Í Facebook-hópnum Pírataspjallið fyrr í dag sýndi Snæbjörn Brynjarsson hvernig óþægileg ummæli á Facebook-síðu Sjálfstæðisflokksins voru fjarlægð. Ritskoðuðu ummælin voru við færslu þar kynnt var hvernig ungt fólk geti nýtt sér séreignarsparnað til fasteignakaupa. „Núna máttu nýta séreignarsparnað þinn til fasteignakaupa og það skattfrjálst. Þetta hentar jafnt ungu fólki sem er að safna fyrir fyrstu íbúðinni og þeim sem vilja létta byrðarnar með því borga íbúðalánið sitt hraðar upp. Fjárfestu í framtíðinni, þinni framtíð,“ segir í færslu Sjálfstæðisflokksins. Raunar eru einu athugasemdirnar sem eftir sitja spurningar um hvers vegna færslur hafi verið fjarlægðar.
„Þætti gaman að vita hversu mikið þessi 3 ára aðgerð hentar ungu fólki? Hversu margir yngri en 32 ára eiga meira en einhverja þúsundkalla í séreigninni? Húsnæðismarkaðurinn (leigu og kaup) er í rugli og að reyna að telja ungu fólki að þetta sé einhverskonar lausn á því er fráleitt! Takið á vandamálinu,“ skrifaði Snæbjörn fyrr í dag.
Um einni mínútu síðar var þessi færsla fjarlægð. Af skjáskotum að dæma var Snæbjörn ekki sá eini sem hafði verið ritskoðaður. Borgarfulltrúi Pírata, Halldór Auðar Svansson, gagnrýndi þessa ritskoðun á Pírataþráðnum. „Mjög lélegt að standa í því að eyða málefnalegum ummælum. Ekki frelsissinnuð nálgun,“ skrifaði Halldór.
Athugasemdir