Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fór með rangt mál í viðtali við RÚV í gærkvöldi þegar hann sagðist ekki hafa fengið skýrslu starfshóps um umfang aflandseigna Íslendinga inn í ráðuneyti sitt fyrr en eftir að þingi var slitið í október. Í sama viðtali sakaði hann pólitíska andstæðinga um „þvætting“, „fyrirslátt“ og „pólitík“.
Hið rétta er að umrædd skýrsla var afhent fjármála- og efnahagsráðuneytinu þann 13. september þegar um mánuður var eftir af þingstörfum. Þetta hefur ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins staðfest við fréttastofu RÚV. Samdægurs fékk starfshópurinn tilkynningu frá ráðuneytinu um að störfum hans væri lokið og voru engar efnislegar breytingar gerðar á skýrslunni eftir þetta. Þingi var slitið þann 13. október, en þá hafði ráðuneytið ekki aðeins fengið skýrsluna afhenta heldur hafði ráðherra einnig fengið kynningu á efni hennar.
„Ónákvæm tímalína“
Bjarni fullyrti þrisvar sinnum í gær að hann hefði ekki fengið skýrsluna fyrr en eftir að þingi var slitið:
1. „Skýrslan er í raun og veru ekki komin til okkar svona í endanlegri mynd fyrr en eftir að þing er farið heim.“
2. „Þegar skýrslan var í raun og veru endanlega tilbúin þá var þing farið heim og kosningar framundan, engin nefnd að störfum í þinginu til þess að taka við henni og svo framvegis.“
3. „Hún kemur inn í ráðuneytið einhvern tímann í október… svona í sinni endanlegu mynd.“
Þegar RÚV ræddi aftur við Bjarna í kvöld sagði hann að tímalína sín hefði ekki verið nákvæm: „Þetta var nú kannski ekki alveg nákvæm tímalína hjá mér eins og ég fór yfir þetta í gær. En það sem ég átti við, og það sem var í huga mér, var það, þegar þessi skýrsla er kynnt fyrir mér sem er þarna í fyrstu vikunni í október þá standa yfir samningar um þinglok. […] Í huga mínum í gær þá hugsaði ég með mér, mér leið eins og þingið hefði bara verið farið heim, en þetta var kannski ekki nákvæm tímalína hjá mér og ég biðst nú velvirðingar á því.“
Kann engar skýringar á ósýnilegu dagsetningunni
Eins og bent hefur verið á má finna orðin „september 2016“ á forsíðu skýrslunnar, en þau eru hvíttuð og ósýnileg nema tekið sé utan um textann. RÚV fullyrðir að dagsetningin hafi verið greinanleg á forsíðu upprunalegu skýrslunnar sem starfshópurinn skilaði ráðuneytinu. Þannig virðist sem litnum hafi verið breytt áður en skýrslan var birt opinberlega á ráðuneytisvefnum.
Aðspurður hvort hann hefði sjálfur látið hvítta textann sagði Bjarni: „Nei, það gerði ég svo sannarlega ekki. Ég hef ekki hugmynd um það hvers vegna eitthvað slíkt kann að hafa átt sér stað.“ Í viðtalinu sagðist einnig hafa sjálfur ákveðið að birta ekki skýrsluna opinberlega fyrr en eftir kosningar kosningar, enda hefði hann ekki viljað „setja skýrsluna í kosningasamhengi“.
Stjórnarmyndunarviðræður standa nú yfir milli Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins og útlit fyrir að Bjarni Benediktsson taki við embætti forsætisráðherra á næstu dögum.
Athugasemdir