Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hefur ítrekað komið til varnar kaupum vogunarsjóða á þriðjungshlut í Arion banka. Óli Björn er hins vegar tengdur Arion banka hagsmunaböndum í gegnum fjölskyldu sína, þar sem eiginkona hans er einn af æðstu yfirmönnum bankans.
Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, sem Óli Björn veitir formennsku, er sá vettvangur löggjafarvalds Alþingis sem fjallar sérstaklega um bankamál.
Í siðareglum Alþingismanna segir að þeim beri að forðast hagsmunaárekstra milli sín og fjölskyldu sinnar, annars vegar, og starfa sinna.
Ræddi við bankastjórann vegna málsins
Óli Björn hefur meðal annars rætt við Höskuld Ólafsson, bankastjóra Arion banka, vegna málsins, og boðið honum á fund efnahags- og viðskiptanefndar. Hann greindi frá því í umræðuþætti í fréttum Stöðvar 2 á mánudag, þar sem hann mætti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í umræðum undir stjórn Þorbjörns Þórðarsonar. Í þættinum biðlaði hann til Sigmundar um að vera jákvæðari vegna málsins. Ekki kom hins vegar fram þar að einn af æðstu stjórnendum Arion banka er eiginkona Óla Björns og þar með náin samstarfskona bankastjórans sem Óli Björn boðar á fund. Eiginkona hans, Margrét Sveinsdóttir, er framkvæmdastjóri eignastýringarsviðs Arion banka og situr í framkvæmdastjórn bankans ásamt Höskuldi Ólafssyni.
Óli Björn svaraði því til í þættinum á mánudag að hann hefði boðað bankastjórann, samstarfsmann og yfirmann eiginkonu sinnar, á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
„Það er nú þannig að ég var búinn að ræða við Höskuld Ólafsson áður en sú beiðni kom, Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, mun koma á fund nefndarinnar næstkomandi miðvikudag, og líka sérfræðingar Fjármálaeftirlitsins, þannig að við munum fá örugglega ítarlegri og betri upplýsingar um þetta og vonandi minnka áhyggjurnar eitthvað.“
Jákvæður á kaup vogunarsjóðanna
Óli Björn varði einnig í samtali við Ríkisútvarpið að bankinn skyldu nú vera kominn í ógegnsætt eignarhald í gegnum skattaskjól, þótt hann hafi einnig lagt áherslu á gegnsætt eignarhald til lengri tíma. „Auðvitað er það nú kannski ekki það jákvæðasta sem maður heyrir en menn verða þó að hafa í huga að það er í sjálfu sér ekki ólöglegt að tengjast Cayman-eyjum eða öðrum slíkum svæðum,“ sagði hann.
Í umræðunum með Sigmundi Davíð á Stöð 2 lýsti hann viðskiptunum sem jákvæðum tíðindum.
„Ég held að þetta séu nú fremur jákvæð tíðindi heldur en hitt. Auðvitað geta menn velt sér fyrir sér hvort þessir aðilar séu heppilegustu eigendur til framtíðar að banka. En ég held að það sem skiptir máli er að við erum þó að minnsta kosti að hluta til að fá beint eignarhald í Arion banka og það er verið að undirbúa jarðveginn að skráningu bankans á almennum hlutabréfamarkaði, og það held ég að sé gríðarlega mikilvægt.
„Ég held líka að vinur minn Sigmundur eigi að vera pínulítið kátur líka“
Og ég held líka að vinur minn Sigmundur eigi að vera pínulítið kátur líka, vegna þess að það var auðvitað ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, með Sigmund Davíð sem forsætisráðherra, sem lagði grunninn að því að við gátum náð þeim árangri að taka stór skref í því að afnema fjármagnshöftin, og aflétta þeim að mestu núna í seinustu viku og síðan núna að taka þetta skref, sem ég vonast til að verði okkur til gæfu. En ég held að hann eigi líka að leyfa sér það að fagna þessum áfanga vegna þess að hann á svo stóran þátt í því að við erum að ná þeim áfanga sem við erum búin að ná.“
Óli Björn var spurður í þættinum á Stöð 2 hvort honum þætti ekki óeðlilegt að kaupendurnir skyldu haga því þannig að þeir væru með 9,99 prósent hlut og slyppu þar með undan náinni skoðun Fjármálaeftirlitsins á bakgrunni félaganna.
„Ég held að svarið sé augljóst. Það er auðvitað vegna þess að það hefur sjálfsagt ekki gefist tími hjá þeim til þess að fara í gegnum þetta nálarauga Fjármálaeftirlitsins og að minnsta kosti annar þessa aðila er þegar búinn að óska eftir því að fara í gegnum þetta nálarauga, hæfnismat hjá Fjármálaeftirlitinu, sem byggir auðvitað á því, annars vegar, orðspor viðkomandi sé óflekkað, þannig að hann geti haldið utan um hlut í fjármálastofnunum, að viðkomandi sé fjárhagslega stæður þannig að hann geti haldið utan um eignarhlutinn, viðkomandi tengist ekki einhverjum ólöglegum viðskiptum, peningaþvætti eða einhverju slíku, og aðeignarhaldið sé skýrt.“
Vanhæfi vegna fjölskyldutengsla
Í siðareglum Alþingismanna er fjallað um að þingmenn eigi að forðast hagsmunaárekstra. Er reglunum ætlað að koma í veg fyrir að þingmenn beiti sér í þágu annars en almannahagsmuna þegar þeir taka afstöðu.
„Þingmenn skulu við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar. Takist þingmanni ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá,“ segir í 8. grein siðareglanna. Þá segir í 9. grein að þeir eigi að vekja athygli á tengslum sínum. „Þingmenn skulu, þar sem við á, vekja athygli á persónulegum hagsmunum sínum sem máli skipta við meðferð þingmála.“
Ekki náðist í Óla Björn vegna málsins.
Athugasemdir