Norska efnahagsbrotadeildin Ökokrim, sem nú rannsakar peningaþvættishluta Samherjamálsins í Namibíu, er gagnrýnd harkalega í norskum fjölmiðlum fyrir aðgerðaleysi í málum sem varða peningaþvætti. Norskir bankar senda mörg tilfelli um athugaverðar millifærslur á peningum eða meint peningaþvætti til Ökokrim en lítið kemur út úr rannsóknunum.
Í fyrra fékk Ökökrim 11.564 tilkynningar um athugaverðar millifærslur frá norskum bönkum, millifærslur frá Samherja til félagsins Cape Cod í skattaskjólinu Marshall-eyjum er eitt af þessum tilfellum, en einungis tólf tilfelli voru send áfram í rannsókn hjá lögreglunni í Noregi.
Ekki hefur spurst meira af rannsókninin á Samherja hjá Ökökrim eftir að embættið gaf það út að fjármagnstilfærslur Samherja í gegnum DNB væru til rannsóknar þar á bæ eftir umfjallarnir Stundarinnar, Kveiks, Al Jazeera og Wikileaks í nóvember í fyrra um mútugreiðslur Samherja í Namibíu og fjármagnsflutninga víða um lönd.
Hluti af gagnrýninni á Ökokrim kemur frá fyrrverandi yfirmanni peningaþvættisrannsókna hjá DNB bankanum, Roar Østby, sem hætti í bankanum fyrir jól en hann hefur sagt að það þjóni engum tilgangi að láta embættið vita af athugaverðum millifærslum. „Það þjónar engum tilgangi að hringja í Økokrim,“ sagði hann í viðtali við Dagens Næringsliv þann 23. janúar.
„Það þjónar engum tilgangi að hringja í Økokrim“
Einungis 17 vinna við peningaþvætti
Starfandi forstjóri Ökokrim, Hedvig Moe, svarar fyrir þessa gagnrýni í Dagens Næringsliv í dag og bendir á að hjá embættinu starfi einungis 17 manns sem vinna við rannsóknir á peningaþvætti og að embættið komist hreinlega ekki yfir meira en það gerir. Til samanburðar starfa 400 manns við eftirlit með peningaþvætti í bara DNB-bankanum, sem er einungis einn af bönkum Noregs en jafnframt sá stærsti.
Í viðtalinu segir Hedvig Moe að Ökokrim geti einfaldlega ekki keppt við einkaðila eins og banka þegar kemur að mannafla sem vinnur við peningaþvættisrannsóknir og að þar af leiðandi geti hún skilið að litið sé á embættið sem flöskuháls í slíkum rannsóknum því bankarnir hafi einfaldlega yfir að ráða svo miklu fleiri starfsmönnum sem sendi svo mikinn fjölda mála til embættisins sem það svo hefur ekki mannafla til að sinna. „Við sjáum auðvitað að það er mikill munur á þeim fjármunum sem lögreglan hefur yfir að ráða og eftirlitsaðilar, ekki síst er munurinn mikill á milli lögreglunnar og einkaðila. Þegar lögreglan hefur minna fjármagn en eftirlitsaðilar þá getur einhver litið á okkur sem flöskuháls,“ segir Hedvig Moe.
„Við gerðum það sem við gátum með það sem við höfðum“
Svipuð gagnrýni á Íslandi
Varnir og aðgerðir Íslands gegn peningaþvætti hafa verið lélegar í gegnum tíðina og leiddi þetta meðal annars til þess að Ísland var sett á gráa lista FATF (Financial Action Task Force) á síðasta ári. Aðeins einn maður á skrifstofu Ríkislögreglustjóra sá um þennan málaflokk allt fram til ársins 2015 þegar eftirlit með peningaþvætti var fært yfir til embættis héraðssaksóknara. Í dag starfa átta hjá embætti héraðssaksóknara við eftirlit gegn peningaþvætti, samanborið við til dæmis sautján hjá norska Ökokrim.
Fyrrverandi æðsti yfirmaður efnahagsbrotarannsókna á Íslandi, Helgi Magnús Gunnarssonar, hefur sagt að lítill áhugi hafi verið á því að efla rannsóknir á efnahagsbrotum á Íslandi á þeim tíma sem hann stýrði málaflokknum hjá ríkislögreglustjóra, 2007 til 2010.
„Stjórnmálamenn réðu þessu eins og oftast með ákvörðunum sínum um fjárveitingar. Það hafði enginn áhuga á að leggja manni lið í þessu þegar eftir því var leitað. Menn sem læra allt sem þeir vita um löggæslu af því að horfa á ameríska lögguþætti, hafa fullan skilning ef það þarf að kaupa riffla eða annan búnað fyrir sérsveit, en engan þegar skilningurinn kallar á vitsmunalega þekkingu og þeir þurfa að lesa sér til. Þetta átti við um rannsóknir efnahagsbrota yfir það heila. Svo allt í einu vöknuðu menn við hrunið og fóru að skilja að kannski gætu refsilagabrot í atvinnulífinu haft afleiðingar jafn vel fyrir þá sjálfa. En að einhver hafi haft áhuga á að hlusta á okkur sem höfðum á þessu þekkingu, það var ekki. Við gerðum það sem við gátum með það sem við höfðum,“ hefur vefmiðillinn Kjarninn meðal annars haft eftir Helga Magnúsi í umfjöllununum sínum um slælegt eftirlit með peningaþvætti á Íslandi.
„Það er orðið fullmannað hjá okkur í þessum málaflokki, 8 starfsmenn“
Tikynningar meira en tífaldast
Í svörum sem Stundin hefur birt frá Ólafi Haukssyni, héraðssaksóknara í Reykjavík og áður sérstökum saksóknara, kemur fram að mikil aukning hafi verið í tilkynningum um meint peningaþvætti á Íslandi á milli áranna 2016 og 2018. Árið 2015 voru þessar tilkynningar 158, 2016 voru þær 655 talsins en árið 2018 voru þær orðnar 1.203.
Í fyrra voru tilkynningarnar orðnar á milli 1.900 og 2.000 segir Ólafur í samtali við Stundina. Því er um að ræða meira em tíföldun á tilkynningum um meint peningaþvætti á Íslandi á árunum 2015 til 2019 og á sama hefur átt sér stað áttföldun í fjölda þeirra starfsmanna sem sinna þessum málaflokki hjá efirlitsaðilum.
„Það er orðið fullmannað hjá okkur í þessum málaflokki, 8 starfsmenn,“ segir Ólafur Hauksson. Hann segir að unnið sé að því í samstarfi við eftirlitsaðila með peningaþvætti á Íslandi, meðal annars bönkunum, að koma upp samræmt tölvukerfi sem auðvelda muni að tilkynna um meint peningaþvætti í landinu. Ólafur segir að ráðgert sé að taka þetta tölvukerfi í notkun í apríl.
Þessar tölur benda því til aukinnar meðvitundar um peningaþvætti í samfélaginu og eins að tilkynningaskyldir aðilar eins og bankar séu meira á tánum gagnvart meintum brotum sem fela í sér mögulegt peningaþvætti. Þegar litið er til þess að einungis einn starfsmaður sinnti eftirliti með peningaþvætti á Íslandi árið 2015 þá má segja að ýmislegt hafi gerst í málaflokknum á liðnum árum því nú eru þeir átta.
Rannsókn á Samherjamálinu stendur nú yfir hjá embætti héraðsaksóknara í Reykjavík en ekkert hefur spurst út um inntak rannsóknarinnar og að hverju hún beinist, hvort verið sé að rannsaka múturnar í Namibíu og eða fjármagnsflutninga Samherja sem gætu hafa falið í sér peningaþvætti eða eftir atvikum einnig aðra þætti í starfsemi útgerðarinnar.
Út frá fréttum um rannsóknir á peningaþvætti í Noregi og Íslandi er hins vegar alveg ljóst að yfirvöld í báðum löndum hafa glímt við sams konar vandamál í rannsóknum sínum á peningaþvætti. Noregur og Ísland gera enn það sem löndin geta með það sem þau hafa svo vísað sé til orða Helga Magnúsar og reynt er að berja í brestina í vörnum gegn peningaþvætti.
Athugasemdir