Í nýjasta tölublaði Stundarinnar er fjallað um yfirstandandi kjörtímabil, meðal annars arfleifð ríkisstjórnarinnar og hneykslismál sem komið hafa upp á undanförnum árum. Þá eru tekin saman þrjú vandræðalegustu mál stjórnarandstöðunnar. Sá kafli birtist hér að neðan.
Hjáseta við afgreiðslu búvörufrumvarps
Hjáseta Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna í atkvæðagreiðslu um búvörusamninga ríkisstjórnarinnar við bændur þann 13. september síðastliðinn vakti mikla hneykslan og reiði á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Í frumvarpinu eru bændum gefin fyrirheit um ríkisstuðning upp á 12 til 13 milljarða á ári næstu 10 árin. Alls eru þetta samtals meira en 130 milljarðar króna en ofan á þetta bætist óbeinn stuðningur í formi tollverndar upp á um það bil 9 milljarða.
Haft var eftir þingmönnum Pírata að þeir hefðu ekki kynnt sér málið nægilega vel til að treysta sér til að taka afstöðu. Þingmenn Samfylkingarinnar, sem sjálfir höfðu lýst yfir áhyggjum af því að endurskoðunarákvæði frumvarpsins væri veikburða og hefði lítið vægi, réttlætu hjásetu sína eftir atkvæðagreiðsluna með því að vísa til sama endurskoðunarákvæðis og fagna tilkomu þess. Málið reyndist þingmönnum Vinstri grænna ekki jafn óþægilegt, enda hefur flokkurinn aldrei gefið sig sérstaklega út fyrir að vilja koma á róttækum kerfisbreytingum í landbúnaði öðrum en þeim er lúta að umhverfismálum og dýravelferð. Björt framtíð stóð uppi sem eini stjórnarandstöðuflokkurinn sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu og hefur í kjölfarið aukið við fylgi sitt í skoðanakönnunum.
Athugasemdir