Brynhildur Pétursdóttir – Björt framtíð
Brynhildur kom ný inn á þing vorið 2013 fyrir Bjarta framtíð og hefur verið formaður þingflokksins frá árinu 2015. Brynhildur hefur beitt sér á sviði samkeppnis- og neytendamála, hvatt til vandaðri starfshátta á Alþingi, svo sem við gerð fjárlaga, og gagnrýnt ríkisstjórnina við ýmis tilefni, til dæmis vegna skuldaniðurfellinga og geðþóttastjórnsýslu við úthlutun styrkja.
Einar K. Guðfinnsson – Sjálfstæðisflokkur
Í ár eru 25 ár síðan Einar tók fyrst sæti á Alþingi. Hann hefur verið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og núna síðast forseti Alþingis. Hans verður meðal annars minnst fyrir að hafa leyft aftur hvalveiðar árið 2009.
Frosti Sigurjónsson – Framsóknarflokkur
Frosti Sigurjónsson hefur ákveðið að hætta á þingi eftir einungis eitt kjörtímabil. Hann er formaður efnahags- og viðskiptanefndar og leiðir nú vinnu sem miðar að því að skera upp herör gegn skattaskjólum. Áður hafði hann látið hafa eftir sér að það væri fullkomlega löglegt að eiga eignir í erlendum aflandseyjum.
Hanna Birna Kristjánsdóttir – Sjálfstæðisflokkur
Hanna Birna kom ný inn á þing eftir síðustu þingkosningar en var borgarstjóri á árunum 2008–2010. Hún varð innanríkisráðherra árið 2013 en sagði eftirminnilega af sér haustið 2014 í kjölfar lekamálsins svokallaða.
Helgi Hrafn Gunnarsson – Píratar
Helgi Hrafn tók sæti á Alþingi fyrir Pírata eftir síðustu kosningar. Hann vakti meðal annars athygli þegar hann rappaði í ræðustól í fyrra og verður meðal annars minnst fyrir að hafa afnumið bann við guðlasti.
Katrín Júlíusdóttir – Samfylking
Katrín hefur setið á þingi frá árinu 2003. Hún var iðnaðarráðherra á árunum 2009 til 2012 og fjármála- og efnahagsráðherra á árunum 2012 til 2013. Katrín vakti meðal annars athygli þegar hún bað Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra afsökunar á því að hafa kallað hann „helvítis dóna“ í ræðustóli.
Kristján L. Möller – Samfylking
Kristján hefur setið á þingi frá árinu 1999. Hann var samgönguráðherra árin 2007 til 2009 og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra árin 2009 og 2010. Þá sat hann í stjórn Vaðlaheiðarganga hf. til ársins 2012, en síðar sama ár samþykkti Alþingi lánveitingu til félagsins.
Páll Jóhann Pálsson – Framsóknarflokkur
Páll Jóhann kom nýr inn á þing eftir síðustu þingkosningar. Páll Jóhann komst í fréttir á síðasta ári þegar fyrirtæki eiginkonu hans var úthlutað 50 milljóna króna makrílkvóta, en Páll Jóhann sat í atvinnuveganefnd þingsins og taldi sig ekki vanhæfan til að fjalla um makrílfrumvarpið.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir – Sjálfstæðisflokkur
Ragnheiður hefur setið á þingi frá árinu 2007. Hún var eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem samþykkti tillöguna um að leggja inn aðildarumsókn hjá Evrópusambandinu árið 2009. Frá því hún tilkynnti að hún hygðist ekki gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu kosningar hefur Ragnheiður verið sterklega orðuð við Viðreisn. Hún hefur ekki gefið afgerandi svör þegar hún er spurð um málið.
Róbert Marshall – Björt framtíð
Róbert sat á þingi fyrir Samfylkinguna árin 2009 til 2013 en fyrir Bjarta framtíð frá árinu 2013. Hann hefur meðal annars lagt áherslu á umhverfismál og var fyrsti flutningsmaður frumvarps um refsingar við náttúruspjöllum árið 2012.
Sigrún Magnúsdóttir – Framsóknarflokkur
Sigrún tók í fyrsta sinn sæti á Alþingi árið 2013. Hún var formaður þingflokks framsóknarmanna á árunum 2013 til 2015 og hefur verið umhverfis- og auðlindaráðherra frá árinu 2014. Athygli vakti þegar Sigrún tók afstöðu með ferli rammaáætlunar eftir að meirihluti atvinnuveganefndar lagði til að fjórir nýir virkjunarkostir yrðu færðir í nýtingarflokk.
Vigdís Hauksdóttir – Framsóknarflokkur
Vigdís hefur setið á þingi frá árinu 2009 og verið formaður fjárlaganefndar frá árinu 2013. Ummæli Vigdísar hafa ósjaldan vakið athygli. Frægt er orðið þegar hún sagði Möltu vera sjálfstjórnarríki innan stærra lands og þegar hún fullyrti að það væri hungursneyð í Evrópu.
Ögmundur Jónasson – Vinstri hreyfingin - grænt framboð
Ögmundur fór fyrst inn á Alþingi sem þingmaður Alþýðubandalagsins árið 1995 en hefur setið á þingi fyrir Vinstri hreyfinguna - grænt framboð frá árinu 2003. Hann var heilbrigðisráðherra árið 2009, dómsmála- og mannréttindaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2010 og innanríkisráðherra 2011–2013. Ögmundur vakti meðal annars athygli þegar hann mótmælti harðlega gjaldtöku við Geysi.
Athugasemdir