Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis styður tillögu dómsmálaráðherra þess efnis að vikið verði frá mati nefndar um mat á umsækjendum um dómarastörf við skipun í Landsrétt.
Tillaga ráðherra felur í sér að fjórir umsækjendur af þeim fimmtán sem dómnefndin taldi hæfasta verða ekki skipaðir dómarar en aðrir fjórir umsækjendur verða skipaðir í þeirra stað.
Á meðal þeirra sem dómsmálaráðherra og meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vilja skipa þvert á mat dómnefndarinnar eru Jón Finnbjörnsson og Arnfríður Einarsdóttir.
Jón Finnbjörnsson lenti í 30. sæti á lista dómnefndarinnar, en hann er eiginmaður Erlu S. Árnadóttur sem var vinnuveitandi ráðherra til margra ára hjá lögmannsstofunni Lex. Arnfríður Einarsdóttir er eiginkona Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Brynjar er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og vinnur þannig náið með meirihluta nefndarinnar.
„Meiri hlutinn tekur fram að hann hefur fjallað um þær forsendur sem liggja að baki tillögu ráðherra um tilnefningar einstakra dómara í Landsrétt, þ.m.t. um að breyta út frá tillögu dómnefndar, og fellst á þær,“ segir í nefndaráliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem birtist á vef Alþingis nú á ellefta tímanum. Fulltrúar stjórnarmeirihlutans í nefndinni eru sjálfstæðismennirnir Birgir Ármannsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason og Hildur Sverrisdóttir og Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar. Sagði Brynjar Níelsson sig frá málinu vegna fyrrnefndra tengsla.
Í nefndarálitinu kemur fram að dómsmálaráðherra telji enga formgalla hafa verið á meðferð dómnefndar við mat á umsækjendum. Eftir að dómnefnd skilaði umsögn sinni til ráðherra hafi ráðherra sem veitingarvaldshafi þurft að meta tillögurnar sjálfstætt. „Fram kom að ráðherra hefði hins vegar verið að hluta til ósammála vægi dómnefndarinnar á einstaka matsþáttum, m.a. varðandi þætti er lúta að dómarareynslu, þ.e. stjórn þinghalds, samningu og ritun dóma og almenna starfshæfni,“ segir í álitinu. „Bendir ráðherra á að með því að gera ekki tilraun til þess að leggja tvo fyrrnefndu þættina til grundvallar heildarmati verði ekki annað ráðið en að reynsla dómara hafi ekki fengið það vægi sem tilefni er til og gert er ráð fyrir í reglum nr. 620/2010 um störf dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti.“
„Eigum við að leyfa Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn að stela dómsvaldinu?“
Mikil reiði hefur blossað upp í netheimum og meðal þingmanna stjórnarandstöðunnar vegna málsins. „Hvað er til ráða? Á að leyfa ráðherra að skapa vantraust gagnvart heilu nýju dómstigi með því að frekjast fram með órökstudda hentisemisskoðun sína? Eigum við að leyfa Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn að stela dómsvaldinu?“ skrifar Smári McCarthy, þingmaður Pírata, á Facebook en Píratar hafa hótað að leggja fram vantrauststillögu gegn dómsmálaráðherra. Þá skrifar Oddný Harðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar: „Tillaga dómsmálaráðherra að skipan dómara við nýjan Landsrétt er hneyksli. Breytingar hennar á tillögu dómnefndar um hæfustu umsækjendur er órökstudd og virðist byggð á huglægu mati. Framganga ráðherrans grefur undan trausti og er fúsk leyfi ég mér að segja. En stjórnarliðar ætla styðja fúskið.“
Í áliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis kemur fram að fyrir nefndinni hafi verið skiptar skoðanir um hvort ráðherra eigi að vera bundinn af umsögn dómnefnda. „Með því mundi dómnefnd í raun ráða hverjir verði skipaðir dómarar. Ef ráðherra væri undantekningarlaust skylt að fara eftir áliti dómnefndar væri ábyrgðin á skipun dómara hjá stjórnvaldi sem er ekki ábyrgt gagnvart þinginu en slík tilhögun hefur sums staðar þótt orka tvímælis,“ segir í álitinu. „Meiri hlutinn tekur fram að með þeirri tilhögun sem samþykkt var með lögum á Alþingi um að ráðherra sé óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, nema Alþingi samþykki tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjenda sem fullnægir að mati dómnefndar skilyrðum laganna, er tekin skýr afstaða til þess að veitingarvaldið er hjá ráðherra en ekki hjá dómnefndinni. Til þess að tillaga ráðherra sem víkur frá niðurstöðu dómnefndar öðlist gildi þarf hún engu síður aðkomu annars handhafa ríkisvaldsins, í þessu tilviki löggjafarsamkomunnar.“
Fulltrúar meirihlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fullyrða að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hafi litið til jafnréttissjónarmiða þegar hún setti tillögu sína fram. „Meiri hlutinn tekur fram að nái tillaga ráðherra fram að ganga hefur ekki áður verið sett á laggirnar jafn mikilvægt nýtt embætti með svo jöfnum kynjahlutföllum sem hér um ræðir.“ Eins og Stundin hefur áður greint frá hefur Sigríður lýst sig mótfallna því að litið sé sérstaklega til kynjasjónarmiða þegar skipað er í dómarastöður. Þann 7. febrúar síðastliðinn sagði hún að ekki yrðu gerðar ráðstafanir til að gefa slíkum sjónarmiðum vægi við hæfnismat og skipan í embætti dómara við Landsrétt. „Tel ég ekki til velfarnaðar fallið almennt að hugsa skipan í jafn mikilvæg embætti og dómarastörf eru með þeim hætti sem fyrirspyrjandi er að kalla eftir að mögulega sé gert, ef ég skil hann rétt, að litið sé sérstaklega til kynjasjónarmiða,“ sagði hún.
Athugasemdir