Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Kvennafrídagurinn endurvakinn í ár

Kvenna­hreyf­ing­in og heild­ar­sam­tök launa­fólks ætla að boða til úti­fund­ar 24. októ­ber næst­kom­andi klukk­an 15, und­ir yf­ir­skrift­inni kjara­jafn­rétti strax. All­ar kon­ur eru hvatt­ar til þess að leggja nið­ur störf snemma þann dag og fylkja liði nið­ur á Aust­ur­völl. Von­ast er til þess að tug­þús­und­ir kvenna taki þátt.

Kvennafrídagurinn endurvakinn í ár
Forsíða Morgunblaðsins 25. október 1975 Um 25 þúsund konur tóku sér kvennafrí árið 24. október 1975 og mættu á kröfufundi víðs vegar um land. Vonast er til þess að enn fleiri mæti í ár. Mynd: timarit.is

Þann 24. október næstkomandi er 41 ár liðið frá því að 25 þúsund íslenskar konur lögðu niður störf og fylktu liði á Lækjartorg. Markmiðið var að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna og það tókst vel. Atvinnulífið lamaðist og máttur kvennasamstöðunnar varð öllum ljós um stund. Í ár á að endurtaka leikinn, eins og hefur verið gert nokkrum sinnum síðan, eða árin 1985, 2005 og 2010.

Fundinn ber upp í sömu viku og Alþingiskosningar fara fram. „Það er auðvitað ekki oft sem 24. október lendir svo skömmu fyrir Alþingiskosningar og auðvitað vonumst við til þess að útifundurinn verði til þess að jafnréttismál verði mál málanna hjá nýrri ríkisstjórn,“ segir Maríanna Traustadóttir, sérfræðingur í jafnréttis- og umhverfismálum hjá ASÍ, og ein margra kvenna sem koma að skipulagningu viðburðarins. Að honum standa heildarsamtök launafólks, ASÍ, BSRB, BHM, KÍ og SSF, og kvennahreyfingin öll, með Kvenréttindafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Stígamót, Kvennaathvarfið, Knúz, Tabú og Feminístafélag HÍ innanborðs.

„Kosningarnar eru þó ekki ástæðan fyrir því að við ákváðum að blása til kröfufundar nú, heldur voru það niðurstöður launakannana undanfarinna vikna og mánaða, meðal annars frá BHM, VR og SFR. Allar eru þær konum mjög í óhag og sýna svo ekki verður um villst að launamunur er sannarlega til staðar og að hann fari ekki minnkandi milli ára. Við viljum útrýma þessum mun. Hann er mein sem verður að vinna á,“ segir Maríanna. 

Maríanna Traustadóttir

„Þetta er óásættanlegt.“

Öllum sé ljóst að baráttunnar sé enn þörf og tími sé kominn til að minna á mátt kvennasamstöðunnar aftur. Hún vonast eftir því að tugþúsundir kvenna flykkist á Austurvöll. „Við þurfum að minna á að við konur erum ekkert að þagna og sýna þann mátt sem býr í kvennasamstöðunni. Við viljum kjarajafnrétti strax og við hljótum að geta náð til tugþúsunda kvenna. Þetta er málefni okkar allra, hvort sem er ungra, miðaldra eða eldri kvenna. Að sjálfsögðu hvetjum við líka alla karla til að mæta.“  

Kynbundinn launamunur hafi áhrif á kjör kvenna almennt, frá upphafi starfsævinnar og fram á eldri ár. Hann sé þó aðeins einn hluti af því mikla kjaramisrétti sem viðgangist á Íslandi. Það eigi sér margar birtingarmyndir. „Við sjáum ungar, menntaðar konur hefja störf á sömu launum og karlarnir en fljótlega byrjar bilið að aukast. Það er meðal annars vegna þess að þær fara frá til að eignast börnin. Samfélag okkar er enn þannig að ólaunuð umönnunarvinna lendir meira á konum en körlum. Konur stunda frekar hlutastörf en karlar, oft vegna þess að þær eru undir meira álagi inn á heimilinu. Þar með hafa þær ekki aðgang að frekari framgangi í störfum sínum. Svona gengur þetta alla starfsævina og endar í lífeyriskjörunum, sem eru alla jafna verri hjá konum en körlum. Þetta er óásættanlegt.“

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Presturinn þurft að ýta ferðamönnum út úr kirkjunni
4
FréttirFerðamannalandið Ísland

Prest­ur­inn þurft að ýta ferða­mönn­um út úr kirkj­unni

Jó­hanna Magnús­dótt­ir, prest­ur í Vík­ur­kirkju, seg­ir dæmi um að er­lend­ir ferða­menn reyni að kom­ast inn í kirkj­una til að taka mynd­ir skömmu áð­ur en kistu­lagn­ing fer fram. Hún hafi þurft að breyta sér í dyra­vörð íklædd­an hempu til að ýta þeim ágeng­ustu út úr kirkj­unni. Björg­un­ar­sveit­in í Vík hef­ur um þriggja ára skeið séð um að loka veg­in­um upp að kirkj­unni með­an út­far­ir fara þar fram.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Ferðamenn hafi þrengt sér „inn í það allra helgasta“
1
ViðtalFerðamannalandið Ísland

Ferða­menn hafi þrengt sér „inn í það allra helg­asta“

Börn manns sem var jarð­að­ur frá Vík­ur­kirkju í júní segja að ís­lensk­ur rútu­bíl­stjóri hafi hleypt tug­um ferða­manna út úr rútu við kirkj­una um klukku­stund fyr­ir at­höfn. Ferða­menn hafi tek­ið mynd­ir þeg­ar kist­an var bor­in inn fyr­ir at­höfn, reynt að kom­ast inn í kirkj­una og tog­að í fán­ann sem var dreg­inn í hálfa stöng.

Mest lesið í mánuðinum

Hann var búinn að öskra á hjálp
3
Viðtal

Hann var bú­inn að öskra á hjálp

Hjalti Snær Árna­son hvarf laug­ar­dag­inn 22. mars. For­eldr­ar hans lásu fyrst um það í frétt­um að hans væri leit­að í sjón­um, fyr­ir það héldu þau að hann væri bara í göngu­túr. En hann hafði lið­ið sál­ar­kval­ir, það vissu þau. Móð­ir Hjalta, Gerð­ur Ósk Hjalta­dótt­ir, lýs­ir því hvernig ein­hverf­ur son­ur henn­ar gekk á veggi allt sitt líf, og hvernig hann veikt­ist svo mik­ið and­lega að þau voru byrj­uð að syrgja hann löngu áð­ur en hann var dá­inn.
Ferðamenn hafi þrengt sér „inn í það allra helgasta“
5
ViðtalFerðamannalandið Ísland

Ferða­menn hafi þrengt sér „inn í það allra helg­asta“

Börn manns sem var jarð­að­ur frá Vík­ur­kirkju í júní segja að ís­lensk­ur rútu­bíl­stjóri hafi hleypt tug­um ferða­manna út úr rútu við kirkj­una um klukku­stund fyr­ir at­höfn. Ferða­menn hafi tek­ið mynd­ir þeg­ar kist­an var bor­in inn fyr­ir at­höfn, reynt að kom­ast inn í kirkj­una og tog­að í fán­ann sem var dreg­inn í hálfa stöng.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár