Íslenskri fjölskyldu sem kom frá Kína á mánudaginn var uppálagt að fara í tveggja vikna sóttkví vegna mögulegs smits af Wuhan-kórónaveirunni, 2019-nCoV. Ekki er vitað til þess að neinn Íslendingur hafi smitast af henni. Allt Kína er nú skilgreint sem hættusvæði vegna veirunnar og Ísland gengur lengra en önnur lönd í að verjast smiti frá veirunni.
„Áður voru bara Hubei-hérað og Wuhan-borg skilgreind sem hættusvæði, en núna er allt Kína skilgreint þannig,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Undanfarna morgna hefur hann haldið daglega stöðufundi með aðilum sem koma að samhæfingarstöð almannavarna. Meðal þeirra er embætti ríkislögreglustjóra, Landspítalinn, heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Rauði krossinn, Landsbjörg og aðilar ferðaþjónustunnar og eftir einn slíkan fund í vikunni voru þau tilmæli gefin út til allra Íslendinga sem koma frá Kína að vera til öryggis í sóttkví í 14 daga frá komunni til landsins.
Athugasemdir