Það er allur gangur á því hvað Cardew-fjölskyldan er að sýsla þegar klukkan slær sex á aðfangadagskvöld. Eitt er víst að þar ganga fjölskyldumeðlimir ekki uppábúnir og hátíðlegir á milli hver annars í skreyttu og skrúbbuðu húsi, faðmast og segja hátíðlega: Gleðileg jól! Húsið þeirra er ekki skreytt og það stendur ekkert jólatré í stofunni. Meiri líkur eru á að þau séu að spila, jafnvel á náttfötunum, eða bara á leiðinni út í göngutúr með hundinn.
„Nei, nei, ekki mér að minnsta kosti. Ég man ekki einu sinni eftir því hvernig það er að halda jól,“ segir yngsta systkinið, Harriet, þegar þau systkinin eru spurð að því hvort þeim þyki ekkert skrýtið að halda ekki jól, eins og allir aðrir í kringum þau gera. Það er heldur ekki skrýtið að Harriet muni lítið eftir þeim tíma. Hún var fjögurra ára þegar fjölskyldan hélt síðast jól, árið 2008. „Það varð hrun þarna um haustið og beint í kjölfarið á því fóru allir með gleði og söng inn í jólahátíðina. Það var þá sem fór að sækja að mér mikill efi. Mér fannst við ennþá vera að moka upp á þennan haug af ofgnótt og að allir ætluðu að halda því áfram, umhugsunarlaust,“ útskýrir Kristín Cardew, mamma barnanna fjögurra. „Þetta var svolítið eins og þegar maður gengur um með stein í skónum. Þetta fór að trufla mig, svo ágerðist sú tilfinning, þangað til ég fann að ég yrði að díla við það. Mig langaði að vita hvort þessi jólaandi sem allir væru að tala um, væri raunverulega til. Söknum við þess, ef við höldum ekki jól?“
Eins og að fylgjast með raunveruleikaþætti
Svarið var nei. Að minnsta kosti hjá foreldrunum, sem hafa ekki áhuga á að snúa aftur til fyrri tíma. Eftir því sem frá líður fjarlægjast þau siðinn og þau eiga erfiðara með að tengja við hann. „Í fyrsta sinn sem við héldum ekki jól leið okkur eins og við værum að stelast til þess að gera eitthvað sem við máttum ekki. Það var einhvern veginn absúrd að sleppa þessu bara. Núna líður mér alltaf meira og meira eins og við séum statistar í raunveruleikaþætti, sem við erum inni í en tökum ekki þátt í. Ég veit þetta er að hellast yfir landið, þegar ég fer að heyra þessa spurningu út undan mér út um allt: „Hvað á ég að kaupa handa þessum, sem á allt?“ Svo koma jólin og þá klæða allir sig upp og það er eins og fólk taki sér einhvers konar hlutverk. Þetta verður næstum því eins og leikrit. Það er alveg magnað að horfa á þetta utan frá, sjá hvernig þetta byrjar allt saman, magnast og tekur allt yfir.“
Athugasemdir