Kynbundinn launamunur er enn staðreynd í íslensku samfélagi og á mánudaginn á að grípa til aðgerða. Aðgerðirnar geta haft víðtæk áhrif á samfélagið, en nú þegar hafa sumir leikskólar í Reykjavík óskað eftir því að foreldrar sæki börnin snemma á mánudag. Er þeirri ósk sérstaklega beint að feðrum barnanna.
Á mánudag eru 41 ár síðan 25 þúsund íslenskar konur lögðu niður störf og fylktu liði á Lækjartorg með það að markmiði að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna. Í ár stendur til að endurtaka leikinn og hvetja samtök launafólks og samtök kvenna konur til að leggja niður vinnu kl. 14.38 á mánudaginn og mæta á samstöðufund á Austurvelli kl. 15.15. Á fundinum verður kynbundnum launamun mótmælt og vanmati á störfum kvenna.
„Við þurfum að minna á að við konur erum ekkert að þagna og sýna þann mátt sem býr í kvennasamstöðunni. Við viljum kjarajafnrétti strax og við hljótum að geta náð til tugþúsunda kvenna. Þetta er málefni okkar allra, hvort sem er ungra, miðaldra eða eldri kvenna. Að sjálfsögðu hvetjum við líka alla karla til að mæta,“ sagði Maríanna Traustadóttir, sérfræðingur í jafnréttis- og umhverfismálum hjá ASÍ, og ein margra kvenna sem koma að skipulagningu viðburðarins, í samtali við Stundina fyrr í mánuðinum.
Athugasemdir