Fyrir átta vikum síðan var ég hvort tveggja: Himinsæl yfir því að vera víðs fjarri tilbúinni íslenskri jólastreitu – sem virðist víða nostrað við af jafn mikilli alúð og heimagerða vegan-líkjörinn eða laufabrauðið að hætti langömmu – og miður mín vegna fjarlægðarinnar við hið rammíslenska og rómaða jólabókaflóð (væntanlegt í áldós eins og fjallaloftið).
Facebook-flæðið mitt fór engan varhluta af því að umheimurinn virtist hafa uppgötvað tilvist íslenska jólabókaflóðsins á sama tíma og ég upplifði í fyrsta sinn sáran söknuð eftir því – allt þar til hinn frelsandi engill, hin bókelska móðir mín, birtist með töskuna stappfulla af bókum. Já, jólabókaflóðið er á enskumælandi heimsvísu skyndilega orðið jafn klisjukennt og mýtan um hvernig Ísland sendi alla útrásarvíkingana beina leið í fangelsi. Því það er vissulega fjarri sanni að hver einn og einasti Íslendingur skríði upp í gæruklæddan hægindastól á aðfangadagskvöld með bókastafla í fanginu og klingjandi gong-hljóm innri friðar í eyrum.
Sjálf hef ég síðastliðin ár logið því að sjálfri mér af mikilli ákefð að ég njóti jólaundirbúningsins; vakað langt fram eftir nóttu í aðdraganda jóla við ímynduð nauðsynleg verk. Þar eru hvorki þrif eldavélarinnar með tannstöngla að vopni né gerð heimagerðrar karamellu (sem ár hvert nær ALDREI réttu hitastigi) undanskilin.
Fjarlægð gerir fjöllin blá og jólastreituna hverfandi. Þess vegna get ég sagt ykkur þetta: Ekki láta það pirra ykkur að erlendir miðlar og vel lesnir túristar hampi jólabókaflóðinu á sama hátt og þeir veiða norðurljós eða ryðjast í röðinni að Bláa Lóninu. Það er og verður okkar. Stundin þegar allt er orðið hljótt, þegar við opnum bókina með vægan streituhöfuðverk og alveg pottþétt dálítið öran hjartslátt eftir allt karamelluátið, er okkar. Og hún er lykillinn að árinu, að núvitundinni, að heitunum, að betruninni. Því þótt jólin séu liðin er flóðið ekki í rénun. Það er okkar, langt fram eftir ári. Gleðilegt bókaár.
Athugasemdir