Bjarni Ásgeir Jónsson, fyrrum eigandi Rizzo Pizzeria, hefur verið ákærður af sérstökum saksóknara fyrir skilasvik. Samkvæmt ákæru er honum gefið að sök að hafa afsalað sér helmingseignarhlut í fasteign í Mosfellsbæ til eiginkonu sinnar 24. október árið 2013. Stuttu síðar, í janúar árið eftir var, bú Rizzo Pizzeria tekið til gjaldþrotaskipta. Í samtali við Stundina vildi Bjarni ekki tjá sig um málið. Rizzo Pizzeria rak nokkra veitingastaði á höfuðborgarsvæðinu þar á meðal í Bæjarlind í Kópavogi, Hraunbæ og Grensásvegi.
Fasteignin í Mosfellsbæ var metin á rétt tæplega 50 milljónir króna árið 2013 en áhvílandi veðskuld á afsalsdegi var ríflega 46 milljónir króna. Með þessum gjörningi er Bjarni Ásgeir sagður hafa skert rétt MP banka sem lánardrottins en bankinn átti kröfu á hendur Rizzo Pizzeria að fjárhæð 7.358.419 krónur sem tryggð var með sjálfskuldarábyrgð Bjarna. „Framangreindar ráðstafanir ákærða voru til þess fallnar að minnka verulega líkur á því að MP banki hf. gæti fullnustað kröfuna eða hluta hennar en með því skapaðist veruleg hætta á fjártjóni fyrir bankann,“ segir í ákæru. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 1. október næstkomandi.
Í ársreikningi Rizzo Pizzeria fyrir árið 2011 kemur fram að félagið hafi tapað um sjö milljónum króna það ár meðan skuldir félagsins námu ríflega 30 milljónum króna í lok árs. Ógreidd launatengd gjöld fyrirtækisins voru tæplega sex milljónir króna það sama ár. Gjaldþrotaskiptum lauk í júní í fyrra og fundust engar eignir upp í tæplega 80 milljón króna kröfur í þrotabúið.
Athugasemdir