Það stefnir í að Samfylkingin í Kópavogi klofni og fjöldi félaga segi sig úr flokknum vegna mjög umdeildrar tillögu um flutning bæjarskrifstofu. Þetta kemur fram í máli Kristjáns Guðmundssonar, fyrrverandi bæjarstjóra Kópavogs og áhrifamann í Samfylkingunni í Kópavogi. Að hans sögn sauð upp úr á almennum íbúafundi sem haldinn var um húsnæði stjórnsýslu Kópavogs síðastliðinn þriðjudag. Kristján segir að samfylkingarfólk óttist að Ása Richardsdóttir, annar tveggja fulltrúa Samfylkingarinnar, muni styðja áform bæjarstjórans um flutning bæjarskrifstofunnar. Ása neitaði að gefa upp afstöðu sína til málsins þegar Stundin leitaði viðbragða hennar.
Stundin hefur áður fjallað um þá ólgu sem er innan bæjarfélagsins vegna áforma um kaup á nýju húsnæði í Norðurturni við Smáralind. Á meðal eigenda Norðurturnsins er félagið Hjúpur, dótturfyrirtæki Byggingafélags Gunnars Þorlákssonar og Gylfa Ómars Héðinssonar (Bygg ehf.) sem var aðalverktaki turnsins. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, hefur barist hve harðast fyrir því að bæjarskrifstofurnar verði fluttar í turninn. Nokkur tengsl eru á milli hans og Bygg, félagið styrkti hann fjárhagslega í prófkjöri fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og sonur Gylfa, Hörður Már Gylfason, keypti í sumar einbýlishús bæjarstjórans við Mánalind fyrir 75 milljónir króna.
Kosið verður um málið í bæjarstjórn næsta þriðjudag.
Athugasemdir