Viðburðarfyrirtækið Basic House Effect hefur í ár og í fyrra staðið fyrir grunnskólaballi sem nefnist Sumargleðin. Ballið er ætlað nemendum í 8., 9. og 10. bekk og er eitt stærsta grunnskólaball landsins. Í ár fór ballið fram í Kaplakrika þann 11. júní.
Í fréttum sem birtar voru um ballið og í miðasölu var því haldið fram að allur ágóði af skemmtuninni rynni óskertur til ýmist Barnaspítala Hringsins eða Rauða krossins.
Hins vegar kannast enginn hjá hvorki Barnaspítalanum né Rauða krossinum við viðburðinn, fyrirtækið eða ábyrgðarmenn þess, Grím Óla Geirsson eða Bjarna Hallgrím Bjarnason.
Félagið lofaði fyrst árið 2012 að gefa Barnaspítala Hringsins fé. Í samtali við Stundina segir Bjarni að tap hafi verið á skemmtuninni í fyrra og því hafi ekkert verið gefið til góðgerðamála.
„Ég kannast ekki við neitt sem heitir Sumargleðin.“
Rauði krossinn kannast ekki við neitt
Stundin ræddi við bæði starfsmann og nefndarmann góðgerðafélags Hringsins og hvorugur kannaðist við Sumargleðina eða þá Grím eða Bjarna.
Stundin ræddi auk þess við Jóhönnu Guðbjartsdóttur hjá Barnaspítalanum. „Ég kannast ekki við neitt sem heitir Sumargleðin. Þessir aðilar hafa aldrei gefið neitt. Þetta er eitthvað skrítið. Þetta er það sem við höfum alltaf verið hrædd um, að fólk sé að misnota logoið,“ segir Jóhanna.
Athugasemdir