Karlmaður á Norðurlandi eystra var í ársbyrjun dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir að stela sex þúsund krónum úr kaffisjóði Hjálpræðishersins. Þá þurfti hann að greiða 519 þúsund krónur í málskostnað. Þannig virkar réttvísin fyrir venjulegt ógæfufólk.
Það hefði verið saga til næsta bæjar ef dómsmálaráðherra hefði hringt áhyggjufullur í manninn sem stal kaffisjóði Hjálpræðishersins og spurt hvernig honum liði að hafa verið gripinn við að stela og fjármálaráðherra hefði sagt að kaffisjóðurinn hefði legið á glámbekk og herinn gæti sjálfum sér um kennt. Og svo hefðu ráðherrarnir flogið norður til að halda upp á afmælið hans.
Stjórnendur Samherja á Norðurlandi eystra stálu ekki sex þúsund krónum úr kaffisjóði til að kaupa brennivín. Þeir sölsuðu undir sig þriðjungi af öllum hrossamakrílkvóta Namibíu með því að greiða spilltum ráðherrum á annan milljarð króna í mútur.
„Auðvitað er rót vandans í þessu tiltekna máli, veikt og spillt stjórnkerfi í landinu,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og átti við Namibíu en ekki Ísland. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hafði áhyggjur af vini sínum og samherja í lífinu og var efst í huga hvernig honum liði. Það er bara mannlegt. Um leið er þó alveg ljóst að þessi vinátta og störf og stjórnarformennska fyrir Samherja í fortíðinni er ekki til þess fallin að auka traust á því að málið verði tekið föstum tökum. Þess vegna hefði hann átt að bjóðast til að víkja. Og ef ekki, átti forsætisráðherra að hafa vit fyrir honum.
Undanhaldið hefur ekki farið framhjá neinum. Það hefur verið greint frá því að formleg rannsókn sé hafin hjá héraðssaksóknara. En af hverju hefur ekki verið gerð húsleit í höfuðstöðvum Samherja og tengdra fyrirtækja? Af hverju er Þorsteinn Már, aðalpersóna í Samherjamálinu, ekki í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna? Er það vegna þess að embættismenn óttast tvískinnung stjórnvalda og vilja ekki bergja á þessum baneitraða kaleik?
„Eftir að hafa fengið blessun ríkisstjórnarinnar flaug hann samt norður og fór í partí til að fagna nýju frystihúsi Samherja“
Jú, það á að setja einhverja aukapeninga í lögregluna og skattinn en rannsóknin hlýtur samt sem áður að hafa farið á fullt strax. Það verður að rannsaka lögbrot án tillits til væntanlegra fjárveitinga í svona stóru og umfangsmiklu máli. Og ætti fólk ekki að verða vart við það? Eina rannsóknin sem virðist komin almennilega í gang er rannsókn fyrirtækisins sem segist vera að rannsaka sig sjálft og býðst nú til að gera það í samstarfi við opinbera aðila og samherja í ríkisstjórn sem hafa þegið milljónir í kosningasjóði sína af fyrirtækinu. Meðan á öllu þessu stendur er verksmiðjuskip Samherja að moka upp afla í landhelgi Namibíu og flytja yfir í flutningaskip. Það er verið að bjarga verðmætum til Vesturlanda frá örbjarga fólki í Afríku áður en þessi matarhola lokast.
Kristján Þór Júlíusson og Katrín Jakobsdóttir eru samherjar í ríkisstjórn. Hún hefur sagt að Kristján Þór njóti trausts hennar í embætti enda hafi hann ekki brotið lög. Hún segist vona að það verði friður um Kristján Þór. Hann hefur líka sagt sig frá öllum Samherjamálum og er samkvæmt því nær verklaus. Eftir að hafa fengið blessun ríkisstjórnarinnar flaug hann samt norður og fór í partí til að fagna nýju frystihúsi Samherja. Þá fól hann flokksfélaga sínum og fyrrverandi ráðherra, sem nú starfar hjá Alþjóðamatvælastofnuninni, að rannsaka viðskiptahætti útgerða í þróunarlöndunum í kjölfar Samherjamálsins. Hann hefur líka óskað eftir því á síðustu dögum að nefnd sem átti að skoða hvort lögum um kvótaþak væri framfylgt, en Samherji er grunaður um að hafa sniðgengið þau, skili tillögum í janúar. Blaðamenn klóra sér nú í kollinum enda óljóst hvernig þetta samræmist því að víkja í öllum málum sem varða fyrirtækið.
Ríkisstjórnin setti sér það markmið að auka traust á íslenskum stjórnmálum. Það hefur ekki gengið eftir og er í sögulegu lágmarki. Og af hverju ætli það nú sé?
Ríkisstjórnin verður að standa með almenningi og sýna það í verki. Þetta hálfkák er óboðlegt. Það þarf að setja á fót sérstaka rannsóknarnefnd Alþingis til að taka á Samherjamálinu og miða að því að hún skili sem fyrst. Slík nefnd þarf að fjalla um málið í heild sinni, þar með talið gjafakvótann, ítök fyrirtækisins í viðskiptalífi, stjórnmálum og fjölmiðlum. Samhliða því þarf að ákveða upp á nýtt hvernig við förum með kvótann þannig að almenningur hér fái notið afrakstursins af auðlindum sínum en ekki bara örfáir samherjar í viðskiptalífi og stjórnmálum.
Vonandi verður engin sátt um minna en það.
Athugasemdir