Sunna Guðrún Eaton, sem vakti mikla athygli fyrr á þessu ári vegna myndbands þar sem hún gagnrýnir íslenska femínista, hefur verið ákærð af Ríkissaksóknara fyrir líflátshótanir í garð framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur, Halldóru Drafnar Gunnarsdóttur. Hún er ákærð fyrir brot gegn valdstjórn og ærumeiðandi aðdróttanir gegn Halldóru.
Myndband Sunnu, sem kallar sig Sunny Sweetness, „feminists in Iceland“ fór eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla í upphafi árs. Sunnar tjáir sig um Barnavernd Reykjavíkur ítrekað í nýlegum myndböndum og telur hún sig ofsótta af stofnuninni. Í þessu sama myndbandi ræðst hún á Halldóru Dröfn. Sunna kaus að tjá sig ekki málið þegar Stundin sóttist eftir viðbrögðum hennar.
Hótaði að pynta starfsmanninn
Um er að ræða þrjú mismunandi atvik sem Sunna Guðrún er ákærð fyrir. Samkvæmt ákæru á Sunna að hafa hótað Halldóru ofbeldi og lífláti sumarið 2012 ef hún hefði afskipti af sínum málum. Í ákæru kemur fram að annar starfsmaður Barnaverndar var viðstaddur þegar sú hótun fór fram. Seinna atvikið var 8. febrúar árið 2013 en þá er Sunna sögð hafa hótað Halldóru ofbeldi og lífláti á ný í símtali við annan starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur. Sunna er sögð hafa lýst því yfir að Halldóra væri „erkióvinur sinn og fórnarlamb sitt og kvaðst ætla pynta Halldóru Dröfn þangað til hún deyi.“ Þriðja atvikið var svo 12. apríl árið 2013 en samkvæmt ákæru sendi Sunna tvö sms skeyti á Halldóru úr farsímanúmeri sínu þann dag. Samkvæmt ákæru var efni skeytanna stutt: „Barnaræningi“ annars vegar og „Skítamella“ hins vegar.
Fékk kvíðahnút að sjá bréf frá Reykjavíkurborg
Þann 28. apríl birti Sunna Guðrún myndband á Youtube sem ber heitið „Child protective services in Reykjavik“, þar sem hún bæði gagnrýnir Barnavernd Reykjavíkur og segir sína hlið á málinu. „Ég var alltaf svo hrædd við að fara í póstkassann minn og sjá bréf frá Reykjavíkurborg. Ég þekki margar mæður sem eru hræddar við að fara í póstkassann sinn því þær eru hræddar um að einhver hafi tilkynnt þær til Barnaverndar. Ég skal segja ykkur það, í Skandinavíu tilkynnir fólk mann ef maður segir haltu kjafti eða hækkar róminn við barnið,“ segir Sunna meðal annars í myndbandinu.
„... í Skandinavíu tilkynnir fólk mann ef maður segir haltu kjafti eða hækkar róminn við barnið“
Hún segist alltaf hafa áhyggjur af því að lenda upp á kant við einhvern myndi viðkomandi tilkynna sig til Barnaverndar. „Ég hlakka til að fara í póstkassann minn til að sjá hvaða hálfviti hefur tilkynnt mig vegna einhvers. Það er fokking gaman. Ég verð spennt. Ég fæ ekki lengur kvíðahnút í magann þegar ég sé bréf frá Reykjavíkurborg. Ég vil sjá núna hvað fólk er að segja um mig. Ég hef ekkert að gera svo það veitir mér spennu,“ segir Sunna síðar í sama myndbandi.
Lýsir atvikinu
Um mitt myndband lýsir Sunna raunar hennar hlið á málinu sem hún hefur nú verið ákærð fyrir. „Þau tóku börn vegna þess að ég fékk flog og var í uppnámi. Ég braut eitthvað og öskraði. Þau létu handtaka mig, fyrsta skipti sem ég hef verið handtekin og sett í fangaklefa í nokkra klukkutíma. Þegar ég kom út höfðu þeir farið í leikskólann og tekið börnin,“ segir Sunna. Því næst ræðst hún á Halldóru Dröfn, framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur, og birtir mynd af henni. Hún segir Halldóru Dröfn stýra glæpasamtökum sem kalli sig Barnavernd Reykjavíkur.
Viðurkennir sök í Youtube-myndbandi
„Á Íslandi, ef þú sýnir einhvers konar ósamvinnuþýði eða tilfinningar vegna þess sem Barnavernd geri manni, ef maður sýnir þeim reiði þá segja þeir að maður sé ekki í tilfinningalegu jafnvægi,“ segir Sunna. Hún dregur því næst upp bréf frá Ríkissaksóknara og ræðir ákæruna. „Ég hef sagt henni hvað mér finnst um hennar illvirki, ég hef ekkert gott um hana að segja [...] Ég kannast ekki við að hafa hótað henni, en ég veit að ég hef sagt henni hvað mér finnst um hana,“ segir Sunna. Hún stendur við orð sín um að hún telur Halldóru vera „barnaræninga“ en kannast ekki við að hafa skrifað „skítamella“ í sms-skeyti.
Athugasemdir