Líklegt er að einhver formanna stjórnmálaflokkanna sem náðu kjöri til Alþingis þurfi að breyta afstöðu sinni til samstarfs með Sjálfstæðisflokknum eftir Alþingiskosningar 2016.
Allir þrír stærstu sigurvegarar kosninganna, sem bættu við sig 17 þingmönnum í kosningunum, hafa lýst yfir andstöðu við að vinna með stærsta flokknum, Sjálfstæðisflokknum. Viðreisn hefur ekki hafnað því að vinna með Sjálfstæðisflokknum einum og sér, en hafnað því að vinna með Sjálfstæðisflokknum að viðbættum Framsóknarflokknum.
Píratar hafa hafnað því afdráttarlaust að vinna með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki vegna „spillingar“ og svika á loforðum, samkvæmt tilkynningu á blaðamannafundi fyrir kosningar. Smári McCarthy sagði í morgun að verið væri að „verðlauna Sjálfstæðisflokkinn fyrir aðkomu að spillingu“. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, ítrekaði í umræðum flokksformanna á Stöð 2 í hádeginu að vinna með Sjálfstæðisflokknum.
Þá hefur formaður Viðreisnar hafnað því að vinna með flokkunum tveimur í einu og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagðist ekki ætla í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.
„Við höfum ekki séð slíkt samstarf fyrir okkur,“ sagði Katrín á Stöð 2 í hádeginu, um mögulega stjórn með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn.
Þá eru eftir nokkrir möguleikar sem eru erfiðir málefnalega séð.
Sjálfstæðisflokkurinn er í lykilstöðu eftir Alþingiskosnngarnar með 21 þingmann af 63 á Alþingi, miðað við stöðuna í nótt. Næstir koma vinstri grænir með 10 þingmenn, Píratar með 10 þingmenn, Viðreisn með 7, Framsókn með 8, Björt framtíð með 4 og Samfylking með 3.
Gefur Viðreisn eftir fyrir völdin?
Sjálfstæðisflokkurinn getur myndað 36 manna ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og Viðreisn. Hins vegar hefur Benedikt Jóhannesson sagt að hann myndi ekki ríkisstjórn með fráfarandi ríkisstjórnarflokkum. „Það verður ekki slík ríkisstjórn. Það verður ekki ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks, og Viðreisnar eftir kosningar,“ sagði Benedikt í Harmageddon á X-inu 977 18. október.
„Það verður ekki ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks, og Viðreisnar eftir kosningar“
Þá eru nokkur stefnumál í veginum fyrir slíku samstarfi. Viðreisn vill uppboðsleiðina í kvóta, en hinir flokkarnir tveir eru andsnúnir. Þá falla hugmyndir Viðreisnar um myntráð eða mögulega aðild að Evrópusambandinu ekki að hugmyndum hinna flokkanna í gjaldmiðilsmálum. Loks leggur Viðreisn áherslu á innleiðingu samkeppni í landbúnaðarmálum, sem gengur í berhögg við hina flokkana tvo. Að öðru leyti gæti skattastefna flokkanna fallið vel saman.
Hins vegar mælir fylgishrun Framsóknarflokkinn gegn því að flokkurinn verði í ríkisstjórn. Þá hefur Benedikt endurtekið yfirlýsingu sína eftir kosningar, um að hann fari ekki í stjórn með fráfarandi ríkisstjórnarflokkum.
Vinstri grænir með Sjálfstæðisflokki
Hugmyndafræðilegur samhljómur gæti verið mikill í breiðri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, hugsanlega með Framsóknarflokknum án ráðherrastóls fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson.
Flokkarnir eiga samleið í gjaldmiðlamálum, þar sem allir vilja halda krónunni. Enginn þeirra vill ganga í Evrópusambandið. Þeir eru allir íhaldssamir í landbúnaðarmálum og styðja ríkisstyrki. Loks eru bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur andvígir uppboðsleiðinni í sjávarútvegi, en Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hefur haldið öllu opnu í þeim efnum. Þá hefur Katrín verið sátt við takmarkaðar endurbætur á stjórnarskránni samhliða Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki.
Hins vegar lét Katrín þau orð falla viku fyrir kosningar að hún vildi ekki ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, eftir að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hafði ýjað að því að slíkt samstarf væri á teikniborðinu. Sú afstaða Katrínar var í samræmi við ályktun VG.
„Nei, mín afstaða er í samræmi við þá stefnu sem mín hreyfing hefur tekið og samþykkti meira að segja í ályktun fyrr á þessu ári um að við sjáum fyrir okkur að ef stjórnarandstöðuflokkarnir fái til þess umboð eigi þeir að mynda hér ríkisstjórn að loknum kosningum.“
Því mætti túlka afstöðu Katrínar þannig að stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu ekki fengið umboð til að mynda ríkisstjórn og þess vegna hafi þurft að leita annarra leiða.
„Hins vegar er það óhugsandi við núverandi kringumstæður ...“
Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG í Reykjavík suður, tók hins vegar dýpra í árinni en Katrín þegar hún útilokaði samstarf með Sjálfstæðisflokknum.
„Vera kann að samstarf af þessu tagi hafi einhvern tíma verið á dagskrá hér fyrr á árum. Hins vegar er það óhugsandi við núverandi kringumstæður eftir aðdraganda kosninganna, uppljóstranirnar úr Panama-skjölunum og viðbrögð forystumanna stjórnarflokkanna. Þetta hljóta allir að sjá.“
Líklegt er að þessir flokkar nái saman um uppbyggingu innviða, með því svigrúmi sem er til staðar í ríkisfjármálum, þótt stefna þeirra í skattamálum gæti stangast á.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í kosningasjónvarpi RÚV í nótt að það væri „ekki óspennandi“ ef Katrín Jakobsdóttir færi til samstarfs með Bjarna. „Það er ljóst að vinstri grænir verða við borðið,“ sagði Rósa Björk Brynjólfsdóttir, oddviti VG í suðvesturkjördæmi, í nótt. Þá sagði Katrín í nótt að kominn væri tími á meiri fjölbreytni.
Líklegra væri að VG vildi vinna með Viðreisn, ásamt Sjálfstæðisflokknum, eða Bjartri framtíð, heldur en Framsóknarflokknum. Bæði Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna, Björt Ólafsdóttir og Svandís Svavarsdóttur, töluðu gegn mögulegu samstarfi með Framsóknarflokknum í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Katrín Jakobsdóttir hefur hins vegar endurtekið andstöðu sína við ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Hún segist hafa viljað stjórn þeirra sem hafa haft minnihluta á Alþingi. „En það virðist ekki í spilunum. Við höfum líka sagt að við teljum nánast enga málefnalega samleið með okkur og Sjálfstæðismönnum og það hefur ekkert breyst í því. Eins og ég er búin að segja, þetta eru þeir flokkar sem standa lengst frá hvor öðrum í íslenskum stjórnmálum. Við sjáum ekki fyrir okkur slíkt samstarf,“ sagði hún í samtali við Mbl.is.
Björt framtíð í breiðri stjórn
Sjálfstæðisflokkurinn gæti líklega myndað ríkisstjórn með Vinstri grænum og Bjartri framtíð, án þess að síðastnefndi flokkurinn þyrfti formlega að brjóta kosningaloforð.
Bæði landbúnaðar- og sjávarútvegsstefna Bjartrar framtíðar er nægilega opin og óljós til þess að bjóða upp á ólíklegt samstarf, þrátt fyrir að flokkurinn sé hlynntari breytingum en hinir tveir.
Þó svo að Björt framtíð leggi áherslu á breytingu á stjórnarskránni er orðalagið nægilega opið til þess að samþykkja þær takmörkuðu breytingar sem þegar hafa verið lagðar til í stjórnlaganefnd Alþingis, meðal annars að undirlagi Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins: „Björt framtíð leggur þunga áherslu á að breytingar verði gerðar á stjórnarskrá Íslands í samræmi við vilja þjóðarinnar, eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar haustið 2012.“
Stefna Bjartrar framtíðar er hins vegar ekki afdráttarlaus. Fyrirsjáanlegur árekstur væri í Evrópusambandsmálinu, en sneiða mætti hjá honum með því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort ganga ætti í Evrópusambandið, eins og fráfarandi ríkisstjórnarflokkar höfðu þegar lofað fyrir síðustu Alþingiskosningar 2013: „Björt framtíð leggur áherslu á að landa góðum samningi við ESB sem þjóðin getur eftir upplýsta umræðu, samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá opnast leið til gjaldmiðilssamstarfs við Evrópska seðlabankann (ERM II), sem strax getur aukið stöðugleika. Svo getum við tekið upp evru þegar skilyrði skapast til þess. Það er auðvitað ekki töfralausn en þó að öllum líkindum sigurstranglegasta leiðin í átt að efnahagslegum stöðugleika ...Björt framtíð vill að Ísland vinni Eurovision.“
Ný „Viðreisnarstjórn“ með Bjartri framtíð
Hins vegar hægt að mynda tæpa ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Slík ríkisstjórn væri tæp, með aðeins 32 þingmenn gegn 31 þingmanni stjórnarandstöðu, með sama meirihluta og Nýsköpunarstjórnin 1944 til 1947 og Viðreisnarstjórnin 1963 til 1971, sem samsett var af hægri og vinstri flokki, Sjálfstæðis- og Aþýðuflokki. Allir flokkarnir þrír eru í kringum miðju eða hægra megin við hana í efnahagslegu tilliti. Helsti ágreiningurinn gæti legið í sjávarútvegsmálum, þar sem Viðreisn hafði talað fyrir uppboði á aflaheimildum, en Sjálfstæðisflokkurinn staðið harður gegn því. Þá falla stefnur Viðreisnar og Bjartrar framtíðar ágætlega saman. Í þeirri ríkisstjórn hefur enginn útilokað samstarf við annan, ólíkt flestum öðrum mögulegum ríkisstjórnarsamstörfum.
Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, virtist opinn fyrir öllu í umræðum formanna á Stöð 2 í hádeginu. „Málefnalega hafa þessir flokkar verið ansi langt í sundur. En það er ekki ástæða til að útiloka neitt fyrirfram,“ sagði Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.
Loks væri fimm flokka stjórn Pírata, VG, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar möguleg, með 35 þingmenn, en fimm flokka ríkisstjórn hefur aldrei verið við völd hér á landi.
Eftir kosningarnar 1987 myndaði hins vegar Steingrímur Hermannsson breiða ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og svo Borgaraflokks, með stuðningi Samtaka um jafnrétti og félagshyggju og lýsti hann eftir á mikilli ánægju með þá ríkisstjórn.
Viðreisn lýsir hins vegar efasemdum með fimm flokka ríkisstjórn. „Þá værum við að ganga inn í Píratabandalagið. Ég held að það væri á skjön við úrslit kosninganna,“ sagði Benedikt Jóhannesson á Stöð 2 í hádeginu.
Athugasemdir