Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Nýja fólkið sem tekur völdin

Gríð­ar­leg end­ur­nýj­un verð­ur á þing­manna­lið­inu verði nið­ur­stöð­ur al­þing­is­kosn­ing­anna í takt við nýj­asta þjóðar­púls Gallup. Fjöl­marg­ir nú­ver­andi þing­menn kom­ast ekki inn á þing og tutt­ugu og fimm ein­stak­ling­ar munu taka sæti á Al­þingi í fyrsta sinn. Stund­in kynnti sér þá ein­stak­linga sem eru hvað lík­leg­ast­ir, mið­að við kann­an­ir, til þess að verða þing­menn á næstu kjör­tíma­bili.

Þrjátíu og fimm nýir þingmenn taka sæti á Alþingi ef niðurstaða kosninganna 29. október verður í takt við nýjan þjóðarpúls Gallup. Þrettán konur og tuttugu og tveir karlar. Þar af hafa einungis tíu setið á þingi áður, annaðhvort sem þingmenn eða varaþingmenn. Tuttugu og fimm væru að taka sæti á Alþingi í fyrsta sinn. Þetta þýðir líka að 35 einstaklingar sem gegnt hafa þingmennsku á síðasta kjörtímabili munu þurfa að kveðja þingsalinn verði þetta niðurstaðan. Skoðanakannanir undanfarið hafa sýnt að þónokkur hreyfing er á fylgi stjórnmálaflokkanna nú þegar minna en mánuður er til kosninga. Þá eru margir ennþá óákveðnir eða kjósa að gefa ekki upp afstöðu sína.

Stundin notaði niðurstöður þessa síðasta þjóðarpúls Gallup til þess að reikna út hvaða einstaklingar kæmu nýir inn á þing ef kosningar færu fram núna og niðurstöður yrðu í samræmi við sömu skoðanakönnun. Í ljós kemur að 35 nýir þingmenn tækju sæti á Alþingi í kosningum núna, á meðan einungis 28 þeirra þingmanna sem störfuðu á síðasta kjörtímabili munu ná endurkjöri. Í því samhengi er þó vert að benda á að fjölmargir þeirra hafa kosið að gefa ekki kost á sér í kosningunum í haust. Flestir nýir þingmenn myndu koma úr röðum Pírata, eða tólf talsins. Þá kæmu níu nýir þingmenn frá Viðreisn inn á þing, sjö frá Sjálfstæðisflokknum, tveir frá Samfylkingu, fimm frá Vinstri grænum á meðan endurnýjunin yrði engin hjá Framsókn og Björt framtíð næði ekki manni inn.

Sem fyrr segir byggir umfjöllun Stundarinnar á nýjasta þjóðarpúlsi Gallup, netkönnun sem tekin var dagana 16. til 29. september 2016. Heildarúrtaksstærð var 3.035, þátttökuhlutfall var 59,2 prósent og einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. Tæplega 10 prósent tóku ekki afstöðu eða neituðu að gefa hana upp og liðlega átta prósent svarenda sögðust myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag. Þann fyrirvara verður að setja við niðurstöðuna að ekki er fyllilega marktækt að ganga út frá niðurstöðum fyrir hvert kjördæmi. Vikmörk eru há vegna þess hve fá svör eru þegar svarendum könnunarinnar er skipt í hópa eftir kjördæmum. Kannanirnar gefa hins vegar ákveðna vísbendingu um það hvernig Alþingi Íslendinga gæti litið út eftir komandi kosningar.

Alþingi25 þingmenn koma inn á Alþingi í fyrsta sinn, ef niðurstöður síðustu könnunar Gallups verða að veruleika í alþingiskosningunum.

Björt framtíð úti

Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar séu enn stærstu flokkarnir dalar fylgi þeirra eilítið frá síðustu mælingu Gallup á meðan fylgi Viðreisnar fer örlítið upp á við. Tæplega 21 prósent segist myndi kjósa Pírata sem er tæplega þremur prósentustigum minna en í síðustu mælingu og nær 24 prósent segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem er um tveimur prósentustigum minna en fyrri hluta september. Þá segjast ríflega þrettán prósent myndu kjósa Viðreisn. Þessar breytingar eru þó það litlar að þær eru vart tölfræðilega marktækar. Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar um tvö prósentustig frá síðustu mælingu en nær 36 prósent segjast styðja ríkisstjórnina.

Eina tölfræðilega marktæka breytingin milli mælinga er fylgisaukning Bjartrar framtíðar sem bætir við sig tæpum tveimur prósentustigum milli mælinga, en 4,7 prósent segjast myndu kjósa Bjarta framtíð færu kosningar til Alþingis fram í dag. Flokkurinn næði þó ekki yfir fimm prósenta þröskuldinn ef þetta yrði niðurstaðan og myndi því ekki fá neinn kjörinn á þing. Það myndi þýða að þingmennirnir Björt Ólafsdóttir, Óttarr Proppé og Páll Valur Björnsson, sem öll leiða lista flokksins í ólíkum kjördæmum, myndu þurfa að taka poka sinn. Tæplega 16 prósent segjast myndu kjósa Vinstri græn, sem er um tveimur prósentustigum meira en í síðustu mælingu. Rúmlega átta prósent segjast ætla að kjósa Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn. Aðrir flokkar ná ekki upp fyrir fimm prósenta múrinn og myndu því ekki ná manni inn.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Alþingiskosningar 2016

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár