Rafmagn hefur farið af bæði á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Meðal annars fór rafmagn af fyrir skömmu í Blönduhlíð í Skagafirði en kom fljótt inn aftur. Hins vegar fór rafmagn af á Sauðárkróki og er rafmagnslaust þar og í nærsveitum. Hið sama má segja um Grýtbakkahrepp við Eyjafjörð þar sem rafmagn fór af um eittleytið en sló inn aftur skömmu síðar. Rafmagn fór einnig af í Svarvaðardal í Eyjafirði og rafmagnslaust er á Dalvík. Þá er einnig rafmagnslaust á Húsavík.
Bilun er í dreifingu rafmagns á Reykjaströnd í Skagafirði og unnið er að því að finna orsakir bilunarinnar. Þá er rafmagnsbilun í Öxarfirði og unnið að leit að bilun. Staurar eru brotnir í Kópaskerslínu.
RARIK er í viðbragsstöðu vegna rafmagnstruflana og mun bregðast við bilunum. Mælt er með því að slökkt sé á raftækjum þegar rafmagni slær út til að koma í veg fyrir tjón þegar það slær inn að nýju. Á þetta meðal annars við um sjónvörp og tölvur en einnig eldavélar og fleiri tæki. Þá er ekki ráðlagt að setja í þvottavél á meðan rafmagnsafhending er ótrygg.
Á norðanverðum Vestfjörðum er eingöngu keyrt á varaafli frá Bolungarvík sem framleitt er með díselvélum í varaaflstöðinni þar. Landsnet tók ákvörðun um að rjúfa straum til að koma í veg fyrir rafmagnsleysi og tjón sem gæti orðið í óveðrinu.
Athugasemdir