Háskóli Íslands hefur tekið úr birtingu meistararitgerð mannfræðingsins Ómars Valdimarssonar, Draumland í Dumbshafi, sem fjallar um mannlíf í Grímsey. Fullyrt er að um sé að ræða grófar rangfærslur í ritgerðinni og innrás í einkalíf fólks þar sem ljóstrað er upp um veikindi þess og einkamál án þess að það hafi verið gefið leyfi fyrir slíku. Ritgerðin hafði verið birt á skemman.is en er nú horfin þaðan. Þórður Kristinsson kennslustjóri staðfestir það við Stundina að ritgerðin sé nú til athugunar í þessu ljósi.
„Fræðasvið er með þetta mál til skoðunar,“ segir Þórður. Hann staðfestir að ritgerðin hafi verið tekin niður og verði ekki í opinberri birtingu á meðan farið verði ofan í málin.
Grímseyingar reiðir
Mikil reiði er meðal Grímseyinga vegna ritgerðarinnar sem fjallar um ýmis viðkvæm mál sem gengið hafa yfir í eyjunni. Þar er farið ofan í ýmis mál, svo sem fjárdráttarmál fyrrverandi sveitarstjóra og ásakanir um kynferðisbrot útgerðarmanns, sem fór á ákærusvið en var fellt niður.
Athugasemdir