Sólveig Anna Jónsdóttir hefur starfað sem ófaglærður leiðbeinandi á leikskóla í átta ár. Útborguð laun hennar, fyrir fullan vinnudag, nema 240 þúsund krónum. Á kvöldin og um helgar vinnur hún í verslun til þess að drýgja tekjurnar og hún er ekki sú eina á vinnustaðnum sem er í aukavinnu samhliða leikskólastarfinu. „Hér eru menntaðir leikskólakennarar sem sitja sveittir og prjóna og selja varninginn til erlendra ferðamanna og ég vinn með tveimur konum sem fara eftir sinn fulla vinnudag og skúra annars staðar, fimm sinnum í viku. Þetta er ekkert einsdæmi. Þú getur farið inn á hvaða kvenna-láglaunavinnustað sem er og þú munt heyra sömu sögu,“ segir Sólveig í samtali við Stundina.
Álagið eykst ár frá ári
Reykjavíkurborg kynnti í miðjum mánuði aðgerðaáætlun í leik- og grunnskólum en í henni felast meðal annars aukin framlög til sérkennslu, efniskostnaðar og faglegs starfs. Alls verður um 920 milljónum króna varið til ýmissa þátta í starfi skólanna. Áætlunin kemur meðal annars í kjölfar þess að hópur leikskólastjórnenda í Reykjavík fjölmenntu á fund borgarstjóra og færðu honum harðorða ályktun þar sem skorað var á borgaryfirvöld að endurskoða fjárveitingar til leikskóla.
Sólveig furðar sig meðal annars á því að allt í einu hafi verið hægt að reiða fram tæpan milljarð til að setja í skólamál, einungis nokkrum vikum eftir að hundrað milljón króna hagræðingarkrafa á leikskólana var kynnt. „Ef þessi milljarður var til í kerfinu, af hverju í ósköpunum vorum við þá að standa í þessum hagræðingaraðgerðum?“ spyr hún.
Athugasemdir