„Ég valdi reyndar ekki Ísland,“ svarar Èric þegar hann fær þessa klassísku spurningu, hvernig það kom til að hann fór frá hinni lifandi og vinsælu borg, Barcelona, til að búa hér uppi á Íslandi. „Það hefði getað verið hvaða staður sem er. Ég var að vinna á dagblaði í Barcelona og í þeirri vinnu hitti ég fólk frá öllum heimshornum. Þar á meðal voru blaðamenn og spænskukennarar frá Íslandi. Þeir buðu mér í heimsókn til Íslands á gamlárskvöld og þannig æxlaðist það að Ísland varð hluti af lífi mínu. Ég verð að viðurkenna að áður vissi ég ekkert um Ísland. Ég vissi af tilvist þess, þarna lengst í norðri, en það er allt og sumt.“
Erlendir miðlar mistúlka Ísland
Það, að Spánverjar viti almennt lítið sem ekkert um Ísland, er einmitt ástæðan fyrir því að átta árum eftir að hann heimsótti Ísland í fyrsta sinn ákvað Èric að búa til nýjan fjölmiðil. Með því vildi hann freista þess að breyta því hversu einhliða umfjöllunin um Ísland er á Spáni og annars staðar í hinum spænskumælandi heimi.
Eftir áramótaheimsóknina kom hann aftur að sumri og eftir það varð ekki aftur snúið, hann kom aftur og aftur, hvenær sem hann hafði fé eða tíma til, þangað til að hann fluttist hingað alfarið með kærustunni fyrir nokkru. „Hér líður mér í fyrsta sinn eins og ég sé raunverulega heima. Ég get ekki útskýrt hvers vegna en ég trúi því að rætur mínar liggi hér, þó ég hafi enga sönnun fyrir því, aðra en þá að ég lít ekki út eins og hinn hefðbundni Spánverji.“
Það var líka hér á landi sem blaðamaðurinn innra með honum tók að vaxa og heimta sitt pláss. Og það var einmitt vegna þess að hann upplifði sterkt hversu skakkt bæði spænskir miðlar og grasrótarhreyfingar þar túlkuðu eftirmál hrunsins á Íslandi. Í djúpri niðursveiflu á Spáni litu margir til Íslands sem fyrirmyndar, héldu að á Íslandi væri fullkomið dæmi um hvernig bregðast ætti við spillingu. „Ég fór að gera mér grein fyrir því að margt af því sem sagt var um Ísland á Spáni var alls ekki satt. Þarna sá ég svart á hvítu hvernig fjölmiðlar geta skekkt heimsmynd okkar. Ég fylgdist með þessum öflugu félagslegu hreyfingum á Spáni líta til Íslands sem fullkominnar fyrirmyndar, meðan ég vissi að fyrirmyndin var í raun og veru aldrei til.“
Athugasemdir