Ung kona, Ástrós Kristrúnardóttir, lést á aðfangadag, í blóma lífsins. Ástrós var aðeins 22 ára gömul. Fjölskylda hennar náði ekki að vekja hana um morguninn.
Safnað er fyrir fjölskyldu Ástrósar til þess að hjálpa henni með kostnað vegna jarðarfarar og afleiðinga áfallsins af missinum. Í samtali við Stundina segir frænka Ástrósar, Sólveig Harpa Helgadóttir, að Ástrós hafi verið elskuð af fjölskyldu sinni. Fjölskyldan þarfnist nú stuðnings.
„Elsku Ástrós. Unga og fallega frænka okkar lést á aðfangadag. Sorgin og söknuðurinn er mikill fyrir fjölskyldu hennar og vini,“ segir Sólveig Harpa í Facebook-færslu. „Þetta er erfiður tími fyrir þennan hræðilega missi því langar mig, fyrir hönd stórfjölskyldunnar, að setja af stað söfnun fyrir fjölskyldu hennar sem nú þarf að undirbúa jarðarför og erfidrykkju fyrir stóran fjölda fólks sem vill kveðja þessa ástkæru, yndislegu og litríku stelpu sem fór alltof fljótt frá okkur.“
Vinkona Ástrósar lýsir einnig eftir stuðningi fyrir fjölskyldu hennar í Facebook-hópnum Góða systir.
Ástrós var fædd 24. júlí 1994.
Athugasemdir