísli lýsti því svo hvernig sambland af kulda og vondu veðri getur skapað skilyrði sem erfitt er við að eiga fyrir laxeldisfyrirtækin þannig að bakteríur byrji að grassera í eldiskvíunum sem auka og hraða laxadauðanum. „Síðan við þessar aðstæður, þegar hiti í sjó er kominn niður í tvær og hálfa gráðu vill fiskurinn oft færa sig niður og þegar þessar óveðurslægðir eru svona djúpar þá eru straumköstin alveg gífurleg. Við þessar aðstæður er lítill hluti fisksins sem nuddar sér við nótina og það er nóg til þess að bakteríur og ákveðnir sýklar sem valda sárum komist í fiskinn. Það getur leitt til dauða á einhverjum vikum,“ sagði Gísli við Morgunblaðið.
Dælingin á dauða laxinum úr eldiskvíunum er svo næsta skrefið í þeirri óheillaþróun sem Gísli lýsti þarna.
Ekki náðist í Björn Hemre, forstjóra Arnarlax, fyrir birtingu fréttarinnar þar sem hann var á fundi.
Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður og einn stærsti eigandi Arnarlax, segir að laxadauðinn sé svipaður og hjá fyrirtækinu í fyrra. „Mér virðist þetta vera svipað og í fyrra en er þó heldur fyrr á ferðinni,“ segir hann.
Athugasemdir