Vestmannaeyjar árið 2016.
Klukkan er 04.39 aðfaranótt laugardagsins 17. september. Dyravörður hringir í lögreglu og lætur vita af því að maður sé að djöflast í konu fyrir utan skemmtistað. Dyravörðurinn fær þau svör að lögreglan sé upptekin og hann eigi að hringja aftur ef hann verður var við frekari átök á milli þeirra.
Það er of seint.
Konan gengur í burtu og maðurinn á eftir. Hálftíma síðar fær lögreglan annað símtal. Í þetta sinn frá konu sem hafði heyrt öskur og grátstafi, stokkið berfætt út og séð dökkklæddan mann ganga reykjandi í burtu frá naktri konu sem lá í götunni. Hún hafði á orði að hann hefði verið góður með sig. Úti var rigning og kalt, svo hún safnaði saman fötum sem lágu á víð og dreif í kringum konuna og lagði yfir hana. Biðin eftir lögreglu og sjúkrabíl var of löng, henni fannst sem konan gæti dáið úr kulda í höndum hennar. Konan sagði lítið og það var sem hún sofnaði.
Áverkar á andliti konunnar voru svo alvarlegir að hún var óþekkjanleg í útliti, það var ekki fyrr en konan svaraði með nafni að hún, sem hélt henni í höndum sér, áttaði sig á því hver konan væri. Hún vissi vel hver hún var; konan var drykkfelld, hafði verið með læti í götunni og hún hafði áður hringt á lögreglu vegna hennar. Af því að konan var auðsýnilega veik og þurfti á aðstoð að halda. Fleiri íbúar í húsunum þarna í kring heyrðu grát konunnar og sársaukahljóð. Annað vitni kom að og sagðist hafa hitt konuna sem lá nú í götunni fyrr um nóttina. Þá var dökkklæddur maður á eftir henni.
„Hann vildi mig bara“
Á spítalanum fékkst aðeins óljós lýsing á atvikum: „Hann kýldi mig og kýldi,“ sagði konan, sem átti erfitt með að greina frá árásinni. Innt eftir nánari atvikalýsingu sagði hún aðeins: „Hann vildi mig bara.“ Þar sem konan lá í sjúkrahúsrúminu hafði blóð lekið í koddann. Andlit hennar var afmyndað, blóðugt, marið og stokkbólgið, svo hún gat ekki opnað augun. Hitinn í líkama hennar hafði mælst 35,3 gráður og hún skalf enn af kulda, auk þess sem hún var í annarlegu ástandi. Hún hefði ekki lifað nóttina af, þar sem hún var skilin eftir í blóði sínu, nakin í götunni.
Loks var konan flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann, þar sem hún sagði frá því á neyðarmóttöku vegna nauðgana að hún myndi eftir því að hafa hitt árásarmanninn skömmu fyrir árásina, sem bar brátt að. Hún hefði verið slegin tveimur höggum og myndi ekkert eftir það.
Seint á síðasta ári féll dómur í málinu. Maðurinn fékk sex ára fangelsisdóm og var dæmdur til að greiða henni 3,5 milljónir.
Ef lögreglan hefði bara komið strax, um leið og hjálparkallið barst, hefði þá verið hægt að bjarga konunni? Líklega. En við vitum það ekki. Hún var upptekin.
Konan var komin í götuna, í lífshættulegu ástandi.
Maðurinn góður með sig.
Þegar lögreglan hverfur frá vettvangi
Reykjavík 2019
Það er 22. desember, það eru að koma jól. Örvæntingarfullur faðir hefur samband við lögregluna og óskar eftir aðstoð vegna dóttur sinnar. Í að minnsta kosti tíu daga hefur hún verið inni á heimili manns sem virðist hafa haldið henni uppi á fíkniefnum á milli þess sem hann misnotar hana. Lögreglan segir föður stúlkunnar að hann þyrfti að átta sig á því að umræddur maður væri löglærður og þangað yrði ekki farið inn nema með hans samþykki. Lögreglan fór að heimili mannsins og bankaði upp á. Maðurinn sagði stúlkuna vera í góðum málum og að hún vildi hvorki tala við lögreglu né foreldra sína. Fíkniefni sáust í fórum mannsins, en ekkert var aðhafst. Faðirinn var skilinn einn eftir fyrir utan húsið, vitandi af dóttur sinni bjargarlausri þar inni.
„Hann var að sprauta mig“
Á Þorláksmessukvöld kölluðu foreldrar stúlkunnar aftur á lögreglu. Í millitíðinni höfðu þeir ráðalausir og áhyggjufullir sent aðra unga manneskju inn á heimili mannsins undir því yfirskini að hún væri mætt í partíið. Viðkomandi gerði þeim viðvart að inni á heimilinu væri dóttir þeirra í vægast sagt annarlegu ástandi og að þar væru eiturlyf og sprautur. Faðir stúlkunnar hringdi aftur í lögreglu, og aftur, áður en hann fékk nokkur viðbrögð. Lögreglan kom loks á staðinn en hikaði við að fara inn. Stúlkan kom loks út, í vægast sagt annarlegu ástandi og datt ítrekað út: „Hann var að sprauta mig.“ Hún var flutt með sjúkrabíl á Landspítalann þar sem hún dvaldi yfir hátíðarnar.
Maðurinn var kallaður í skýrslutöku en sleppt að henni lokinni. Sólarhring síðar var hann handtekinn á ný, nú grunaður um að hafa nýtt þann tíma til að brjóta gegn tveimur ungum konum til viðbótar. Maðurinn sat í gæsluvarðhaldi fram yfir áramót en áframhaldandi gæsluvarðhaldskröfu var hafnað.
Hefði verið hægt að ná konunni sólarhring fyrr út úr húsinu hefði lögreglan brugðist strax við? Jafnvel bjarga tveimur konum til viðbótar í leiðinni? Við vitum það ekki, lögreglan hikaði og hvarf frá vettvangi án frekari aðgerða.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar og allt það.
Nærveru hans.
Þegar lögreglan meðhöndlar sjúka sem glæpamenn
Reykjavík 2019
Fyrr á sama ári, þann 9. apríl kl. 23.30, kveður faðir dóttur sína í síma með þeim orðum að hann muni heyra í henni í fyrramálið. Næsta morgun fengu foreldrar hennar símtal frá Landspítalanum. Læknirinn sagðist hafa slæmar fréttir og góðar. Slæmu fréttirnar voru að dóttir þeirra hefði farið í hjartastopp þá um nóttina. Góðu fréttirnar voru þær að það hefði gerst í höndunum á lögreglumönnum. Sú setning ómar stöðugt í huga foreldranna. Konan var úrskurðuð látin nokkrum klukkutímum síðar.
„Hún bara dó í miðjum slagsmálum“
Um nóttina hafði dóttir þeirra verið viðstödd gleði þar sem mikið var um eiturlyfjaneyslu, tekið örvandi efni og róandi lyf í bland. Undir áhrifum fíkniefna fór hún í geðrof og hljóp út úr húsinu í mikilli geðshræringu, berfætt og óviðráðanleg. Vinur hennar fór á eftir henni og hringdi nokkrum sinnum í neyðarlínuna þar sem hann taldi vinkonu sína þurfa á læknisaðstoð að halda. Í stað sjúkrabíls mætti lögreglan, sem kom konunni í enn frekara uppnám og lagði hún á flótta. Lögreglumenn fóru á eftir henni og handtóku hana, með átökum sem leiddu til andláts hennar. Þeir sögðust hafa átt erfitt með að hemja hana, hún hefði barist gegn handtökunni og þeir því stutt hnjám ofan á herðablöð hennar. Tveir fullorðnir karlmenn. Fullmeðvitaðir um að hún væri sjúklingur kvaðst annar þeirra hafa farið til að sækja plastbönd til að bensla fætur hennar þar sem hún lá á maganum undir þeim, en fljótlega fundið að hún væri líflaus í höndum þeirra. Aðeins tvær mínútur og fjórtán sekúndur liðu á milli þess sem tilkynnt var að búið væri að handtaka hana og þar til tilkynnt var um skerta meðvitund. Eftir að þeir settust aftur inn í bíl sagði annar lögreglumaðurinn við hinn: „Hún bara dó í miðjum slagsmálum. Þetta er sturlað. Hún dó.“
Hafin var rannsókn á málinu þar sem lögreglumennirnir höfðu stöðu sakbornings en málið var látið niður falla því það þótti ekki líklegt til sakfellis. Síðar var greint frá því að frásögn þeirra hefði ekki verið fyllilega í samræmi við niðurstöðu krufningar, þar sem áverkar hefðu verið á líkama hennar vegna ofsafenginna högga, líklega þrýstingshögga sem gætu hafa haft áhrif á öndunargetu hennar. Á hægri fótlegg hennar hefðu meðal annars verið áverkar í samræmi við hart, langt og stíft áhald, sem gæti hafa orðið við högg með lögreglukylfu.
Yfirmaður neyðarlínunnar taldi verklag í samræmi við verkferla, þegar fólk er í geðrofsástandi eru sendir lögreglumenn en ekki læknar. Foreldrar hennar benda á að dóttir þeirra var veik og þurfti hjálp. Hún hafði ekki brotið af sér og var ekki glæpamaður.
Ef hún hefði fengið aðstoð en ekki verið elt uppi og lent í átökum við lögregluna, hefði þetta þá þurft að fara svona?
„Hún bara dó í miðjum slagsmálum ...“
„Hún dó.“
Ef fólk með fíkn og geðrænan vanda gæti bara fengið aðstoðina sem það þarf á að halda án þess að mæta fordómum og hindrunum. Ef sjúklingar væru ekki meðhöndlaðir eins og glæpamenn. Ef lögreglan væri ekki í slagsmálum við veikt fólk.
Ef ...
Sögurnar eru sláandi, en allar þessar konur áttu að minnsta kosti tvennt sameiginlegt: Þær voru undir áhrifum áfengis- eða fíkniefna og ákalli um aðstoð vegna ástands þeirra var ekki svarað. Að minnsta kosti tvær þeirra glímdu einnig við geðrænan vanda.
Þegar við lítum undan
Ef undirliggjandi skilaboð eru þessi: Ef þú ert undir áhrifum þá kallar þú yfir þig ógæfu, þá er rétt að árétta þetta: Fólk kallar aldrei yfir sig ofbeldi. Ekki heldur með ofneyslu áfengis- og vímuefna. Ekkert réttlætir ranglæti.
Ábyrgðin er alltaf þeirra sem beita ofbeldinu, mannsins sem gekk góður með sig á blóðugum skóm frá naktri konu sem lá bjargarlaus í götunni eftir hann.
Ábyrgðin er líka hinna, sem hverfa frá vettvangi án þess að aðhafast nokkuð. Skilja fórnarlömbin eftir án þess að vita nokkuð um afdrif þeirra. Þeirra sem bregðast ekki við ákalli um hjálp. Þeirra sem láta sjúka afskiptalausa, meðhöndla þá sem glæpamenn. Það er ekki glæpur að vera fíkill og það er ekki glæpur að glíma við geðsjúkdóma.
Ábyrgðin er stjórnvalda sem grípa ekki til ráðstafana þegar úrræðaleysið blasir við ungu fólki í neyslu fíkniefna og aðstandendum þeirra, sem sætta sig við að lögreglan þarf stundum að vista ungt fólk í fangaklefa vegna þess að það eru engir aðrir kostir í stöðunni, að fangelsin séu full af veiku fólki sem fær litla sem enga lausn sinna mála, hvorki meðferð við fíkn né geðsjúkdómum, litla sem enga úrvinnslu áfalla eða ofbeldis, enga meðferð við því sem leiddi það að lokum í fangelsi. Stjórnvalda sem reka sjúkrahús með svo miklum skorti að það þarf að loka geðdeildum á sumrin. Þar sem tveir ungir menn þurftu að fyrirfara sér með nokkurra daga millibili áður en loks var gripið til aðgerða til að tryggja öryggi fólks í sjálfsvígshættu inni á geðdeildum Landspítalans.
Ábyrgðin er líka okkar hinna, sem höfnum því að fá húsnæði fyrir heimilislausa í hverfið okkar, göngum fram hjá þeim á götum úti, lítum undan og látum sem örvænting þeirra komi okkur ekki við, neyð þeirra snerti okkur ekki. Við getum gert betur, verið stærri, sýnt mennsku. Af því að samfélag sem getur ekki sýnt veiku fólki virðingu, veitt aðstoð á ögurstundu og stutt sjúka í átt að bata er ekki merkilegt.
Líf þeirra, heilsa og velferð er alveg jafn mikils virði og annarra.
Athugasemdir