Stundin birtir héðan í frá skrá yfir hagsmunatengsl ritstjóra miðilsins opinberlega. Ákvörðun um birtingu hagsmunaskráningar er tekin til að auka gagnsæi í störfum miðilsins. Stundin er fyrsti fjölmiðillinn hérlendis til þess að láta ritstjóra undirgangast sömu reglur og alþingismenn í skráningu hagsmuna.
Hagsmunaskráningin er birt á slóðinni http://stundin.is/stundin/hagsmunaskraning/.
Ákvörðun um skráningu hagsmuna á sér stoð í samþykktum útgáfufélagsins Stundarinnar. Þar segir: „Stjórn er skylt að setja reglur er kveður á um að stjórn félagsins og ritstjórn sé skylt að skrá opinberlega á heimasíðu félagsins hagsmuni sína, meðal annars störf fyrir hagsmunasamtök, stjórnmálaflokka, lánafyrirgreiðslur vegna hlutafjárkaupa og eignir í hlutabréfum.“
Reglurnar gilda um núverandi og framtíðarritstjóra Stundarinnar. Núverandi ritstjórar Stundarinnar eru Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Jón Trausti Reynisson.
Sú hagsmunaskráning sem Stundin styðst við er því sem næst samhljóða hagsmunaskráningu þingmanna, að viðbættum spurningum um störf fyrir stjórnmálaflokka. Þess ber að geta að hvorugur ritstjóra Stundarinnar hefur starfað fyrir stjórnmálaflokka.
Yfirtökuvarnir og ákvæði um valddreifingu
Einnig eru reglur í samþykktum Útgáfufélags Stundarinnar sem skylda hluthafa, sem eignast hefur meira en 33 prósent af hlutafé félagsins, til að upplýsa um uppruna lánsfjár að baki kaupum á hlutafé. Þá þarf samþykki meirihluta stjórnar til þess að einn aðili og aðilar honum fjárhagslega tengdir eignist meira en 10 prósent af hlutafé félagsins. Sérstakt samþykki stjórnar þarf til að einn aðili, að viðbættum aðilum honum fjárhagslega tengdum, fari með meira en 10 prósent atkvæðamagns á stjórnarfundum. Loks er valddreifingarákvæði í samþykktum félagsins um að enginn einn hluthafi geti farið með meira en 15 prósent atkvæðamagns á hluthafafundum, þrátt fyrir að eignarhlutur kunni að vera hærri.
Stundin er í eigu 16 aðila sem eiga allir undir 13 prósenta hlut. Hún var stofnuð fyrir tilstuðlan hópfjármögnunar í ársbyrjun 2015.
Athugasemdir