Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Sígauninn sem átti apa

Örn Elías Guð­munds­son, Mug­i­son, var að senda frá sér sína fimmtu plötu og þá fyrstu í fimm ár, Enjoy! Þrátt fyr­ir að vera alltaf kynnt­ur sem Ís­firð­ing­ur­inn Mug­i­son er Örn fædd­ur í Reykja­vík, al­inn upp víða um heim og hef­ur aldrei haft fasta bú­setu á Ísa­firði. Íþrótt­ir áttu hug hans all­an sem barns en fimmtán ára gam­all valdi hann sér mentor sem hann bað að kenna sér að vera lista­mað­ur, snar­hætti í íþrótt­un­um, byrj­aði að reykja og drekka, semja ljóð og tónlist og hef­ur aldrei lit­ið um öxl síð­an.

„Ég hef nokkrum sinnum reynt að leiðrétta þennan misskilning um að ég sé Ísfirðingur, en blaðamenn taka það yfirleitt út úr viðtölunum, það þykir greinilega svona óáhugavert,“ segir Örn og glottir. „Ég er hins vegar fæddur í Reykjavík, flutti eins árs til Bolungarvíkur þar sem ég bjó til sex ára aldurs en þá fluttum við til Grænhöfðaeyja og vorum eftir það á flakki þar til ég var svona ellefu, tólf ára gamall. Ég fór ekki til Ísafjarðar fyrr en 2002. Þá var pabbi orðinn hafnarstjóri þar en ég var að reyna að klára BA-nám í hljóðupptöku í London. Ég held að kallinn hafi haft áhyggjur af því að ég væri þar bara að djamma og djúsa þannig að hann bauð mér að koma vestur og búa hjá sér svo ég gæti klárað BA-ritgerðina í rólegheitum. Mér fannst það góð hugmynd þar sem ég var búinn að eyða öllum peningunum mínum í hljóðkort í fartölvuna og hafði verið húsnæðislaus í London í hálft ár. Hugmyndin var að vera á Ísafirði hjá pabba í tvo mánuði og klára ritgerðina, en þar kynntist ég Rúnu Ezradóttur, konunni minni, flutti inn á hana nánast daginn eftir að við kynntumst og síðan höfum við mestan part búið í Súðavík. Samtals hef ég búið tvö ár af ævinni á Ísafirði, þannig að sá stimpill á engan veginn við rök að styðjast. Kom sennilega til af því að þegar fyrsta platan mín kom út var ég á Ísafirði þegar blaðamennirnir hringdu og þeir bara drógu þessa ályktun.“

Æskuárunum varði Örn sem sagt alls ekki á Ísafirði heldur á flakki milli heimsálfa, var sirka hálft árið á Grænhöfðaeyjum, nokkra mánuði á ári í Reykjavík, töluverðan tíma í Portúgal og Danmörku og svo hófst flakkið aftur. Hann segir þennan lífsstíl hafa átt ágætlega við sig, hann sé í rauninni hálfgerður sígauni og finnist hann ekkert eiga rætur á einum stað frekar en öðrum. „Það var frábært að vera krakki í Afríku, synda í sjónum, eiga apa sem gæludýr, vera eiginlega ekkert í skóla og upplifa algjört frelsi. Ég var sendur í einkaskóla þarna á Grænhöfðaeyjum, en það entist stutt, var eiginlega eins og að fara hundrað ár aftur í tímann, kennarinn með brenninetlu til að slá okkur með. Ekki bætti úr skák að ég er bæði les- og skrifblindur þannig að þegar við fluttum heim og ég fór að sækja skóla var ég alltaf alveg á kantinum með að ná að skilja það sem við áttum að læra.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár