Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram fyrirspurn til innanríkisráðherra um lögfræðikostnað hælisleitenda og málshraða við meðferð hælisumsókna.
Fyrirspurn hans er í tveimur liðum. Annars vegar er spurt hver kostnaður ríkissjóðs var vegna lögfræðiþjónustu við hælisleitendur árin 2013–2015 og það sem af er árinu 2016. Hins vegar spyr Ásmundur hvernig málshraði við meðferð hælisumsókna hafi breyst á sama tíma.
Þingmaðurinn hefur áður látið sig málefni hælisleitenda varða. „Hún vakti með mér óhug, fréttin í morgun af hælisleitanda eða flóttamanni sem hótaði að kveikja í sér í gærkvöldi,“ sagði hann í umræðum á Alþingi þann 1. mars síðastliðinn og bætti við: „Íslenskt samfélag er ekki vant slíkum hótunum og við viljum auðvitað ekki búa við það að flóttamenn eða hælisleitendur sem hér eru þurfi að bíða lausnar mála sinna í tvö til fimm ár. Það er ekki boðlegt.“
Þá sagði hann mikilvægt að skoða hvort nauðsynlegt væri að „flóttamönnum eða hælisleitendum sé snúið við í Keflavík og þeir sendir aftur til síns heima“. Sagðist Ásmundur þekkja af eigin raun hve erfitt væri að taka þátt í umræðu um málefni flóttafólks. „Góða fólkið og fjölmiðlarnir rífa mann í sig ef maður þorir að opna munninn og hafa skoðun. Fólkið í landinu þorir ekki að hafa opinbera skoðun á þessum málum en ég held að það sé mikilvægt að við ræðum það hér í þessum sal hvort ekki þurfi að verða breytingar á opnun landamæra landsins eins og hér hefur auðvitað verið rætt áður. En ég held að það sé mál að linni.“
Áður hafði Ásmundur vakið athygli fyrir ummæli um múslima og þjóðaröryggi Íslendinga. „Hefur bakgrunnur þeirra 1500 múslima sem búa á Íslandi verið kannaður og hvort einhverjir „íslenskir múslimar“ hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í Afganistan, Sýrland eða öðrum löndum þar sem óöld ríkir meðal múslima. Mér hefur ekki áður dottið í hug að spyrja slíkra spurninga því ég trúi alltaf á það góða í öllu fólki en það á ekki lengur við þegar öryggi þjóðarinnar er undir,“ skrifaði Ásmundur á Facebook-síðu sinni í janúar 2015 og fékk hörð viðbrögð, bæði frá flokkssystkinum sínum í Sjálfstæðisflokknum og öðrum.
Athugasemdir