Þann 24. október næstkomandi er 41 ár liðið frá því að 25 þúsund íslenskar konur lögðu niður störf og fylktu liði á Lækjartorg. Markmiðið var að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna og það tókst vel. Atvinnulífið lamaðist og máttur kvennasamstöðunnar varð öllum ljós um stund. Í ár á að endurtaka leikinn, eins og hefur verið gert nokkrum sinnum síðan, eða árin 1985, 2005 og 2010.
Fundinn ber upp í sömu viku og Alþingiskosningar fara fram. „Það er auðvitað ekki oft sem 24. október lendir svo skömmu fyrir Alþingiskosningar og auðvitað vonumst við til þess að útifundurinn verði til þess að jafnréttismál verði mál málanna hjá nýrri ríkisstjórn,“ segir Maríanna Traustadóttir, sérfræðingur í jafnréttis- og umhverfismálum hjá ASÍ, og ein margra kvenna sem koma að skipulagningu viðburðarins. Að honum standa heildarsamtök launafólks, ASÍ, BSRB, BHM, KÍ og SSF, og kvennahreyfingin öll, með Kvenréttindafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Stígamót, Kvennaathvarfið, Knúz, Tabú og Feminístafélag HÍ innanborðs.
„Kosningarnar eru þó ekki ástæðan fyrir því að við ákváðum að blása til kröfufundar nú, heldur voru það niðurstöður launakannana undanfarinna vikna og mánaða, meðal annars frá BHM, VR og SFR. Allar eru þær konum mjög í óhag og sýna svo ekki verður um villst að launamunur er sannarlega til staðar og að hann fari ekki minnkandi milli ára. Við viljum útrýma þessum mun. Hann er mein sem verður að vinna á,“ segir Maríanna.

„Þetta er óásættanlegt.“
Öllum sé ljóst að baráttunnar sé enn þörf og tími sé kominn til að minna á mátt kvennasamstöðunnar aftur. Hún vonast eftir því að tugþúsundir kvenna flykkist á Austurvöll. „Við þurfum að minna á að við konur erum ekkert að þagna og sýna þann mátt sem býr í kvennasamstöðunni. Við viljum kjarajafnrétti strax og við hljótum að geta náð til tugþúsunda kvenna. Þetta er málefni okkar allra, hvort sem er ungra, miðaldra eða eldri kvenna. Að sjálfsögðu hvetjum við líka alla karla til að mæta.“
Kynbundinn launamunur hafi áhrif á kjör kvenna almennt, frá upphafi starfsævinnar og fram á eldri ár. Hann sé þó aðeins einn hluti af því mikla kjaramisrétti sem viðgangist á Íslandi. Það eigi sér margar birtingarmyndir. „Við sjáum ungar, menntaðar konur hefja störf á sömu launum og karlarnir en fljótlega byrjar bilið að aukast. Það er meðal annars vegna þess að þær fara frá til að eignast börnin. Samfélag okkar er enn þannig að ólaunuð umönnunarvinna lendir meira á konum en körlum. Konur stunda frekar hlutastörf en karlar, oft vegna þess að þær eru undir meira álagi inn á heimilinu. Þar með hafa þær ekki aðgang að frekari framgangi í störfum sínum. Svona gengur þetta alla starfsævina og endar í lífeyriskjörunum, sem eru alla jafna verri hjá konum en körlum. Þetta er óásættanlegt.“
Athugasemdir