Þetta er árið þar sem börnin gerðu uppreisn. Þar sem sterkasta stelpa í heimi varð manneskja ársins að mati Time, en þeir uppnefndu hana og hæddust að henni, miðaldra jakkafataklæddir karlarnir, með seðlabúntið í vasanum, eiginhagsmunina í huga. Á meðan börnin skrópuðu í skólanum og streymdu niður á Austurvöll alla föstudaga, með skiltin sín og baráttuandann, stóðu þar saman, héldu ræður, leituðu lausna, kröfðust aðgerða, af hálfu okkar sem stóðum hjá, dáðumst að þeim fyrir dugnaðinn, kraftinn og samstöðuna, en gerðum lítið sem ekkert, aldrei alveg nóg. Sáum jökulinn hverfa og ræddum tækifærin sem fælust í loftslagsbreytingum. Héldum líkræðu fyrir jökul, fórum að tala um loftslagsbreytingar sem hamfarahlýnun og hættum að selja plastpoka í búðum, en gleymdum okkur í gleðinni yfir því að loksins fengum við sól.
Þar til óveðrið skall á og innviðir brustu. Hér sat fólk í ísköldum húsum svo dögum skipti, fast í myrkri, án rafmagns, upplýsinga og sambands við umheiminn. Heilsugæsla búin að selja vararafstöðina, því þótt við séum eitt ríkasta land í heimi þá eru ekki til fjármunir til þess að tryggja öryggi fólks. Það sjá sjálfboðaliðar um, björgunarsveitarfólkið sem kastar öllu frá sér og gengur út í öllum veðrum og vindum, gengur vísvitandi inn í aðstæður sem virðast vera vitavonlausar, vegna þess að það veit af fólki í vanda statt. Hann dó, ungi drengurinn sem var að aðstoða bóndann við að koma rafmagni aftur á bæinn, og eftir sitjum við í sárum og skiljum ekki hvernig það getur gerst að afskekktar sveitir og samfélög þurfi að búa við slíkan skort.
Þetta er árið þar sem börnin reyndu að bjarga heiminum. Og skólasystur sinni.
Fyrir þeim var óskiljanlegt hvernig fullorðið fólk getur látið það viðgangast að hér séu börn og foreldrar, verðandi foreldrar, konur komnar á steypirinn, sendar úr landi með læknisvottorð í vasanum um að þær megi ekki fljúga, en er engu að síður flogið burt án þess að þeim sé einu sinni veitt svo mikið sem svigrúm til þess að segja sögu sína, án þess að tekin sé afstaða til mála þeirra eða þeim veitt tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Vegna þess að við þurfum þess ekki, við getum alltaf veifað reglugerðinni sem heimilar okkur að senda börn og foreldra aftur út í óvissuna og óöryggið, þótt við gætum vel veitt þeim allt sem þau þurfa til að skapa sér bjarta framtíð.
Þetta er árið þar sem við sáum Kevin litla leika sér við skólafélagana, altalandi á íslensku, einn af okkur. Veifandi íslenska fánanum og hrópa: Áfram Ísland! án þess að vita að á sömu stundu var verið að flytja barnshafandi konu nauðuga á brott, alveg eins og hann var fluttur úr landi í lögreglufylgd í skjóli nætur, litli drengurinn í dyragættinni, sem stóð þar og horfði út í myrkrið á meðan hann beið þess að verða sóttur og fluttur aftur í heimalandið, þar sem enga lausn var að fá á lífshættulegum sjúkdómi og óvíst hvort hann myndi lifa til tíu ára aldurs. Kevin fékk að koma aftur til Íslands, foreldrar hans reka fyrirtæki og fjölskyldunni líður vel. Hann er heilbrigður, af því að hér fær hann læknisþjónustu. Önnur börn sem fengu aldrei boð um að koma aftur hafa hafst við í frönskum skógi, þar sem þau hafa sofið í tjaldi og haldið á sér hita með varðeldi.
„Áfram Ísland! án þess að vita að á sömu stundu var verið að flytja barnshafandi konu nauðuga á brott“
Börnin í Hagaskóla skildu þetta ekki, svo þau tóku höndum saman og gengu fylktu liði að kærunefnd útlendingamála og beittu sér fyrir velferð skólasystur sinnar. Börnin í Hagaskóla björguðu barni. Börnin á Austurvelli munu bjarga heiminum, ásamt öllum hinum börnunum sem berjast nú fyrir framtíðinni.
Við brugðumst. Við vorum sofandi á verðinum.
Kannski vorum við í afneitun, kannski vorum við upptekin, kannski vorum við bara orðin of þreytt.
Við erum nefnilega svo dugleg, alltaf svo dugleg. Þjóðin sem vinnur mest allra nágrannaríkja, án þess að lægstu laun dugi út mánuðinn, ungt fólk geti komið sér upp framtíðarheimili og aldraðir þurfi ekki að líða skort. Þetta reddast varð að lífsmottó þjóðarinnar, kannski vegna þess að við gátum ekki annað en tamið okkur slíkan hugsunarhátt, en kannski var það líka vegna þess að þá þurfum við ekki að bregðast við eða bera ábyrgð. Konur munu fá sömu laun og karlar, þær munu stýra fyrirtækjum í Kauphöllinni, þær munu búa við öryggi. Bíðið bara rólegar – það kemur.
Bara ekki í ár.
Kannski á næsta ári. Vonandi.
Í ár voru þolendur sem sögðu frá reynslu sinni í Metoo opinberaðir gegn vilja sínum, þeir voru gagnrýndir fyrir að viðhalda nafnleysi, ráðist var að konu sem steig fram, baráttukonu gegn nauðgunum var nauðgað, þingmaður tók opinbera afstöðu með vændiskaupendum, lögreglumaður var dæmdur fyrir blygðunarsemisbrot og hótanir, maður var dæmdur fyrir morð á konu sem hann taldi sig eiga tilkall til, konu sem hann taldi sig eiga og mega refsa vegna þess að hún var honum ekki þóknanleg, þegar hún vildi ekki vera hans þrátt fyrir að hafa einu sinni farið á stefnumót með honum. Þeir voru þó allavega dæmdir. Réttarkerfið bregst ekki alltaf, bara nógu oft til þess að íslenskar konur ákváðu að taka höndum saman og kæra meðferð nauðgunarmála hér á landi til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Sama dómstóls og hefur ítrekað dæmt íslenska ríkið brotlegt fyrir meðferðina á blaðamönnum, sem hafa hlotið ólögmæta refsingu, meðal annars fyrir að segja frá reynslu kvenna af kynlífsiðnaði hér á landi. Sama dómstóls og komst að því að ríkið hefði brotið gegn réttlátri málsmeðferð fyrir Landsrétti með ólögmætri skipan dómara.
Kannski gáfumst við bara upp.
Nenntum ekki að fylgjast lengur með. Sáum ekki tilganginn í því.
Ríkisstjórnin féll eftir að Panama-skjölunum var mótmælt, en næsti forsætisráðherra hafði líka átt aflandsfélag. Ríkisstjórnin féll vegna framgöngu sinnar gagnvart brotaþolum barnaníðinga, en ráðherrarnir sem voru þar að verki gengu aftur inn í sömu ráðuneytin, eins og ekkert hefði í skorist. Nema hvað núna voru þeir komnir í ríkisstjórn með þeim sem höfðu áður gengið hvað harðast fram í gagnrýninni. Ekkert rætt um það meira. Allir glaðir bara.
Tónninn var sleginn í upphafi árs, með endurkomu Klausturmanna á þing, þeirra sem ráðherra hafði áður skilgreint sem „ofbeldismenn“. Við fengum að heyra ævintýralega frásögn þingmanns af afdrifum hans þetta kvöld. Hann sem áður hafði sagt: Já, ég man eftir þessu (inntur eftir skýringum á ummælum sínum þetta kvöld, sem einkenndist af kvenhatri, lítilsvirðingu gagnvart samkynhneigðum og fötluðum, og karlagrobbi vegna spillingar, hann taldi sig eiga inni sendiherrastöðu fyrir að skipa manninn sem var forsætisráðherra í hruninu og annan sem hann taldi til „fávita“ sem sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og Finnlandi) tók skyndilega óvæntan snúning, þegar hann kvaðst allt í einu hafa verið í samfelldu óminnisástandi allt frá því að hann kom inn á barinn og næsta einn og hálfan sólarhring þar á eftir. Ekki nóg með það, hann hafði líka týnt fötunum sínum.
Gleðilegt nýtt ár!
Vertu velkominn aftur. Eða ekki.
Geðlæknir fann sig knúinn til þess að lýsa því yfir að slíkt ástand er alvarlegt merki um heilabilun, vegna mikillar áfengisneyslu eða langvarandi áfengisvanda. Maður sem gegnir ábyrgðarstarfi væri allajafna sendur í langt veikindaleyfi og kæmi ekki aftur til vinnu fyrr en að ítarlegum rannsóknum og meðferð lokinni.
„Öryrkjanum skyldi blæða, gert að draga upp tómt veskið og gjalda fyrir þetta með heilsunni“
Þingmaðurinn settist hins vegar aftur á þing eins og ekkert væri, tveir nýir þingmenn til viðbótar gengu til liðs við flokkinn og með þeim fylgdi aukið fjármagn frá ríkinu, en það var ekki nóg, öryrkjanum skyldi blæða, gert að draga upp tómt veskið og gjalda fyrir þetta með heilsunni. Niðurstaðan – stöðugt vaxandi fylgi kjósenda. Meðal annars með því að hertaka Alþingi, halda úti málþófi sem kostaði Alþingi 40 milljónir vegna máls sem þeir samþykktu sjálfir þegar þeir voru við völd, en snerust núna gegn vegna þess að það hentaði þeirra hagsmunum, þannig gátu þeir skapað sér sérstöðu, fundið nýjan tilgang og vakið á sér athygli.
Kannski er það okkar veikleiki, að leyfa þingmönnum stöðugt að fanga athygli okkar og afvegaleiða umræðuna með upphrópunum og útúrsnúningum. Það var allavega svolítið táknrænt þegar þingmaður var í fyrsta sinn dæmdur brotlegur við siðareglur Alþingis, núna fyrr á árinu.
Eftir allt sem á undan var gengið voru það akstursgreiðslur þingmanna sem siðanefndin tók fyrir. Forsagan var sú að einn maður rukkaði Alþingi um 385 þúsund krónur á mánuði fyrir að rúnta um kjördæmið, eða hátt í 100 þúsund meira en lágmarkslaun í landinu, samtals 23 milljónir króna á nokkurra ára tímabili. Maðurinn viðurkenndi sök með því að endurgreiða hluta af upphæðinni, en það var samt ekki hann sem var dæmdur brotlegur heldur konan sem benti á að uppi væri rökstuddur grunur um að hann hefði dregið að sér fé, almannafé, og ekki væri verið að bregðast við því með rannsókn. Alþingismaðurinn akstursglaði krafðist þess að konunni sem vogaði sér að tala svona yrði refsað, ekki aðeins hér heima heldur einnig á alþjóðavettvangi. Svo hann sendi bréf út í heim og lýsti brotum hennar fyrir Evrópuráðsþinginu.
Í gegnum tíðina höfum við verið svolítið upptekin af ímynd Íslands. Að undanförnu höfum við aðallega aukið óhróður okkar, spilltasta ríki Norðurlandanna.
Lífið er ekki lagahyggja, siðferði er ekki aðeins metið út frá því hvort lög hafi verið brotin, hvort menn séu dæmdir. En jafnvel þá, þegar dómar hafa fallið hafa þingmenn, ráðherrar og ríkið haft tilhneigingu til að hafna þeirri niðurstöðu sýnist þeim svo. Hér er ekki hefð fyrir því að menn axli ábyrgð, það kemur þó fyrir. Nýr dómsmálaráðherra tók við á árinu, af hinum sem gaf til kynna að hann ætlaði að stíga hliðar rétt á meðan verið væri að koma dómskerfinu í lag.
Á meðan við ríghéldum í trú okkar á litla sæta Ísland, saklausa stéttlausa samfélagið sem væri of lítið og fámennt til að hér gæti þrifist spilling, sinntum við ekki aðhalds- og eftirlitshlutverki okkar.
Að lokum var Ísland sett á gráan lista vegna andvaraleysis stjórnvalda gagnvart peningaþvætti. Árinu lauk svo með afhjúpun um stórfyrirtæki sem hefur hagnast á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, og sætir ámæli fyrir stórfelldar mútugreiðslur, aflandsfléttur og grun um peningaþvætti – á svæði þar sem Íslendingar sinntu stoltir þróunaraðstoð og uppbyggingu, en sitja nú uppi með skömmina. Þetta var árið þar sem við áttuðum okkur á því að viðbrögð við spillingarmálum voru harðari í Namibíu en á Íslandi. Á meðan strax var gripið til aðgerða í Afríku hringdi ráðherrann hér heima í vin sinn og spurði hvernig honum liði.
Þetta er árið þar sem fullorðna fólkið missti sakleysið og börnin komu til bjargar.
Ef það er eitthvað sem við getum lært af árinu þá er það að við berum ábyrgð. Um leið getum við verið þakklát, vegna þess að þetta þarf ekki að vera svona. Við höfum allar aðstæður og tækifæri til að gera betur. Nú styttist í að nýtt ár renni upp, nýtt ár, nýir tímar, ný tækifæri. Notum þau vel.
Athugasemdir