„Mér fannst ég bara vera kominn með bakið upp við vegg og að ég yrði að gera eitthvað í þessu,“ segir Svanur Þór Halldórsson sem er 32 ára gamall en hann tók upp á því að auglýsa eftir nýra á Facebook-síðu sinni á þriðjudaginn. Svanur Þór hefur glímt við nýrnasjúkdóm frá fæðingu og hefur sjúkdómurinn aftrað honum frá því að stunda nám og vinnu alla tíð.
Svanur Þór var hætt kominn þegar hann var sextán ára gamall en þá var ástandið á nýrum hans það slæmt að allt útlit var fyrir að hann þyrfti að tengjast blóðskilunarvél. Það var stór biti fyrir sextán ára fjörugan strák að gleypa. En þá fékk hann lífsgjöf frá föður sínum.
„Það sem ég er biðja um er ekki
lítil gjöf heldur ómetanleg lífsgjöf“
„Já, þá fékk ég mitt fyrsta nýra og það var frá honum pabba mínum. Þá var ég sextán ára gamall. Það gekk ágætlega í fimmtán ár en í ársbyrjun í fyrra þá fór ég að finna fyrir því að afkastageta þess minnkaði til muna. Ég var orðinn mjög slappur. Þá var farið að leita innan fjölskyldunnar að nýrnagjafa en hann fannst ekki,“ segir Svanur Þór sem mun ávallt vera þakklátur föður sínum fyrir nýrað sem hann fékk fyrir tæpum sextán árum.
„Ég er alltaf að átta mig meira og meira á því hvað þetta var mikil lífsgjöf á sínum tíma. Þetta gerði það að verkum að ég gat lifað lífinu en þurfti ekki að vera bundinn við gervinýra nokkrum sinnum í viku,“ segir Svanur Þór en þar á hann við sérstaka blóðskilunarvél sem hreinsar nýrun, þrisvar sinnum í viku og í fjórar klukkustundir í hvert skipti.
Vélin heldur í honum lífinu
„Þessi vél heldur í mér lífinu, en þetta er samt ekkert líf. Það er ekkert líf að vera bundinn við þessa vél það sem eftir er. Ég er á biðlista eftir nýju nýra og hef verið á honum í rúmt ár. Um leið og nýra finnst sem hentar mér þá er ég fluttur til Svíþjóðar í aðgerð. Það er hinsvegar engin nákvæm röð á þessum biðlista og hann er því óútreiknanlegur. En þetta er ekkert að gerast á næstu vikum eða mánuðum. Svona til þess að setja þetta í samhengi þá hafa til dæmis engir íslenskir sjúklingar fengið nýru á þessu ári. Ekki einu sinni einn,“ segir Svanur Þór sem tók til þess ráðs að auglýsa á Facebook. Honum var bent á það af öðrum sjúklingum sem mæta í blóðskilun á Landspítalanum.
Viðbrögðin hafa ekki staðið á sér og þó svo að ekkert nýra sé enn komið í leitirnar þá segist Svanur Þór þakklátur öllum þeim sem hafa hughreyst hann og deilt stöðuuppfærslunni. Hann segist átta sig á því að þetta sé ekki lítil gjöf sem hann biður um.
„Það sem ég er biðja um er ekki lítil gjöf heldur ómetanleg lífsgjöf, frelsi og endurnýjuð heilsa. Mig langar að fá heilsuna tilbaka svo ég geti lifað eðlilegu lífi og uppfyllt drauma mína án þess að vera bundinn við vél,“ segir Svanur Þór.
Hann segir líf sitt snúast um sjúkdóminn í dag og erfitt sé að stunda nám eða vinnu vegna hans.
Þráir að fá heilsuna og frelsið aftur
„Ég er ekki vanur að opna mig eitthvað um mín mál eða veikindi. Þá er ég alls ekki sá sem leitar eftir athygli eða aðstoð, ef út í það er farið. Ég er mjög hógvær, jarðbundinn og hlédrægur ef eitthvað er, en mér fannst ég bara þurfa að standa upp og gera eitthvað. Mig langar ekki að lifa lífinu í skugga blóðskilunarvélarinnar. Sú manneskja sem er tilbúin að gefa mér nýra, svo ég fái heilsuna og frelsið aftur tilbaka sem ég þrái svo heitt í dag, þarf taka upplýsta, heiðarlega og óeigingjarna ákvörðun. Ég átta mig á hversu risastór ákvörðun það er að gefa og set mig í fótspor gjafans,“ segir Svanur Þór og hvetur alla þá sem vilja aðstoða hann að dreifa umræddri stöðuuppfærslu á Facebook sem birtist hér að neðan.
Aðgerð úr lifandi gjafa er framkvæmd á Landspítanum og sá sem gefur þarf ekki vera blóðskyldur en aðalatriðið er að nýrnagjafi:
1. Hafi tekið upplýsta ákvörðun um vilja gefa nýra
2. Líkamlega og andlega heilbrigður
3. Í blóðflokki O
4. Eldri en 18 ára
Hildigunnur Friðjónsdóttir og Selma Maríusdóttir hjúkrunarfræðingar á ígræðslugöngudeild Landspítala 10-E veita frekari upplýsingar um nýrnagjafir í síma 8253766 / 8255837 á dagvinnutíma og einnig er hægt að senda tölvupóst á transplant@landspitali.is / hildigun@landspitali.is
Með því að smella hér og hér er hægt að nálgast upplýsingar um ígræðslur og nýrnagjafir.
Athugasemdir