Norður-Kóresku verkafólki er gefið eiturlyfið metamfetamín í von um að flýta fyrir gríðarlegum byggingarframkvæmdum, samkvæmt heimildarmanni Radio Free Asia fréttastofunnar. Phil Robertson, stjórnandi Human Rights Watch í Asíu sagði brotin á verkafólkinu, vegna þrælahalds og nauðungarvinnu, minna á ástandið í síðari heimstyrjöldinni.
Verkstjórar í höfuðborginni Pyongyang eru sagðir vera undir svo miklu álagi að klára verk sín innan ákveðins tímaramma að þeir hafa tekið upp á því að bjóða verkafólki upp á eiturlyf. Lyfið gengur undir gælunafninu „ice“ [ísl. ís] og er gríðarlega örvandi. Þegar það er sogið inn um nefið eða reykt gefur það notandanum mikla vellíðanatilfinningu, aukna orku auk þess sem það minnkar matarlyst. Áhrifin geta varað í allt að tólf klukkustundir.
Svara höftum með því að byggja hús
Hundruð þúsunda Norður-Kóreskra borgara hafa verið neyddir til að vinna að verkefnunum, sem samanstendur af 70 hæða háhýsum og meira en 60 íbúðarblokkum. Verkefnið var sett á laggirnar af leiðtoga landsins, Kim Jong-Un fyrr á þessu ári. Er það eins konar svar við höftum sem lögð voru á landið einangraða vegna tilrauna þess með kjarnorkuvopn.
„Verkstjórar eru opniberlega að bjóða verkafólki eiturlyf svo það vinni hraðar,“ sagði heimildarmaður RFA í Pyongyang. „Það er gríðarleg þjáning að eiga sér stað á þessum vinnustöðum.“
„Hversvegna ekki að borga þeim laun ef þau vilja að verkafólkið vinni hraðar, í stað þess að taka upp á því að gefa þeim eiturlyf?“
Mannréttindasamtök í Asíu hafa sagt aðstæður verkafólk líkjast þrælahaldi og hvetja Sameinuðu þjóðirnar til frekari aðgerða gegn Kim Jong-Un. Phil Robertson, stjórnandi Human Rights Watch í Asíu sagði: „Það gæti orðið erfitt að staðfesta að þetta sé að eiga sér stað, en ef það verður staðfest þá fordæmum við það algjörlega. Hið raunverulega vandamál hérna er þrælahaldið. Hversvegna ekki að borga þeim laun ef þau vilja að verkafólkið vinni hraðar, í stað þess að taka upp á því að gefa þeim eiturlyf?“
Sagði hann Norður-Kóresk yfirvöld vilja klára að reisa þessar byggingar til þess að sanna á einhvern hátt hversu þróað landið sé. „En þessi aðferð við að þvinga fólk til vinnu er algjörlega fordæmd af alþjóðasamfélaginu.“ Robertson bætti því við að ástandið væri aftuhvarf til síðari heimstyrjaldarinnar, þegar ríkisstjórnir brugðu reglulega á það ráð að neyða þegna sína í þrælavinnu.
Norður-Kórea hefur framleitt amfetamín til þess að auka gjaldeyrisforða landsins frá áttunda áratug síðustu aldar. Upphaflega var það selt sem lyf en varð fljótlega gríðarlega vinsælt eiturlyf. Er það framleitt í ríkisreknum verksmiðjum af illa launuðum efnafræðingum og selt bæði heima og erlendis.
Athugasemdir