Tveir menn voru handteknir á sjötta tímanum í morgun grunaðir um að hafa kveikt í þremur bifreiðum í Breiðholti.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru þeir nú vistaðir í fangageymslu en heimildir Stundarinnar herma að mennirnir hafi verið þrír.
Samkvæmt sömu heimildum komu umræddir menn inn á bensínstöð Skeljungs við Breiðholtsbraut um klukkan sex í morgun, fylltu á tvo bensínbrúsa og skömmu síðar sást reykjarmökkur í nærliggjandi hverfi. Vitni segja þrjár bifreiðir hafa gjöreyðilagst í íkveikjunni en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um málið hjá lögreglunni.
Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar af íbúa í Breiðholti sem hafði samband við Stundina.
Athugasemdir