Tæp 90 prósent landsmanna vilja taka á móti flóttamönnum frá Sýrlandi. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR um viðhorf Íslendinga til þess fjölda flóttamanna frá Sýrlandi sem Ísland ætti að taka á móti á næstu tólf mánuðum. Töluverður munur reyndist hins vegar á fjölda þeirra flóttamanna sem svarendur töldu að ríkið ætti að taka á móti. Langflestir, eða 30,2 prósent, sögðu að taka ætti á móti fleiri en 500 flóttamönnum, 25,2 prósent sögðu að taka ætti við á bilinu 151 til 500 flóttamönnum, 14 prósent sögðu að taka ætti við 150 flóttamönnum og 19,1 prósent sögðu að taka ætti á móti allt að fimmtíu flóttamönnum.
Eftir stendur að 11,5 prósent landamanna vilja ekki taka á móti neinum flóttamönnum frá Sýrlandi. Nokkur munur reyndist á viðhorfi svarenda til fjölda flóttamanna sem Ísland ætti að taka á móti eftir stuðningi þeirra við stjórnmálaflokka.
Af þeim sem studdu ríkisstjórnina og tóku afstöðu voru 42 prósent sem sögðu að taka ætti á móti engum eða allt að 50 flóttamönnum á næstu tólf mánuðum samanborið við 23 prósent þeirra sem ekki studdu ríkisstjórnina. Af stuðningsmönnun einstaka stjórnmálaflokka reyndust fylgismenn Bjartrar framtíðar hlynntastir því að taka á móti miklum fjölda flóttamanna en 36 prósent stuðningsmanna flokksins sögðu að taka ætti á móti fleiri en 2000 flóttamönnum. Á móti reyndust fylgjendur Framsóknarflokksins síst þá því að taka á móti flóttamönnum, en 18 prósent þeirra töldu að taka ætti við engum flóttamönnum frá Sýrlandi á næstu tólf mánuðum.
Athugasemdir