Stuðningur Íslendinga við dánaraðstoð hefur aukist undanfarin ár. Mælist hann nú 77,7 prósent í könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Lífsvirðingu, félag um dánaraðstoð. Í könnun sem Siðmennt gerði árið 2015 mældist stuðningurinn 74,5 prósent.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Lífsvirðingu. 77,7 prósent sögðust „mjög hlynnt“ eða „fremur hlynnt“ samkvæmt könnuninni. Einungis 6,8 prósent svarenda völdu möguleikann „mjög andvíg“ eða „fremur andvíg“ við spurningunni. Þá svöruðu 15,4 prósent „í meðallagi“.
Þeir sem sögðust andvígir dánaraðstoð voru spurðir um ástæðu þess. Flestir þeirra töldu að hætta væri á misnotkun. Þá taldi stór hluti að dánaraðstoð væri andstæð siðferðislegum og faglegum skyldum lækna og aðrir að líknandi meðferð, eins og nú er í boði, nægi til að draga úr þjáningu. Loks sagði stór hluti að dánarandstoð væri andstæð þeirra siðferðisgildum, en fáir sögðust andvígir af trúarlegum ástæðum.
Loks voru svarendur spurðir hvaða aðferð Íslendingar ættu að taka upp ef dánaraðstoð yrði leyfð. Almennt er notast við þrjár tegundir aðstoðar. Nær helmingi hugnaðist best sú aðferð sem notuð er í Hollandi, Belgíu, Lúxumborg og Kólumbíu og felur í sér að læknir gefur banvænt lyf beint í æð. Er hún oft nefnd „hollenska leiðin“.
Öðrum hugnaðist best sú aðferð sem notuð er í Sviss þar sem einstaklingurinn innbyrðir sjálfur banvæna blöndu sem læknir hefur skrifað upp á. Minnstan stuðning hlau aðferð sem kennd hefur verið við Oregon ríki í Bandaríkjunum þar sem einstaklingurinn leysir út banvæna lyfjablöndu sem læknir hefur skrifað upp á.
Þá ber að taka fram að spurning Lífsverðingar í ár var önnur en sú sem Siðmennt spurði árið 2015. Var hún þessi: „Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt (dánaraðstoð) ef hann er haldinn sjúkdómi eða ástandi sem hann upplifir óbærilegt og metið hefur verið ólæknandi?“
Siðmennt spurði hins vegar: „Ertu hlynntur eða andvígur því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda enda á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi (líknandi dauði)?
„Það er mjög ánægjulegt að sjá afgerandi stuðning Íslendinga við dánaraðstoð og má velta því fyrir sér hvenær Alþingi muni taka tillit til afstöðu kjósenda,“ segir Ingrid Kuhlman, formaður Lífsvirðingar. „Stjórn Lífsvirðingar telur að um sé að ræða stigsbreytingu í spurningunum en ekki eðlismunur en samanburður niðurstöðu mun koma betur í ljós við næstu könnun sem framkvæmd verður. Árið 2015 var ekki búið að stofna Lífsvirðingu og hugtakanotkun því ekki í samræmi við það sem félagið styðst við í dag. Með því að orða spurninguna upp á nýtt er verið að ná fram skoðun Íslendinga á sjúkdómi eða ástandi sem einstaklingur telur óbærilegt og metið hefur verið ólæknandi. Það er í samræmi við áherslur samtaka um dánaraðstoð um allan heim.“
Athugasemdir